Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 13:12:00 (1438)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Hér er flutt frv. um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð sem mér þykir ástæða til að fara fáeinum orðum um og rekja málið nokkuð því fram voru settar fullyrðingar í framsöguræðu sem mér er nokkuð til efs að séu sannar. Einnig þykir mér hitt nauðsynlegt, að setja þetta frv. í samhengi við stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Forseti veit ekki hvort ráðherra er í húsinu eins og er en ég mun gera ráðstafanir til að kanna það.) Ræðumaður vill láta það koma fram að hann telji óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu, ekki bara að hluta til heldur alla, a.m.k. hvað mína ræðu varðar. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kalla hæstv. sjútvrh. í salinn.) Er hann í húsinu? ( Forseti: Já, sjútvrh. er í húsinu.)
    Virðulegur forseti. Það sem ég vildi fyrst gera að umtalsefni er ákvæði II til bráðabirgða í núgildandi lögum um Hagræðingarsjóðinn --- hér kemur hæstv. ráðherra og hefur hraðann á og ég þakka honum fyrir skjót viðbrögð. Í þessu ákvæði stendur, með leyfi forseta:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávaútvegi við þá endurskoðun.``
    Hér kemur greinilega fram hver vilji Alþingis var, þegar það samþykkti þessi lög, um það hvernig standa ætti að endurskoðun þessara laga. Það kom fram í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem á sæti í sjútvn. að ekki hefði verið haft samráð við sjútvn. þingsins við undirbúning og vinnslu að þessu frv. Ég fæ því í raun ekki séð annað en ráðherra hafi hunsað þarna lög og virt nefnd þingsins að vettugi þegar unnið var að þessu frv. Ég heyrði það ekki í ræðu hæstv. ráðherra að haft hefði verið samband við helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þessa endurskoðun og vil inna hann eftir því hvort svo hafi verið og til hvaða samtaka hafi þá verið leitað. Það er mjög mikilvægt að leggja áherslu á þetta atriði vegna þess að þegar þingið samþykkti þessi lög og lögin um stjórn fiskveiða, sem nú er í gildi, var lögð sérstök áhersla á að þessi lög væru samtvinnuð og menn yrðu að afgreiða þau samtímis. Það kom mjög skýrt fram í máli ræðumanna um þetta mál og í nefndarálitum að svo yrði að vera og því er það til komið að sams konar ákvæði er í báðum þessum lögum um endurskoðun, augljóslega vegna þess að þingið ætlaðist til þess að hvor tveggja þessi lög, lögin um Hagræðingarsjóðinn og lögin um stjórn fiskveiða, yrðu endurskoðuð samtímis og í samhengi, og ætlaðist til þess líka að við þá endurskoðun yrði haft samráð við Alþingi sjálft, þingnefnd þess og hagsmunasamtök. Þar sem fyrir liggur, að ekki var haft samráð við þingið eru menn að taka þetta mál út úr þeim farvegi sem það var lagt í á sínum tíma og færa það í raun yfir á stjórnarflokkana eina. Með þessu frv. er ríkisstjórnin að hafna öllu samráði hér í þinginu, ekki bara í lögum um Hagræðingarsjóð heldur líka í lögum um stjórn fiskveiða og það tel ég mjög alvarlegt, virðulegur forseti, þegar orð manna og samþykktir í lögum standa ekki lengur en raun ber vitni. Það hefur verið bent á áður í öðrum málum að Sjálfstfl. hefur haft þrek til að skipta um skoðun frá því að vera í stjórnarandstöðu yfir í að vera í stjórn og skipta um málflutning og hér er í raun eitt dæmi enn um það þar sem menn ganga á bak sinna fyrri orða.
    Ég vil í þessu sambandi vitna í skjöl og ummæli manna einmitt um þetta atriði þegar þessi tvenn lög voru til umfjöllunar, lögin um stjórn fiskveiða og lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það segir t.d. hér í nál. frá minni hluta sjútvn. frá 112. löggjafarþingi á þskj. 1282 í Nd. svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp þetta er svo nátengt frumvarpi um stjórn fiskveiða að það verður hvorki rætt né afgreitt nema samhliða því. Vísast til nefndarálits 4. minni hl. um stjórn fiskveiða

um efnislega greinargerð fyrir afstöðu hans.`` Og undir þetta rita Hreggviður Jónsson, Matthías Bjarnason og Kristinn Pétursson.
    Í Ed. eru líka nefndarálit um þetta sama frv. sem þá hét reyndar frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Í nefndaráliti frá 3. minni hl. í sjútvn. segir, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp þetta er svo nátengt frumvarpi um stjórn fiskveiða að það verður hvorki rætt né afgreitt nema samhliða því. Vísast til nefndarálits 4. minni hl. um stjórn fiskveiða um efnislega greinargerð fyrir afstöðu hans.``
    Og undir þetta rita Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson. Þetta var afstaða Sjálfstfl. í báðum þingdeildum á sínum tíma að það væri ekki hægt að sundurskilja þessi tvö frumvörp. Það vekur því mikla athygli, a.m.k. mína, þegar hæstv. sjútvrh. og með stuðningi Alþfl. rýfur þetta samhengi því að það verður ekki skilið öðruvísi en sem vísbending um það hvernig þeir vilja að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt.
    Ég vil vitna til afstöðu Alþfl. í þessu máli sem kom fram í umræðum í þinginu á þeim tíma sem ég er með í ljósriti. Þar segir, í bókun þingflokks Alþfl., hér er ekki bara um afstöðu eins manns að ræða heldur bókun þingflokks Alþfl. frá 23. apríl 1990 og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Það er skoðun þingflokksins að á næstu árum eigi að stefna að því í áföngum að rjúfa tengslin milli skipa og veiðiheimilda þannig að aflasjóður, sem heitir nú Hagræðingarsjóður, fái aukna veiðiheimild til ráðstöfunar. Þingflokkurinn telur eðlilegt að ákvæði frumvarpa til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa verði felld inn í frv. um stjórn fiskveiða, enda eiga þau þar heima eftir eðli máls.``
    Það er því afstaða beggja þingflokka á þeim tíma að hér væri um að ræða óaðskiljanleg mál. Ég hlýt að inna menn úr báðum þessum flokkum eftir rökstuðningi fyrir breytingu á þeirra afstöðu. Ég hlýt að inna hæstv. sjútvrh. eftir rökstuðningi fyrir þeirri breytingu á afstöðu Sjálfstfl., sem orðið hefur, og ég hlýt að gera slíkt hið sama og beina því til formanns þingflokks Alþfl. sem jafnframt situr í sjútvn. að gera þinginu grein fyrir því hvers vegna að þeirra mati stjórn fiskveiða og Hagræðingarsjóður eru nú aðskilin mál, sérstaklega með hliðsjón af þeim nefndarálitum sem ég las hér upp og þeirri bókun þingflokks Alþfl. sem ég las hér upp. Það verður ekki skilið öðruvísi í raun, ef maður reynir að draga rökréttar ályktanir í þessu máli, en svo að ríkisstjórnin sé þegar búin að ákvarða að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í takt við þær breytingar sem hún leggur hér fram um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það er enga aðra rökrétta ályktun hægt að draga af þessari stefnubreytingu. Og ég hlýt að spyrja talsmenn beggja þessara flokka: Er það rétt ályktað að það sé niðurstaða ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um stjórn fiskveiða á þann veg að taka upp veiðileyfagjald eða auðlindaskatt?
    Ég vil þá snúa mér að næsta atriði sem eru þær breytingar sem er verið að gera á Hagræðingarsjóðnum. Þær breytingar, sem mestar eru í raun og veru, eru þær að taka út þann kafla í núgildandi lögum sem lýtur að aðstoð við byggðarlög. Það segir í frv. í grg. að það sé eðlilegra að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðarþróun í landinu. Ég hef ekki séð neinar tillögur frá hæstv. ráðherra eða frá öðrum ráðherrum um hvað eigi að koma í staðinn fyrir þetta ákvæði í lögum um Hagræðingarsjóðinn. Það eina sem þingið hefur fyrir framan sig í þessu máli er sá vilji ríkisstjórnarinnar að taka út úr byggðaþáttinn og engar aðrar tillögur komi í staðinn. Og ég spyr: Hvenær koma þær tillögur? Ég get ekki tekið það gott og gilt að vísa á Byggðastofnun í þessu efni, sérstaklega með hliðsjón af skoðunum hæstv. forsrh. um Byggðastofnun og störf þeirra sem þeirri stofnun hafa stjórnað á undanförnum árum, einkum hv. 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar sem fær þann stimpil, ásamt tveimur núv. ráðherrum í ríkisstjórn landsins, að hafa ekki virt gildandi lög um

stofnunina. Ég get því ekki tekið það gott og gilt sem rök að Byggðastofnun eigi að taka við þessu hlutverki þegar fyrir liggur vilji hæstv. forsrh. og drög að reglugerð sem gera Byggðastofnun fullkomlega ókleift að taka við því og ég hlýt að spyrja talsmenn beggja flokka: Hvað á að koma í staðinn? Hvað ætla þessir flokkar að leggja fram í þinginu til að treysta stöðu byggðarlaga í landinu, sérstaklega þeirra byggðarlaga þar sem menn standa frammi fyrir því að missa í gjaldþrot sitt höfuðfyrirtæki og tapa þeim aflaheimildum sem eru í byggðarlaginu? (Gripið fram í.) Ég spyr ykkur því þið eruð að leggja til breytingar.
    Við þessar aðstæður kemur Hagræðingarsjóðurinn að notum. Menn geta deilt um sjóðinn í sjálfu sér en það er óumdeilanlegt að við þessar aðstæður kemur sjóðurinn að notum. Þið hv. stjórnarþingmenn leggið til að fella þetta niður og án þess að koma fram með tillögur um eitthvað annað í staðinn. Því spyr ég: Hverjar verða ykkar tillögur? Þurfa íbúarnir á þessum stöðum, sem eru margir um land allt, að sæta því að þurfa að kaupa fullu verði allar þær aflaheimildir sem þeir þurfa á að halda til að geta rekið sitt samfélag? Eru það skilaboð ykkar til Bolvíkinga að þeir eigi að borga 1000 millj. fyrir réttinn til að búa á staðnum? Eru það skilaboð ykkar til Bolvíkinga? (Gripið fram í.) Ég les heima, hv. þingflokksformaður Össur Skarphéðinsson. En ég get ekki lesið það sem ekki stendur á prenti og ekki hefur verið sagt. Ég hef ekkert heyrt eða séð frá hæstv. ríkisstjórn um það hvernig menn ætla að taka á þessu vandamáli.
    Ég hef margoft í ræðum bent á að besta leiðin væri að breyta lögunum um stjórn fiskveiða á þann veg að kvótinn fari ekki með skipunum, að kvótinn verði í raun og veru eign þeirra byggðarlaga þar sem hann er nú. Ég sé ekki aðra leið sem menn geta notað með skaplegum hætti meðan verið er að ganga í gegnum þær þrengingar sem óhjákvæmilega munu dynja yfir nú á næstu missirum. Ég sé ekki aðra leið. Og ég sé ekki að það sé nokkurt réttlæti í því að fólk þurfi að borga fleiri hundruð milljónir fyrir það sem öðrum var gefið og þurfti ekki að borga fyrir og það sem heitir í lögunum sameign þjóðarinnar. Hvers konar sameign þjóðarinnar er það sem menn þurfa að fara að borga fullu verði fyrir upp á mörg hundruð millj. Ég gæti nefnt mörg sjávarpláss þar sem menn standa frammi fyrir þessu vandamáli og það er nákvæmlega þetta vandamál sem fólk hefur mestar áhyggjur af. Nógu slæmt er að glíma við erfiðleika í fyrirtækjum og jafnvel þá möguleika að það fari á hausinn, þurfa að axla þá örðugleika sem því fylgir. Það er mjög erfitt verkefni þó svo að menn bæti ekki því við að fólk þurfi að kaupa heimildirnar til að fara á sjóinn. Það er ekki hægt annað en ganga nokkuð fast eftir svörum frá hv. stjórnarliðum þegar þeir eru að leggja til þá breytingu að taka úr lögum eina hálmstráið sem þetta fólk sér.
    Ég vil þá víkja að öðru atriði og það er hvers eðlis Hagræðingarsjóður er nú og ef þessar breytingar ná fram að ganga. Hæstv. ráðherra sagði við framsögu málsins að frv. ætti ekkert skylt við auðlindaskatt, og eru þau ummæli höfð eftir honum í Morgunblaðinu í dag þannig að það er hægt að vitna í þau orðrétt ef þörf krefur. (Gripið fram í.) Ja, virðulegur formaður þingflokks Alþfl., það eru fleiri með þá túlkun en Framsfl. Og nú skulum við hefja þann lestur og bið ég þingflokksformanninn að doka við í dyrunum meðan ég upplýsi hann um það.
    Í umræðum í efri deild 8. des. 1989 um þetta mál, sem þá hét Úreldingarsjóður fiskiskipa, segir hv. þáv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, með leyfi virðulegs forseta: ,,En ég fullyrði að bein hætta er á því að kvótakerfið leiði fyrr eða síðar til auðlindaskatts . . . Það er rétt að þetta [þ.e. frv. um Úreldingarsjóð] er ekki nema lítið skref sem stigið er með sölu veiðileyfa til tekjuöflunar fyrir Úreldingarsjóð. Það er rétt sem hæstv. ráðherra lagði áherslu á. En allar leiðir hefjast á einu skrefi, hvort sem það er leiðin til ljóssins eða helvegur.``

    Ótvíræð afstaða hv. þm. Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um það að hér væri um að ræða auðlindaskatt. Og eins og menn muna þá var hann þingmaður Sjálfstfl.
    Ég er með fleiri tilvitnanir. Hér er ég með tilvitnun í Halldór Blöndal, sem nú er ráðherra. Hann segir með skýrum hætti að frv. leggi auðlindaskatt á sjávarútveginn. Hann segir það með alveg skýrum hætti. Og svo ég lesi nú aftur þá tilvitnun sem hv. 1. þm. Austurl. var með í gær, til þess að undirstrika afstöðu þingmannsins Halldórs Blöndals enn frekar um það að Hagræðingarsjóður væri auðlindaskattur vil ég lesa hér, með leyfi forseta:
    ,,Þetta er nú satt að segja hálfgerð fimmáraáætlun eins og hjá Jósef Stalín sáluga á sínum tíma, sem fór nú eins og hún fór, og næsta ömurlegt að þessi hugsunarháttur skuli gægjast fram hér á Alþingi á því herrans ári 1990, en lýsir auðvitað því sem hér er verið að gera. Það er verið að leggja á auðlindaskatt öðrum þræði til þess að reyna að hafa stjórn á byggð í landinu, sem ekki gengur, og svo öðrum þræði til þess að reyna afla fjár í eyðsluhít ríkissjóðs, sem er auðvitað næsta skrefið.``
    Þetta var afstaða þingmannsins þá og ég á ekki von á öðru en að hún sé óbreytt. Það segir okkur að það sé afstaða hæstv. landbrh. að hér sé um að ræða auðlindaskatt og tekjuöflun fyrir ríkissjóð.
    Ég er hér líka með annan talsmann Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum á þessum tíma, Guðmund H. Garðarsson. Hann sagði hér, með leyfi forseta:
    ,,Þar á ég við það sérstaklega að með þessu frv. er verið að fara inn á braut auðlindaskatts, sem mun gjörbreyta ekki aðeins útfærslu íslenskrar útgerðar og fiskvinnslu heldur einnig eignastöðu og eignarhaldi Íslendinga sjálfra og hugsanlega andspænis auknum áhrifum erlendra aðila í sambandi við íslenska útgerð. Ég vara hv. þm. við því, og sérstaklega þá sem hugsa sér að greiða frv. þessu atkvæði hér á eftir, að afleiðingar þess geta orðið mjög alvarlegar, ég vil segja hrikalegar, fyrir landið og þjóðina, það fólk sem býr hér og vill búa.``
    Þetta var afstaða talsmanns Sjálfstfl. í Ed., Guðmundar H. Garðarssonar, þegar verið var að ræða frv. til laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Báðir þessir aðilar, talsmenn flokksins í Ed. og Nd., voru sammála um að það frv. þýddi ekkert annað en auðlindaskatt. Og annar þeirra tekur sérstaklega fram að það sé ekkert annað þar að auki en bein tekjuöflun í ríkissjóð. Hvort tveggja stangast fullkomlega á við það sem hæstv. ráðherra hefur haldið fram, bæði í framsögu fyrir málinu og áður.
    Ég get líka vitnað í annan þingmann Sjálfstfl., sem heitir Kristinn Pétursson, sem lýsti yfir þessu sama viðhorfi, að hér væri um að ræða auðlindaskatt og ekkert annað.
    Ég vil að lokum, til að innsigla afstöðu Sjálfstfl., eins og hún var á þeim tíma, þannig að mönnum sé það alveg ljóst hver hún var, vitna í nál. 4. minni hl. sjútvn. í Ed. um frv. til laga um stjórn fiskveiða. En eins og áður hefur komið fram var það afstaða sjálfstæðismanna að þessi tvö frv. yrðu ekki aðskilin svo þeir skiluðu sameiginlegu nál. fyrir þau bæði. Í þessu minnihlutaáliti segir m.a. um Hagræðingarsjóðinn að sannmæli væri að kalla sjóðinn Óhagræðingarsjóð sjávarútvegsins, svo ekki hafa þeir haft mikið álit á honum. Og enn fremur segir, með leyfi forseta:
    ,,Í brtt. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að skerða fiskveiðiheimildir um 12.000 þorskígildistonn frá einu ári til annars. Síðan á að gefa útgerðarmönnum kost á að kaupa helminginn til baka við opinberu verði sem næst markaðsverði. Með því er stigið fyrsta skrefið til auðlindaskatts.`` --- Með því er stigið fyrsta skrefið til auðlindaskatts, virðulegur forseti. --- ,,Þótt þessum heimildum séu þröngar skorður settar í brtt. er eftirleikurinn auðveldur. Það er að rétta skrattanum litla fingurinn og er ekki það laust sem skrattinn heldur``, segir í nál. sjálfstæðismanna frá 1990 og undir það rita Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal.
    Ég ætla ekki að falla í sömu gryfju og þeir tveir menn sem vitna þarna í skrattann, að fara að velta mér upp úr því hver það er í þessu tilviki sem máltækinu er beint að. Ég tel að sjálfstæðismenn verði að útskýra það sjálfir. En þetta er ótvírætt afstaða þess flokks á þeim tíma að þessi tvö frv. um Hagræðingarsjóð og stjórn fiskveiða séu óaðskiljanleg og að lögin um Hagræðingarsjóð séu ekkert annað en lög um auðlindaskatt.
    Því geri ég mjög alvarlegar athugasemdir við það að hæstv. ráðherra skuli taka annað málið sjálfstætt frá hinu og flytja sérstakt frv. um það, frv. sem felur í sér þær breytingar að styrkja auðlindaskattinn í sessi. Það er meginbreytingin í frv. --- að fara yfir í auðlindaskattinn. Það hlýtur því að vera ályktunin sem menn draga af þessu að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um stjórn fiskveiða þannig að taka upp auðlindaskatt. Aðra skynsamlega ályktun er ekki hægt að draga.
    Ég get líka vitnað í hæstv. núv. sjútvrh. því til stuðnings að hér sé um auðlindaskatt að ræða, þó að það þurfi í raun og veru ekki frekari sannanir fyrir afstöðu Sjálfstfl. til Hagræðingarsjóðs. En ráðherrann segir í DV 19. sept. sl., þar sem hann er að kynna þær breytingar sem hann hyggst leggja fram á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, með leyfi forseta:
    ,,Mín ætlan er að breyta hlutverki sjóðsins þannig að í stað úreldingar og byggðaaðgerða`` --- í stað byggðaaðgerða, takið eftir --- ,,verði þeir fjármunir sem fást fyrir kvótann notaðir til hafrannsókna. Þannig tel ég peningunum best varið. Þessi aðgerð stendur í engum tengslum við fiskveiðistjórnunina heldur er hún hrein ríkisfjármálaaðgerð.`` --- Hún er hrein ríkisfjármálaaðgerð. Með öðrum orðum segir hæstv. ráðherra: Við erum bara að taka hérna upp sjálfstæðan skatt til þess að fá tekjur í ríkissjóð. Auðvitað er það ekkert annað en auðlindaskattur. Hvernig svo sem hæstv. ráðherra reynir að telja mönnum trú um að frv. eigi ekkert skylt við auðlindaskatt þá er hið gagnstæða uppi á borðinu í öllum þeim skjölum sem menn fletta og þeim ummælum sem menn lesa frá þingmönnum Sjálfstfl. og reyndar frá hæstv. ráðherra sjálfum.
    Ég teldi Sjálfstfl. vera heldur viðkunnanlegri og þeir menn innan hans menn að meiri ef þeir þyrðu bara að viðurkenna að þetta er þeirra stefna. Menn eiga ekki að vera að plata kjósendur, segja eitt og meina annað. Það hefur að vísu verið dálítið áberandi með Sjálfstfl. hvað hann hefur verið tvöfaldur í roðinu, en ég held að í þessu máli verði hann að ganga hreint fram. Verði að ganga hreint fram, hv. þm. þingflokks Alþfl., sem er manna hreinskiptastur ef því er að skipta. ( ÖS: Ég tók eftir þessu.)
    Ég vil þá snúa mér að Alþfl. því hann hafði líka skoðun á þessu frv. á sínum tíma og þessum lögum. Ég hef þegar rakið að hann taldi lögin um Hagræðingarsjóð og lögin um stjórn fiskveiða vera óaðskiljanleg og ætti raunverulega að fella þau saman í ein lög. En hver skyldi hafa verið afstaða Alþfl. til Hagræðingarsjóðsins sjálfs? Hún kemur fram í afstöðu fulltrúa Alþfl. í sjútvn. á þeim tíma, Jóns Sæmundar Sigurjónssonar. Þegar hann er að mæla fyrir málinu úr nefnd nefnir hann sérstaklega málinu til gildis, með leyfi forseta: ,,Og í þriðja lagi hvernig sjóðurinn hagar sér við það mikilvæga hlutverk að veita aðstoð til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum er höllum fæti standa.``
    Það var eitt mikilvægasta hlutverk sjóðsins, byggðahlutverkið, að mati fulltrúa Alþfl. Enn fremur kemur fram í nál. því sem hann undirritar að meiri hluti nefndarinnar telji að breytingar þær sem gerðar voru á frv. í meðförum Ed. séu til bóta og til þess fallnar að tryggja betur trausta atvinnu og jafna búsetu um land allt. --- Tryggja betur trausta atvinnu og jafna búsetu um land allt.
    Þetta var afstaða Alþfl. fyrir einu og hálfu ári til Hagræðingarsjóðsins og sérstaklega til þess þáttar er lýtur að byggðahlutverki sjóðsins. Ég beini þeirri spurningu til formanns þingflokks Alþfl.: Hefur afstaða Alþfl. breyst? Telur hann ekki lengur nauðsynlegt að sjóðurinn hafi þetta byggðahlutverk? Hefur Alþfl. skipt um skoðun í þessu máli? Ef svo er, hvað telur Alþfl. að koma eigi í staðinn? Eða er kannski ekki þörf á neinum sérstökum byggðaaðgerðum? Ég ætla a.m.k. að leyfa mér að vona það að formaður þingflokks Alþfl. ætli ekki að fara að halda því fram að ekki sé þörf á sérstökum byggðaaðgerðum eins og staðan er núna nánast um allt land.
    Ég vil svo að lokum, til þess að öllu sé til haga haldið fyrir hæstv. sjútvrh. um afstöðu hans flokks meðan hann var formaður í þeim flokki, draga hér fram ummæli Halldórs Blöndals í umræðum um stjórn fiskveiða, þar sem hann fer í þeirri ræðu einnig yfir Hagræðingarsjóðinn. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangurinn er auðvitað sá til lengri tíma litið að draga fé í ríkissjóð í gegnum þennan sjóð, skattleggja sveitarfélögin úti á landi, byggðirnar úti á landi, og skattleggja sjómennina og útgerðina. . . . Það á að taka nákvæmlega eftir orðanna hljóðan þannig að þar er hvergi hægt undan að víkjast og væri fróðlegt að spyrja hv. þm. Stefán Guðmundsson`` --- sem hér situr enn --- ,,hvað hann kallar það að taka 6.000 þorskígildistonn af flotanum til að selja sömu mönnum aftur.`` ( StG: Auðlindaskatt.) ,,Ef þetta heitir ekki auðlindaskattur þá veit ég ekki hvað er auðlindaskattur. Það er verið að selja útgerðarmönnum og sjómönnum fiskinn í sjónum við opinberu verði.``
    Skýrar geta menn nú ekki kveðið að orði í afstöðu sinni til máls en þingmenn Sjálfstfl. gerðu í umræðum og nefndarálitum um þetta mál fyrir tæpum tveimur árum. Síðan kemur hæstv. sjútvrh. núna, í nóvember 1991 og segir: Þetta á ekkert skylt við auðlindaskatt. Maður fer nú að halda að það sé víðar fortíðarvandi en hjá stjórnarandstöðunni. Menn mættu leggjast í að lesa og kynna sér fortíðina, þingmenn og ráðherrar Sjálfstfl., áður en þeir fara að hafa uppi miklar fullyrðingar um hvað sé ekki í þeirra frumvörpum.
    Þessi stefnubreyting Sjálfstfl., sem ekki er tekin í gegnum samþykktir flokksins á landsfundum eða slíkum samkomum sem eru til þess bærar að breyta stefnu hans, svo mér sé kunnugt um, eru í raun og veru ekkert annað en svik. Þetta eru ekkert annað en svik við fólk. Sérstaklega eru þetta svik við það fólk sem kaus Sjálfstfl. úti á landi. Þetta eru ekkert annað en svik við þá tæplega 2.000 Vestfirðinga sem kusu Sjálfstfl. á Vestfjörðum því þeir stóðu í þeirri meiningu allir sem einn að Sjálfstfl. væri á móti auðlindaskatti.
    Það eru fleiri en ég sem hafa tekið eftir þessum svikum. Ég bendi mönnum á að lesa leiðara í DV frá því í október sl., sem ber yfirskriftina: ,,Þeir lugu sig inn á þjóðina.`` Það er verið að tala um núverandi ríkisstjórn. Og það er ýmislegt fróðlegt sem segir í þeim leiðara. Þar segir t.d.: ,,Skýrar getur einkavæðing og frjálshyggja ekki orðið gjaldþrota. Hraðar getur stefna nýrrar ríkisstjórnar ekki orðið gjaldþrota.`` Og svo segir einnig, með leyfi forseta:
    ,,Blekkingar hafa löngum verið hornsteinn íslenskra stjórnmála. En fátítt er að ríkisstjórn hafi logið sig inn á þjóðina með jafngrófum hætti og þessi ríkisstjórn.``
    Þetta eru ummæli leiðarahöfundar DV. Mér er ekki kunnugt um að hann sé í Alþb. eða Framsfl. eða Kvennalistanum. Hann er ekki í þessari stjórnarandstöðu sem hæstv. forsrh. telur óalandi og óferjandi. Menn standa hér dag eftir dag á öndinni yfir ummælum ráðherrans. Hann er ekki frá okkur kominn þessi leiðari. Hann er ekki kominn frá okkur þessi dómur um ríkisstjórnina, að þar séu menn sem ljúgi sig inn á þjóðina. Þetta er komið frá frjálsu og óháðu dagblaði. ( Gripið fram í: Mjög óháðu?) Mjög óháðu? A.m.k. stendur það í blaðinu sjálfu, stendur hér ,,frjálst og óháð dagblað``. ( Gripið fram í: Síðan hvenær fórst þú að trúa DV?) --- Ja, ég a.m.k. les það, virðulegur þingmaður.
    Ég vil að lokum fara yfir nokkur atriði í frv. önnur en þau sem ég hef þegar gert

að umtalsefni. Sérstaklega vil ég minnast hér á úreldinguna sjálfa, það hlutverk að úrelda fiskiskip eða kaupa skip til úreldingar. Miðað við þann tekjustofn sem þessi sjóður á að hafa, og það er gefið upp í grg. að tekjurnar verði um 80 millj. á ári, þá sýnist mér að sjóðurinn muni ekki vera stórtækur í skipakaupum til úreldingar. Það má búast við því að hann muni þá fyrst og fremst verða til þess að kaupa upp litla báta. Og ég er ekki viss um að það sé að öllu leyti rétt þróun því ég tel að sú breyting hafi gengið of langt að menn séu að sækja aflann á stórum togurum. Menn hafa fært sóknina að mínu mati of mikið í þá átt, sem m.a. kemur fram í því hvernig aflinn er saman settur, meðalþyngd á þorski sem t.d. er að verða býsna lítil. Ég held að það væri æskilegt að reyna að breyta sóknarmunstrinu og það væri æskilegt að reyna að úrelda fyrst og fremst stóru togarana sem eru mönnum mikil byrði, sérstaklega mikil byrði í mörgum sjávarplássum, að gefinni þeirri forsendu að menn hafi ekki meiri kvóta til að veiða en er í dag. Og þá tel ég brýnast að unnt sé að úrelda togara og greiða þannig fyrir að menn geti sameinað útgerðarfyrirtæki og notað þá sameiningu til að taka einn togara úr umferð eða svo. Ég sé ekki að þessi sjóður með þessum tekjustofni hafi þá burði að hann ráði við það, þannig að ég vil nefna þetta mönnum til umhugsunar.
    Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, þar sem sú breyting er gerð að í stað þess að sjóðurinn fái það álag næstliðins árs sem lagt er á við það að flytja óunninn fisk úr landi, þá fær hann bara 12.000 tonn, punktur. Eru áform uppi af hálfu ráðherrans að breyta ákvæðum um álag á útflutning? Og hvert á það að renna ef svo er ekki, ef áform eru um að hafa það áfram, hvert á þá þetta álag að renna?
    Ég vil einnig benda á það, sem stingur mest í augu í þessu frv., að 1. gr. markar í raun og veru allt það sem á eftir kemur, því 1. gr. segir okkur hvert hlutverkið er. Og hlutverkið er samkvæmt 1. gr. að stuðla að aukinni hagkvæmni með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. --- Þetta er nú dálítið óþjált og í raun og veru dálítið óljóst hvort tveggja, hver sé afkastageta flotans og afrakstursgeta sjávarstofnanna. Hvort tveggja er tiltölulega óljóst en látum það nú vera. Og hvernig á sjóðurinn að stuðla að þessari hagkvæmni í útgerð? Jú, hann á að gera það með því að veita styrki til að úrelda skip. Og þar með er hlutverk sjóðsins upp talið. En síðan segir í 4. gr. að öllum tekjum Hagræðingarsjóðs af sölu aflaheimilda eigi að verja til að standa straum af Hafrannsóknastofnun. Þetta er í engum tengslum við tilgang sjóðsins. Ekki nema menn skilgreini Hafrannsóknastofnun sem eitthvert fiskiskip. Auðvitað er það ekkert svoleiðis. Hafrannsóknastofnun er ekki togari sem á að úrelda. Hér er því um að ræða verulegan fingurbrjót í uppsetningu frumvarpsins, að í 4. gr. frv. kemur upp að það eigi að ráðstafa peningunum í eitthvað annað sem er í engu samhengi við 1. gr. þar sem hlutverkið er rakið og afmarkað mjög þröngt. Hlutverkið er afmarkað þannig að það á að kaupa skip, punktur. Ekkert annað.
    Ég velti því bara upp, getur þetta staðist? Geta menn sett lög sem hafa einhvern afmarkaðan tilgang en í seinni greinum frumvarpanna kemur svo allt annar tilgangur fram og eru í raun og veru, eins og fram hefur komið, ekkert annað en tekjustofn fyrir ríkissjóð? Ég held að það væri þá nær að menn settu þá klásúlu bara beint inn í fjárlög.
    Ég hef nú fjallað nokkuð um þetta frv. enda mikið mál á ferðinni og full ástæða til að menn fjalli um þetta mjög ítarlega og gefi sér allan þann tíma sem til þarf til þess að fara yfir frv. því hér er um svo veigamiklar breytingar að ræða og mikla stefnumörkun að það er óhjákvæmilegt annað. En ég vil skora á hæstv. ráðherra í allri vinsemd og með allri virðingu að draga þetta frv. til baka. Virða bráðabirgðaákvæði II í núgildandi lögum og draga frv. til baka og láta fara fram samtímis, eins og segir í lögunum, endurskoðun á lögum um Hagræðingarsjóð og lögum um stjórn fiskveiða og gera það þannig, eins

og mælt er fyrir í báðum þessum lögum, í samráði við Alþingi og hagsmunasamtök. Það kann ekki góðri lukku að stýra að rjúfa þennan farveg sem búið er með lögum að setja málið í. Ég óttast að það geri ekkert annað en að efna til ófriðar, mikils ófriðar um þetta mál.