Fjáraukalög 1991

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 13:06:00 (1436)

     Kristinn H. Gunnarsson :

     Virðulegi forseti. Ekki get ég nú sagt, og tekið þar undir með hæstv. forsrh., að síðasta ræða hafi verið mjög ómálefnaleg. Ég held þvert á móti að hún hafi verið dæmi um þær ræður sem stjórnarandstaðan hefur verið að flytja á þessu þingi.
    Varðandi þessar brtt., sem eru komnar fram, tek ég undir það sjónarmið hjá formanni nefndarinnar að það þurfi að fara yfir málefni flóabáta og strandsiglinga og reyna að finna flöt á því að vinna þau mál þannig að menn komist af með minna fé en nú er, en ég undirstrika að í mínum huga þýðir það ekki að á nokkurn hátt eigi að draga úr þeirri þjónustu sem menn búa við í dag. Eins vil ég líka láta koma fram að það er í raun og veru eðli þessara flutninga, sérstaklega flóabáta, að þeir eru nauðsynlegir til að mæta þeim kröfum um þjónustu frá hendi samfélagsins sem íbúar á svo fámennum og afskekktum stöðum setja fram.
    Hvað varðar brtt. á þskj. 177 vil ég láta það koma fram að ég er í raun og veru andvígur þeirri tillögu, sem hér liggur fyrir, að taka út úr núgildandi fjárlögum 350 millj. kr. framlag til jarðganga á Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að þessi breyting verður til þess að skerða aðrar framkvæmdir í vegamálum á móti með því að ýta þessu fé yfir á almenna vegáætlun. Ég er andvígur því að stilla málum þannig upp að menn séu látnir gjalda þess í raun í öllum kjördæmum landsins, gjalda fyrir framkvæmdir á Vestfjörðum. Ég tel það ekki heppilega uppsetningu á málinu og ekki málinu til framdráttar, hvorki fyrir okkur Vestfirðinga né aðra þá sem eru áhugamenn og fylgjendur þess að jarðgöng verði boruð.
    Það kom ekki fram með skýrum hætti í framsöguræðu formanns nefndarinnar hvort þessi tillaga um breytingu eða lækkun á framlögum til Vestfjarðaganga hafi áhrif á framkvæmdir. Ég vil því beina því til formanns nefndarinnar hvort þessi breyting um að lækka framlag til Vestfjarðaganga um 350 millj. hafi í för með sér samdrátt í framkvæmdum á þessu ári og líka hitt hvort í framhaldi af þessari tillögu, verði hún samþykkt, komi þá þar á móti aukið framlag til þessara verkefna á næsta ári. Ég þykist vita að menn séu að flytja til greiðslur að einhverju leyti og ef menn létta greiðslum af sér á þessu ári, með því að flytja þær yfir áramót, verður óhjákvæmilega að koma til sérstök fjárveiting á næsta ári til að mæta því. Ef það er ekki gert kostar það sérstakan niðurskurð á öðrum framkvæmdum. Þetta vil ég biðja hv. form. nefndarinnar að skýra frekar varðandi framlög ríkissjóðs til jarðganga á Vestfjörðum.