Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:35:00 (1429)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vona að forseti telji ekki að ég sé að fara út fyrir þingskapaumræðu þó að ég komi hér með upplýsingar sem tengjast mjög þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og munu nú, virðulegi forseti, væntanlega verða til þess að staðfesta góða stjórn forseta á þinginu í vetur. Ég fór hér fram og fékk útskrifað stöðu stjórnarfrumvarpa eins og þau standa núna. Þar standa mál þannig að frumvörp sem þingið er búið að afgreiða til nefndar með atbeina og góðum vilja stjórnarandstöðunnar eru 28. Umræðu bíða tíu mál, þar af tvö sem bíða 3. umr., eitt sem er í umræðu og þrjú sem eru nýkomin inn i þingið. Út frá þessum upplýsingum má það vera ljóst að hér hafa stjórnarandstæðingar ekki tafið fyrir þingstörfum í vetur.
    Þetta vil ég biðja þá hæstv. ráðherra sem hér hafa farið upp og sumir með miklum fyrirgangi að taka til athugunar.
    Ég vil einnig, virðulegi forseti, minna á það að stjórnarandstæðingar hafa mætt vel og unnið vel í nefndum til þess að koma þessum málum aftur inn í þingsali. Ég vil einnig, virðulegi forseti, minna á það að þingið og ekki síst stjórnarandstaðan bíður eftir mikilvægustu málum haustþingsins. Við bíðum enn þá eftir því að hæstv. ríkisstjórn komi fram með tekjuöflunarfrumvörpin sem verða að vera komin til þess að hægt sé að afgreiða fjárlög.
    Ég vona að þessi ræða mín staðfesti að á engan hátt er hægt að sakast við stjórnarandstöðuna um hvernig staða mála hér í þinginu nú í haust er.