Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 13:59:00 (1439)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég mun í tengslum við þetta frv. sem hér er til umfjöllunar ræða nokkuð bæði þá endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem yfir stendur og eins afkomu í sjávarútvegi og tengsl þeirra hluta við byggðamál. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, úr því að þessu máli er hreyft með þeim hætti sem raun ber vitni, að þetta berist inn í umræðuna. Sú breyting, sem á lögunum um Hagræðingarsjóð verður með frv. hæstv. sjútvrh. á þskj. 129, ef að lögum verður, er að þá hverfur út úr verkefnaskrá sjóðsins það meginverkefni hans annað að geta komið til aðstoðar í þeim tilvikum þar sem atvinnuástand er slæmt vegna þess að veiðiheimildir hafi horfið í burtu eða með öðrum hætti sú sjávarútvegsstefna sem í gildi er leiði af sér atvinnubrest í byggðarlögum.
    En fyrst er ástæða til að ræða lítillega þá stöðu sem er í málinu í heild sinni, þ.e. varðandi fiskveiðistefnuna og gildandi lög um veiðar í fiskveiðilandhelginni og fiskveiðistjórnun. Það er allt saman til endurskoðunar, eins og menn þekkja, á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögunum. Fyrir árslok 1992 skal þeirri endurskoðun lokið, ef ég man rétt. Sömuleiðis áttu lögin um Hagræðingarsjóð að koma til endurskoðunar og er væntanlega hér aftast í þeim lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí 1990, ákvæði um að sjútvrh. skuli fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi, þ.e. lögin um Hagræðingarsjóð.
    Ég hlýt að byrja á því, herra forseti, að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel það afar slæmt að á meðan á þessari endurskoðun stendur skuli eitt af þeim þýðingarmestu atriðum sem lágu til grundvallar málamiðlunum um afgreiðslu laganna um fiskveiðistjórnun hér á þingi á sínum tíma tekið út úr því samhengi með þessum hætti. Það er ekkert launungarmál að það var býsna erfið fæðing þegar það frv. var afgreitt hér á Alþingi 1990 og gert að lögum, bæði lög um fiskveiðistjórnun og eins lög um Hagræðingarsjóð, og sú útfærsla sem hér er á lögum um Hagræðingarsjóð var liður í málamiðlun til þess að sætta ólík sjónarmið og koma sérstaklega til móts við þá sem hafa haft áhyggjur --- og það með réttu því miður --- af áhrifum núgildandi fiskveiðistefnu á byggðamál. Þá voru m.a. nefnd alveg sérstaklega af þáv. sjútvrh., bæði í ríkisstjórn þegar hann kynnti málið þar og eins hér á Alþingi, hygg ég vera, einstök byggðarlög landsins, hver hefðu getað fengið úrlausn ef ákvæði af því tagi sem hér eru um Hagræðingarsjóð hefðu þá verið í gildi í lögum. Ég man það mjög vel að hæstv. sjútvrh. nefndi sem dæmi Kópasker, því þannig háttaði til að þá hafði nýlega verið selt í burtu einasta fiskiskip Kópaskersbúa sem eitthvað kvað að og með því fór 500 tonna djúphafsrækjukvóti, svo til allur kvóti sem þessi staður, Kópasker, hefur yfir að ráða fyrir utan einhverja tugi tonna af bolfiski sem þar hafa verið. Hæstv. sjútvrh. nefndi einmitt þessi dæmi og sagði: Með þessum breytingum verður unnt að bregðast við slíkum vandamálum, ef þau koma upp, og lifa við það ástand á gildistíma laganna og þangað til þau hafa komið til endurskoðunar. Þetta var eitt veigamesta atriðið sem lá til grundvallar þess t.d. að sá sem hér talar og ég hygg þeir sem með honum voru í flokki á sínum tíma og stóðu að því að afgreiða lögin vorið 1990, létu að lokum til leiðast með einni undantekningu þó, hygg ég vera, að sættast á þetta frv. Það að inni í Hagræðingarsjóði yrðu þessar heimildir til viðbótar því að lögin yrðu tímabundin og fiskveiðistefnan í heild sinni kæmi til endurskoðunar var það sem þarna var lagt til grundvallar. Þess vegna hlýtur hæstv. sjútvrh. að vera það ljóst að hann er að opna hér upp geysilega stórt mál með þessum breytingum.

    Ég verð að segja það alveg eins og er að mér þykir það miður að hæstv. sjútvrh., sem ég ber góðan hug til og ég veit að vill standa sig í sínu erfiða og þýðingarmikla starfi, skuli þurfa að eiga þessi spor hingað inn með frv. í þessum búningi. Það er satt best að segja mjög slæmt að það skuli yfir hæstv. sjútvrh. þurfa að ganga. Ég vona að hæstv. ráðherra sé og verði til viðtals um það á næstu vikum og mánuðum ef svo vill í þinginu að leita samkomulags í þessum efnum, þ.e. reyna að skapa eftir því sem kostur er samstöðu um eitthvert ástand í þessum málum á meðan sú endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem í gangi er gengur yfir og henni lýkur. Þar er að mínu mati á ferðinni eitthvert mikilvægasta verkefni Alþingis og í raun og veru eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar allrar á næstu mánuðum og árum, þ.e. að ná landi og einhverri sátt í þjóðfélaginu um stefnuna í sjávarútvegsmálum. Þetta er ekki góð byrjun á því verki.
    Við heyrðum í gær afstöðu hæstv. fyrrv. sjútvrh. og þeirra sem með honum eru í flokki til þessara mála og fleiri munu væntanlega eiga eftir að lýsa miklum efasemdum um þessa tilhögun.
    Í öðru lagi verður ekki fram hjá því horft að þessi breyting, ef af verður á lögunum um Hagræðingarsjóð, hvaða nafngift sem menn nú vilja gefa því, veldur ýmsum áhyggjum af þeim sökum, menn óttast að þar séu fyrstu skrefin stigin --- eða skref stigin, hvort sem það eru þau fyrstu eða einhver sem á eftir koma --- í áttina til þess að selja veiðiheimildir holt og bolt hér í landinu. Ég þarf ekkert frekar en menn vilja að ræða það undir heitinu auðlindaskattur. Ef það fer í hinar fínu taugar einhverra hv. þm. eða hæstv. sjútvrh. þá get ég notað aðrar nafngiftir, mér er alveg sama. En þeirri staðreynd verður ekki mótmælt að ef þessi breyting verður þá verður það í framkvæmd þannig að 12.000 tonna veiðiréttur verður seldur fullu verði og afrakstur þeirra verðmæta tekinn í ríkissjóð. Og það er ekki hægt að mæla á móti því að þar með er a.m.k. þessi hluti veiðiheimildanna kominn í þann farveg að það er enginn eðlismunur á því og þeim hugmyndum sem dags daglega kallast auðlindaskattur eða veiðileyfagjald. Það eina sem mætti þá vísa í væri hugsanlega það, miðað við þær hugmyndir sem lengst ganga í frjálshyggjuátt varðandi veiðileyfagjald eða auðlindaskatt, að hér er ekki um opinn uppboðsmarkað á veiðiheimildunum að ræða heldur er um að ræða forkaupsrétt skipa eða útgerða í hlutfalli við þær veiðheimildir sem þau hafa á hendi. Þetta er nokkuð önnur útfærsla að vísu en hugmyndir þeirra sem lengst hafa viljað ganga í þá veru að bjóða upp á opinn markað með allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum.
    Ég met og virði afstöðu hæstv. sjútvrh. í þeim efnum að standa fast gegn hugmyndum um slíka skattlagningu á útgerðina. Mér hefur þótt það eitt af því fáa virkilega ánægjulega í umræðu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar á þessum haustdögum að hæstv. sjútvrh. hefur þó tekið mjög myndarlega og fast til orða gagnvart þeim hugmyndum að innleiða slíkt við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi. Þess vegna þykir mér það í sjálfu sér miklu verra að þurfa að lýsa áhyggjum mínum vegna frv. í þá veru sem hluti veiðiheimildanna, sem þarna er þá tekinn inn í Hagræðingarsjóð, verður óumdeilanlega fénýttur með þessum hætti. Og þó að það sé tengt þeim útgjaldaverkefnum ríkisins að fjármagna rekstur Hafrannsóknastofnunar þá er það einfaldlega svo að ríkissjóður hefur greitt þann rekstur, hefur kostað þann rekstur á undanförnum árum og það hefur enginn eðlismunur verið á þeim útgjöldum ríkissjóðs og ýmsum öðrum, t.d. því að kosta rekstur annarra rannsóknastofnana eða hvern annan opinberan rekstur í landinu. Þetta er því eingöngu form, að búa til þessa tengingu. Eða hvað? Það verður ekki stofnað neitt sérstakt hólf í ríkissjóði, einhver sérstök skúffa sem ríkisféhirðir fer ofan í og tekur upp seðlana til að borga Hafrannsóknastofnun. Það verður ekki svo. Það verður áfram bara einn ríkissjóður í landinu. Og inn í þann ríkissjóð munu tekjurnar af fénýtingu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs

ganga og út úr honum aftur fara peningar til að borga fyrir rekstur Hafrannsóknastofnunar. Þetta er svona, því miður. Þarna er eingöngu um form að ræða, þetta er hreint ,,pro forma`` atriði, gert til þess að reyna að skýla sér í erfiðu máli.
    Ég held að við eigum og verðum að ræða hér spurninguna um afstöðuna til veiðileyfagjalds eða auðlindaskatts. Það verður ekki komist hjá því að ræða það í tengslum við þetta mál. Og ég vil ekki að sú afstaða mín liggi í láginni að ég er algjörlega andvígur því að taka slíkt fyrirkomulag upp við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi. Ég tel það fráleitan málflutning, eins og nú háttar til, að það geti verið skynsamleg sjávarútvegsstefna og efnahagsstefna hjá þjóðinni að láta sína höfuðatvinnugrein með þessum hætti borga aukalega og umfram aðrar inn í samneysluna skatt af þessu tagi sem flatt veiðileyfagjald eða flatur auðlindaskattur yrði. (Gripið fram í.) Það er þannig með hv. formann þingflokks Alþfl. að það er greinilega nauðsynlgt að uppfræða hann dálítið í þessum efnum. Hugmyndin sem einn ágæur félagsmaður í Alþb. setti fram, reyndar með formanni Farmanna- og fiskimannasambandsins fyrst, hygg ég vera, á opinberum vettvangi í góðri grein, var af allt öðrum toga. Og af því að hv. formaður þingflokks Alþfl. hefur stundum verið að gera sérstakar kröfur á aðra menn um að þeir fari rétt með þá hlýt ég að senda þau skeyti til baka. Ég óska þá eftir því, ef hv. þm. er áhugamaður um þessi mál, að hann kynni sér þær hugmyndir sem þar voru á ferðinni um breytilegt gjald sem lagt yrði á eftir tegundum, mismunandi hátt, til þess að hafa viss áhrif á sóknina í hinar einstöku tegundir, af allt öðrum toga og allt annars eðlis, í allt öðrum tengslum við stefnuna í fiskveiðistjórnun en hugmyndir um flatt veiðileyfagjald eða auðlindaskatt. Hv. þm. hlýtur að átta sig á því að þær hugmyndir í sínu villtasta eðli eru gjörsamlega óskyldar fiskveiðistjórnuninni sem slíkri, þær koma henni ekki við. Þær eru af efnahagslegum toga. Það eru hagspekingar sem telja að eina leiðin til þess að skrá gengið rétt á Íslandi sé að pína sjávarútveginn sérstaklega með viðbótarskattlagningu, fella síðan gengið og hækka þannig pundið í öðrum atvinnugreinum. Þetta er kenningin. Að í raun og veru hafi sjávarútvegurinn það of gott við núverandi aðstæður, svona að breyttu breytanda og það þurfi að taka verðmæti út úr veltu sjávarútvegsins, fella síðan gengið og lækka þannig lífskjörin í landinu og þá komist þetta í jafnvægi.
    Miðað við það ástand sem við stöndum frammi fyrir í íslenskum sjávarútvegi er þetta einhver hættulegasta og vitlausasta della sem nokkurn tíma hefur verið á borð borin. Það er því alveg nauðsynlegt að talsmenn þessara hugmynda, ef þeir eru einhverjir hér inni á þingi, og hinir, sem úti í þjóðfélaginu prédika þetta, hvort heldur er á síðum Morgunblaðsins eða annars staðar, útskýri það fyrir okkur hvernig á að hjálpa sjávarútveginum í núverandi stöðu og á næstu árum, eins og þau blasa við á þeim bæ, með því að leggja þessa viðbótarskatta á atvinnugreinina og draga þá út úr veltu sjávarútvegsins.
    Ef við tökum þetta í sinni einföldustu mynd þá skulum við biðja þessa snillinga að útskýra það fyrir okkur hvernig það hjálpar Útgerðarfélagi Akureyrar, hvernig það hjálpar Síldarvinnslunni í Neskaupstað, hvernig það hjálpar Hraðfrystistöð Þórshafnar, hvernig það hjálpar Granda, hvernig það hjálpar Kaldbak á Grenivík o.s.frv. að til viðbótar núverandi útgjöldum í sínum rekstri kaupi þessi fyrirtæki aflaheimildirnar af sjálfum sér fyrir tugi eða hundruð milljóna króna. Hvernig á það að hjálpa þeim? Í hverju liggur ,,trikkið``? Hver er brellan?
    Það á ekki að láta mönnum líðast að bera svona þvætting á borð viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, í blaðagrein eftir blaðagrein eða ræðu eftir ræðu. Þetta er della. Við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi mundi þetta leggjast sem alveg sérstök viðbótarbyrði á þau fyrirtæki sem, hvað sem um núverandi kvótakerfi má segja, hafa þó notið þess að hafa sínar veiðiheimildir á hendi og getað nýtt þær ár eftir ár án gjalds, það sem

eftir er af þeim. Og það er auðvitað tilfellið um langstærstan hluta fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi.
    Það ótrúlega er að þessi umræða snýst eingöngu um hina hliðina. Menn einblína á það að einn og einn útgerðarmaður er að fá peninga í sínar hendur --- fyrir hvað? Fyrir það að afsala sér varanlega réttinum til að taka þátt í þessari atvinnustarfsemi. Jú, það er rétt, það fá ýmsir útgerðarmenn borgaðar talsverðar fúlgur. En hvað eru þeir líka að gera? Þeir eru að afsala sér réttinum til að taka þátt í þessari atvinnustarfsemi. Það er mikið rætt um þessa menn og það er allt í lagi. Og það koma út mörg ljót dæmi í því sambandi eða óskemmtileg. (Gripið fram í.) Og einhverjir borga, segir hv. frammíkallandi. Það er alveg rétt. En þeir sem ekki eru í þessum leik, þeir sem bara eru að veiða þann kvóta sem þeir hafa og hafa jafnvel haft um árabil, þeir njóta þó þess, hvað sem um þetta kerfi má segja, að hafa sínar veiðiheimildir á hendi ár eftir ár og veiða þær og nýta þær. Þannig er það og þannig hefur það alltaf verið. Ég spyr því: Halda menn virkilega að það sé réttlát ráðstöfun gagnvart t.d. þeim fjölda fiskvinnslufyrirtækja í landinu sem jafnframt hefur veiðar á hendi og er fyrst og fremst starfandi með þá byrði á herðum að halda uppi atvinnu í viðkomandi byggðarlögum, að skella á þau auðlindaskattinum? ( Gripið fram í: Af hverju ertu alltaf að horfa á mig?) Ja, ég er bara að virða hér fyrir mér ýmsa fallega menn sem eru í þingsalnum. Ég held að svarið hljóti að vera nei. Svarið er augljóslega nei. Það er ekkert réttlæti til í því, miðað við núverandi ástand þessara mála og menn verða að geta . . . (Gripið fram í.) Það er af því, hv. þm., að ég vil helst ekki horfa á þann eina mann hér í salnum of mikið sem ég ætti kannski að beina máli mínu til.
    Mér er þetta mikið alvörumál. Ég held að það sé tími til kominn að taka þessar hugmyndir til efnislegrar umræðu hér á þingi og fara yfir það. Er þetta eitthvað sem við eigum að láta þvælast fyrir okkur á næstu árum í íslenskum sjávarútvegi, þessar hugmyndir um veiðileyfagjald? Ég hef að sjálfsögðu hugsað mikið um þetta og reynt að skoða þetta hlutlægt frá báðum hliðum og ég er kominn að alveg eindreginni niðurstöðu í þeim efnum: Þetta er algjör vitleysa. Svo skulum við ekki gleyma því að hugmyndirnar um þessa skattlagningu byggja allar á því að núverandi kerfi aflamarks verði við lýði áfram --- með öllum göllum sínum. Með öllum göllum sínum til þá viðbótar einhverjum kostum sem sjálfsagt eru þar fyrir hendi, en menn hafa nú sífellt meiri efasemdir um. Við þurfum því líka að gera það upp við okkur: Ætlum við að festa í sessi um ókomin ár þetta kerfi framseljanlegs aflamarks? Og eru menn bara tilbúnir til að framlengja lífdaga þess í sjálfu sér óbreytta? Það er ég ekki.
    Og þá komum við að byggðamálunum og er nú ekki ástæða til að gleyma þeim, því miður, í þessu efni því að augljóslega hefur sú sjávarútvegsstefna sem hér er rekin úrslitaáhrif á þróun byggðar við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið. Það hefur mönnum að sjálfsögðu lengi verið ljóst og miklar umræður hafa á undanförnum árum farið fram um þann þátt mála þegar sjávarútvegsstefnan hefur verið hér til umfjöllunar. Og það verð ég að segja að er kannski allra lakast í því sambandi að ræða þetta út frá frv. hæstv. sjútvrh. um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð að þar er alveg tvímælalaust verið að stíga skref aftur á bak. Það er tvímælalaust verið að stíga skref aftur á bak frá þeirri þó ófullkomnu skipan mála sem við höfum núna búið við síðastliðin ár. Og það er mjög slæmt ef slíkt skref verður nú stigið á því ári og með það ár farandi í hönd þegar ljúka á endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða.
    Það er með öðrum orðum þannig., hæstv. forseti, að sú breyting sem lögð er til í frv. á 5. gr. laganna um Hagræðingarsjóð fellir út úr lögunum það ákvæði sem áður var og lýtur að því að heimilt er samkvæmt gildandi lögum að nýta allt að helming þess afla sem til Hagræðingarsjóðs fellur til --- eins og segir í lögunum orðrétt, með leyfi forseta ---

,,eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 9. gr., en að öðru leyti skulu aflaheimildir þessar framseldar samkvæmt ákvæðum 8. gr. til að standa undir kaupum á skipum til úreldingar.`` Og í 9. gr. segir síðan: ,,Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum, er höllum fæti standa, með því að framselja veiðiheimildir sem honum hafa verið úthlutaðar í því skyni skv. 5. gr. Aflaheimildirnar skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Skal sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi eiga ráðstöfunarrétt að veiðiheimildum þessum gegn endurgjaldi skv. 1. mgr. 8. gr. Neyti sveitarstjórn ekki ráðstöfunarréttar síns skulu veiðiheimildir framseldar til skipa og gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. þá um endurgjald fyrir veiðiheimildir þessar eftir því sem við á. Fáist ekki skip til veiðanna með þeim skilmálum getur stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið lægra endurgjald eða fallið frá endurgjaldi standi sérstaklega á.``
    Og síðan segir að skilyrði fyrir þessari aðstoð sjóðsins til einstakra byggðarlaga sé að vegna sölu fiskiskipa hafi orðið straumhvörf í atvinnumálum viðkomandi byggðarlags þannig að fyrirsjáanleg sé veruleg fækkun starfa í því byggðarlagi.
    Nú má margt um þessa hluti segja og var reyndar býsna umdeilt mál hvernig ætti að útfæra þetta ef á annað borð yrði reynt að setja inn svona öryggisákvæði, svona öryggisnet undir fyrirkomulag núverandi fiskveiðistjórnunar. En um þetta tókst þó að lokum sæmileg samstaða, vil ég leyfa mér að segja, sæmileg samstaða. Að það væri í öllu falli til bóta vegna þeirra augljósu galla og þeirrar miklu áhættu sem fyrir einstök byggðarlög er fólgin í sölu veiðiheimilda, frjálsri sölu veiðiheimilda milli aðila, að þá væri það til bóta að hafa svona ákvæði. Þessu öryggisneti á nú að kippa undan. Það á að taka það í burtu. Og maður hlýtur þá að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvað á að gera? Hvað hyggst hæstv. sjútvrh. gera ef nú eftir sem áður koma upp nákvæmlega þessar aðstæður?
    Nú skulum við segja að í t.d. tveimur einangruðum, afskekktum byggðarlögum gerist það á fyrstu mánuðum næsta árs að máttarstoðir þeirra verði gjaldþrota og veiðiskip viðkomandi byggðarlaga fari á nauðungaruppboð og verði seld burtu úr byggðarlögunum, eftir standi tvö kauptún, heimildarlaus. Í raun og veru sigli lífsbjörgin út um hafnarkjaftinn á þessum stöðum einn góðan veðurdag, eins og við höfum séð gerast. Hvað ætlar hæstv. sjútvrh. þá að gera? Of ef hæstv. forsrh. --- sem ég efast nú um að ég óski framar eftir að komi í þennan þingsal af tilteknum ástæðum, af því að ég hef svo miklar efasemdir um að nærvera hans sé til bóta hér --- væri ábyrgðaraðili byggðamálanna þá væri auðvitað ástæða til að snúa máli sínu til hans. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hvað ætlar sá aðili sem ber ábyrgð á byggðamálum í þessari ríkisstjórn að gera ef nákvæmlega þessi staða kemur upp í janúar eða febrúar á næsta ári og búið verður að loka þeim eina möguleika sem fyrir hendi er í núgildandi lögum til að bregðast við slíkum aðstæðum. Hvað hugsa þeir sér að gera, þessir menn? Jú, það er eina setningu eða reyndar tvær línur að finna um það í þessu frv. Það er neðst á bls. 3, með leyfi forseta, þar sem segir:
    ,,Þá er í frv. lagt til að það hlutverk sjóðsins að koma til aðstoðar við einstök byggðarlög verði fellt úr gildi.`` Og síðan segir: ,,Mun eðlilegra er að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu.`` Punktur. Þetta er allt og sumt. Þetta er svarið sem hæstv. ríkisstjórn býður okkur upp á.
    Og nú liggur það í hlutarins eðli að ef það gerist t.d. að eini skuttogari kauptúns, sem þar er fyrir hendi og leggur upp afla til vinnslu í eina stóra vinnustað plássins, frystihúsinu, er seldur í burtu þá er ekkert einfalt mál að leysa úr því vandamáli sem upp kemur. Mér er til efs að stjórnvöld hafi í raun á hendi þau tæki sem duga ef ekki er hægt að gera það í gegnum fiskveiðistjórnunina og sjávarútveginn. Það mun engu máli skipta þó

að Byggðastofnun haldi fund --- með fullri virðingu fyrir henni --- og sé öll af vilja gerð. Því hvað á hún að gera? Hvað á Byggðastofnun að gera ef kvótinn er farinn burt af staðnum, ekkert skip er til að veiða hann og það er enginn kvóti á lausu? Hugsum okkur aðstæður í byrjun næsta árs. Hringinn í kringum landið við sjávarsíðuna verður erfitt atvinnuástand. Það verður mikil sókn í þann fisk sem kemur upp úr sjónum í 15--20% aflasamdrætti. Það verður ekki mikið á lausu. Menn munu ekki standa í biðröðum til þess að landa afla á Raufarhöfn eða Suðureyri við Súgandafjörð eða þar annars staðar sem ógæfan kynni að berja að dyrum næst. Það verður ekki svo. Góður vilji Byggðastofnunar og margir fundir þar munu því miður ekki leysa atvinnuástand og vá sem yrði fyrir dyrum við slíkar aðstæður. Og hef ég þó ekkert nefnt það, sem auðvitað er ástæða til að skjóta hér inn í, að síðan er hæstv. ríkisstjórn á sama tíma að gelda þessa stofnun sem hún vísar á. Á sama tíma liggur það fyrir að verið er að skera niður fjárveitingar til Byggðastofnunar og hæstv. forsrh. er að setja henni reglugerð, sem mun meira og minna loka á möguleika Byggðastofnunar til að gera nokkurn skapaðan hlut ef svona aðstæður skapast. Þannig að hér rekur sig algjörlega eitt á annars horn. Það er því óhjákvæmilegt að forsvarsmenn byggðamála í ríkisstjórninni komi í þessari umræðu og greini okkur þá frá því hvað menn ætlast fyrir. Ég veit að það er ekki sanngjarnt að krefja hæstv. sjútvrh. svara um þá þætti málsins. Hann er hæstv. sjútvrh., ekki byggðamálaráðherra Íslands. Þó svo að hann stýri atvinnugrein sem hefur mikil áhrif á byggðarþróun í landinu, vissulega.
    Þennan þátt málsins er, hæstv. forseti, óhjákvæmilegt að ræða og ég gæti sagt margt fleira um þetta efni, jafnþungt í huga og mér í raun og veru er af þessu tilefni og jafnmiklar áhyggjur og ég hef af þeirri stöðu sem uppi er vítt og breitt um landið. Ég hef baksað við þingmennsku fyrir landsbyggðarkjördæmi núna bráðum hátt á níunda ár og ég hef fylgst sæmilega vel með stjórnmálum í ein 15--17 ár, frá því ég var fyrst í framboði til Alþingis, ungur maður fyrr á öldinni, eins og félagi minn, 9. þm. Reykv., segir stundum. Og því miður verð ég að segja það að þetta er erfiðasta ástand og þyngsta andrúmsloft sem ég hef á þessum tíma upplifað á landsbyggðinni. Ég hef ekki fyrr heyrt jafnþungt hljóð, jafnmikla svartsýni og jafnmiklar áhyggjur á einum og sama tíma og ég hef gert á þessum haustmánuðum og núna á öndverðum vetri vítt og breitt um landið. Hef ég þó farið býsna víða því ásamt með formanni míns flokks hef ég líklega heimsótt öll kjördæmi landsins og farið um flestöll byggðarlög á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi, sunnanverðum Austfjörðum, norðausturhorni landsins og víðar og tel mig þess vegna geta borið um þetta af sæmilegri reynslu.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það er geysilegur uggur í brjóstum manna og þar kemur margt til. Þar koma auðvitað fyrst og fremst til þessar versnandi ytri aðstæður og aflasamdráttur, sem menn sjá ekki í fljótu bragði hvernig þeir fá klofið, í byggðarlögum og í fyrirtækjum sem þegar berjast í bökkum en fá nú á sig 10, 12, 15, 18% aflasamdrátt og sambærilega veltuminnkun, án þess að hafa í mörgum tilvikum mikla möguleika á því að draga úr kostnaði.
    Það liggur í hlutarins eðli hvílíkt reiðarslag þetta er fyrir þau byggðarlög sem eru verulega háð t.d. þorskveiðum og grálúðuveiðum og fá þess vegna á sig þennan aflasamdrátt af fullum þunga þar sem sjávarútvegurinn einn stendur kannski fyrir 70--80% af atvinnutekjum í viðkomandi byggðarlögum. Fjöldinn allur af sjávarplássum hringinn í kringum landið er þannig settur að sjávarútvegurinn er einhvers staðar á bilinu helmingur til 80% af atvinnutekjum viðkomandi byggðarlags. Með öðrum orðum: Það er hátt í það sambærileg veltuminnkun í viðkomandi byggðarlagi og aflasamdrættinum nemur. Það þarf að margfalda það með svona 3 / 4 og þá er sá samdráttur kominn. Það þarf ekki flókinn reikning til.

    Allt þetta er óhjákvæmilegt að nefna vegna þess að eftir því sem ástandið er alvarlegra og útlitið dekkra er meiri nauðsyn til að hafa slíkar öryggisráðstafanir byggðar inn í lög um fiskveiðistjórnun og þar hafa verið. Það að taka þær út núna við þessar aðstæður er auðvitað að halda í öfuga átt. Ef eitthvað væri þá hefðu menn sagt núna, ef þeir væru með fullu viti: Við verðum að auka við möguleikana og svigrúmið í fiskveiðistjórnuninni til að mæta þessum aðstæðum. Það er lífsnauðsynlegt, annars kann illa að fara.
    Það er ekki hægt annað en að ræða aðeins um stöðu sjávarútvegsins til að taka á sig þessi útgjöld vegna þess að þetta eru viðbótarútgjöld fyrir sjávarútveginn, fé sem fer út úr veltu sjávarútvegsins á næsta ári til annarra þarfa miðað við það sem verið hefur. Það er alveg saman hvernig menn fara hringinn í kringum það mál. Breytingin verður sú að 525 millj. kr. verða teknar út úr sjávarútveginu, færðar inn í ríkissjóð og síðan að vísu út úr honum aftur til ágætra og þarfra verkefna eins og rekstur Hafrannsóknastofnunar er, en það er aukaatriði í þessu máli. Þetta er skattlagning á sjávarútveginn sem fer út úr þeirri grein, verður þar ekki til ráðstöfunar, til hagræðingar eða annarra aðgerða og er upp á 525 millj. kr. Samkvæmt splunkunýju vinnuskjali frá Þjóðhagsstofnun, sem ég hef í höndum, er afkoman sú þegar rekstrarskilyrði sjávarútvegsins á nýbyrjuðu fiskveiðiári eru tekin saman í heild, að botnfiskveiðar og vinnsla vegin saman, allt heila galleríið, eru nú rekin með 5--6% halla. Og það er þeim mun alvarlegri staðreynd sem menn vita að ein grein veiðanna er rekin með sæmilegri afkomu og reyndar nokkrum hagnaði þar sem er frysting á sjó og afgangurinn þá með þeim mun meira tapi að þetta verður meðaltalið.
    Það er sömuleiðis mat Þjóðhagsstofnunar að bolfiskvinnslan sem slík sé núna rekin með 8% halla og sú afkoma versni í ein 10% á næsta ári að óbreyttu ástandi og miðað við þann aflasamdrátt sem fram undan er. Þjóðhagsstofnun hefur upp á síðkastið verið að reyna að leggja mat á hver gætu orðið áhrif af fækkun fyrirtækja í sjávarútvegi og ég verð að játa að eftir allt umtalið um hagræðingu í hagspekingum utan þings og innan og jafnvel uppi í Háskóla urðu það mér sár vonbrigði að sjá fyrstu vísbendingar sem Þjóðhagsstofnun gefur um áhrifin af því að t.d. þriðjungur eða fjórðungur lakast stöddu fyrirtækja í sjávarútvegi hættu starfsemi og hin sem betur eru stödd tækju við þeim veiðiheimildum. Ég hafði alltaf ímyndað mér að menn hlytu að vera að tala um stórar sveiflur þegar þessi hagræðingarmál væru til umræðu. Menn væru að ímynda sér að hægt væri að ná geysilegum árangri með uppstokkun af þessu tagi, fækkun fyrirtækja og því að safna veiðiheimilum á fáar hendur. En því miður er það ekki svo. Og sú ótrúlega lága tala kemur í raun og veru út að þetta gæti legið einhvers staðar á bilinu 2--3%, að afkoma veiða og vinnslu samanlagt gæti styrkst um tæp 3% við það að þetta stór hluti lakast settu fyrirtækjanna hætti starfsemi og veiðiheimildirnar færðust yfir á þau fyrirtæki sem eftir væru. Eitthvað betri gæti útkoman orðið ef menn gætu stýrt því að láta þau fyrirtæki, sem allra mesta hagkvæmni hafa, fá veiðiheimildirnar en ekki hin sem eru svona í miðjunni en þar munar ekki mjög miklu. Og þrátt fyrir að fyrirtæki, sem skulda 10, 12, 13 milljarða króna, hyrfu út úr myndinni og þau mál yrðu gerð upp mundi eiginfjárstaða sjávarútvegsins ekki batna nema um rúm 5%. Og þá fer maður að spyrja sig, hafa þeir snillingar, sem eru jafnvel tilbúnir til að keyra nánast allt landið í gjaldþrot til þess að knýja fram það sem menn kalla endurskipulagningu og uppstokkun í sjávarútvegi, aldrei kíkt á þessa hlið málanna? Eftir hverju er að sækjast þeim megin? Er það virkilega svo að það sé mælt í prósentum einum, tveimur, þremur sem þetta mundi í reynd skila í bættri afkomu í greininni? Þjóðhagsstofnun virðist samkvæmt sínu vinnuskjali meta það svo, sem auðvitað er ekki endanlegt álit þeirrar stofnunar og er nauðsynlegt að taka það fram, að það sé ekki víst að svo verði.
    Allt þetta finnst mér óhjákvæmilegt að skoða og hugleiða í tengslum við þessi mál

því að yfir okkur eru haldnar miklar ræður um að það verði að sýna mikla hörku og láta fyrirtæki fara á hausinn og það sé nánast eina leiðin að aga menn og hýða til hagræðingar og þessar ræður láta dálítið á sér kræla núna um þessar mundir. Við höfum stundum talað gegn þessum sjónarmiðum, þeir sem þykjast hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það hefði á atvinnuástand og afkomu og hagi fólks í einstökum byggðarlögum að keyra slíka kaldrifjaða frjálshyggju í gegn í þessari atvinnugrein og knýja fram eitthvað sem menn kalla uppstokkun eða endurskipulagningu eða hagræðingu sjávarútvegsins með þessum hætti. Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst ástandið versna nokkuð ef það kemur svo á daginn að í gegnum slíkan darraðardans mundi ekki meira skila sér en að það væri e.t.v. von á því að lagfæra afkomu og stöðu veiða og vinnslu um 1, 2, 3%.
    Nei, ástandið í íslenskum sjávarútvegi er vissulega alvarlegt og kemur þar margt til og bætist nú við þessar vikurnar það sem sálrænt fer illa með menn að búa við eitthvert versta haust hvað snertir bæði gæftir og afla sem menn hafa í flestum greinum veiða upplifað um langt árabil og bætist þar grátt ofan á svart þannig að af sjálfu leiðir að hljóðið er næsta dauft í þeim sem starfa í þessari atvinnugrein.
    En ein stærð hefur kannski of lítið verið tekin til umfjöllunar í þessu samhengi öllu og það er ósköp einfaldlega heildarstaða sjávarútvegsins í landinu. Hver er hún? Við hv. 3. þm. Austurl. ræðum stundum um heildarstöðu landbúnaðarins og við gleðjumst yfir því að landbúnaðurinn er sem atvinnugrein tiltölulega vel á vegi staddur, t.d. hvað skuldir og eiginfjárstöðu snertir. Sem betur fer eru bændur búmenn og forsjálir og steypa sér ekki í miklar skuldir og eru yfirleitt manna duglegastir við að borga síðan þau lán upp ef þeir á annað borð taka þau. Þetta hefur leitt til þess að þrátt fyrir allt er íslenskur landbúnaður með eiginfjárhlutfall sjálfsagt upp á ein 50% þegar það er skoðað, jafnvel meira og það er þá enn betra. En hvernig er þetta hjá sjávarútveginum? Er íslenskur sjávarútvegur þannig í stakk búinn að hann geti bætt á sig án þess að finna mikið fyrir því 525 millj. kr. sérstökum skatti til að borga rekstur Hafrannsóknastofnunar á næsta ári? Svo að ég tali nú ekki um flötu veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti upp á milljarða sem væntanlega yrði. Hvernig hefur það þróast? Ég ætla að nefna tölur úr yfirliti sem ég fékk í hendur í gær um eiginfjárhlutfall í íslenskum sjávarútvegi á árunum 1983--1990. Það er þannig samkvæmt því úrtaki sem Þjóðhagsstofnun hefur byggt á --- það er breytilegt á milli ára og ég vil að menn hafi á því þá fyrirvara sem nauðsynlegt er af þeim sökum. Þar er um breytilegan fjölda fyrirtækja í úrtakinu að ræða en samt virðist manni að það gefi allgóða vísbendingu um þessa þróun. 1983 var eiginfjárhlutfall, miðað við bókfært verð, 25 fyrirtækja valinna af handahófi úr íslenskum sjávarútvegi 34,4%, rétt losaði þriðjung sem er þá auðvitað mun lakari staða en t.d. í landbúnaðinum og væntanlega lakari en í iðnaðinum svo að dæmi sé tekið en þó allviðunandi mundu sennilega einhverjir segja. Þó veit ég ekki hvort t.d. framkvæmdastjóri Verslunarráðsins teldi þetta ásættanlegt, ég efast um það. Ég býst við að hann mundi segja að samkvæmt bókunum þyrfti þetta að vera 50--60% til að vera gott svo að maður tali nú ekki um 95% eins og mér er sagt að sé eiginfjárhlutfall svissneskra banka.
    Um næstu áramót, 1984, hafði erfitt ár runnið sitt skeið á enda og eiginfjárhlutfall íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, þeirra 25 sem í úrtakinu voru, hafði lækkað í 26,4%, og hér er ég að tala um fiskvinnslufyrirtækin. En eins og menn þekkja var ástandið verra í útgerð á þessum árum en um nokkurt skeið hafði fiskvinnslan búið við betri afkomu en útgerðin og hagur útgerðarfyrirtækja var á þessum tíma víðast hvar orðinn mjög bágur. Þetta snerist síðan við seinna, eins og menn þekkja, og hefur upp á síðkastið verið öfugt þannig að afkoma veiða nema bátaútgerðar hefur yfirleitt verið skárri en vinnslu. Staðan var hins vegar þannig í útgerð og fiskvinnslu að þá var eiginfjárhlutfall, þegar þau fyrirtæki voru skoðuð sérstaklega, komið niður undir núll. 44 fyrirtæki, sem þannig háttaði til hjá voru bæði með fiskveiðar og vinnslu, voru með 3,7% eiginfjárhlutfall í árslok 1983 og voru orðin neikvæð um 4,2% í árslok 1984. Og ef við tökum svo næsta ár og skoðum 93 fyrirtæki í sjávarútvegi í árslok 1985 --- og munum að eiginfjárhlutfall 25 fiskvinnslufyrirtækja var 26,4% 1983 --- eru þessi fyrirtæki, tæplega 100 fyrirtæki í árslok 1985, komin niður í 6,1%. Eiginfjárhlutfall þeirra er orðið 6,1%.
    Annað úrtak, sem tekið var á sama ári og í voru 129 fyrirtæki, gaf nákvæmlega sömu niðurstöðu eða 6,1%. Og sjávarútvegur í heild, eins og hann var eftir á gerður upp fyrir árið 1985, var með eiginfjárhlutfall upp á 6,5%. Sjávarútvegur í heild í árslok 1986 hafði nokkuð rétt sig við með batnandi árferði og reyndar fór þá í hönd eitt mesta gósenár sem við Íslendingar höfum lifað, síðari hluti árs 1986 og fram eftir ári 1987, og því fylgdi að eiginfjárhlutfall sjávarútvegsins lyftist lítillega á nýjan leik upp í 12,6% í árslok 1986 og 13,5% í árslok 1987.
    En hvað gerðist svo? Jú, á síðari hluta þessa árs og fram eftir árinu 1988 náði hámarki sínu sú hávaxtastefna og fastgengisstefna á óraunhæfu gengi sem leiddi hlutina í algert öngþveitisástand á haustdögum 1988. Þegar upp var staðið og Þjóðhagsstofnun gerir sjávarútveginn upp í heild eftir á var eiginfjárhlutfallið á nýjan leik í árslok 1988 í íslenskum sjávarútvegi komið ofan í 5,3%. Og sjávarútvegur í heild í árslok 1989 er að vísu byrjaður að rétta sig lítillega við en þó ekki nema í 8,1%. Síðan varð að vísu verulegur afkomubati eins og menn þekkja á síðari hluta árs 1989 og á árinu 1990 sem skilar því að samkvæmt úrtaki, í hverju eru 147 fyrirtæki, var eiginfjárhlutfall í íslenskum sjávarútvegi í árslok 1990 komið upp á nýjan leik í 16,9%. En það er nú allt og sumt. Batinn sem að vísu er umtalsverður og skilaði sér m.a. í verulegum hagnaði fjölmargra stærri sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem vega þyngst í þessum útreikningum öllum, hafði þó ekki megnað að breyta þessu meir en sem nemur þessu. Það er auðvitað öllum ljóst sem skoða þessa hluti, skoða heildarskuldsetningu sjávarútvegsins, skoða eiginfjárstöðu fyrirtækjanna, að staðan er svo veik að það er með öllu óásættanlegt. Það er ekki hægt að búa við það til lengdar að undirstöðuatvinnuvegur landsmanna hafi ekki betri rekstrarskilyrði en svo að hann rétt lifi því að það er ekki hægt að kalla það annað þegar eiginfjárstaðan er að hreyfast á bilinu niður undir núll og upp í 10, 12, 15% í þessari atvinnugrein. Og síðan þarf ekki að fara í grafgötur um það hvað er að gerast núna. Það vita allir hv. alþm. Þessi staða er að hríðversna á nýjan leik og miðað við taptölur upp á 5--6% í sjávarútvegi í heild og 8--10% í fiskvinnslunni einni, má ætla að það verði a.m.k. jafnmikið bakslag í eiginfjárstöðu sjávarútvegsins á þessu ári og uppsveiflan var á hinu síðasta. Ég tel því ekki ólíklegt að ætla megi að í árslok 1991 verði eiginfjárstaðan á nýjan leik komin niður á bilið 7--10%. Og hvað höfum við efni á mörgum slíkum árum í viðbót? Það er einfalt að reikna það. Eftir um það bil eitt ár verður íslenskur sjávarútvegur sem atvinnugrein gjaldþrota í heild sinni á þennan mælikvarða mælt.
    Við sögðum það ýmsir haustið 1988 að sjávarútvegurinn ætti ekki marga mánuði eftir. Ég held að þær upplýsingar, sem ég er hér að birta um eiginfjárstöðu sjávarútvegsins í árslok 1988, sanni það. Eiginfjárhlutfall í íslenska sjávarútveginum fór niður í 5,3% í árslok 1988 og á hálfu ári til viðbótar með sambærilegum rekstrarskilyrðum hefði greinin sem slík í heild sinni að meðaltali verið gjaldþrota. Það er staðreynd málsins. Það er mergurinn málsins. Og það er það sem við stöndum aftur frammi fyrir að við siglum með a.m.k. sambærilegum hraða í gjaldþrot á nýjan leik. Og við þessar aðstæður, dauflegu og dapurlegu aðstæður, hv. þm., erum við að ræða --- um hvað? Í fyrsta lagi um að taka 525 millj. kr. út úr þessari atvinnugrein inn í ríkissjóð á næsta ári. Í öðru lagi að taka undan fiskveiðistefnunni það öryggisnet byggðanna sem þar náðist þó að lokum sæmileg samstaða um á árinu 1990. Og í þriðja lagi ættum við auðvitað að vera að tala um það að hæstv. forsrh. segir að ekkert liggi á með aðgerðir til handa íslenskum sjávarútvegi, menn hafi nógan tíma til stefnu, kannski segir hann ekki nógan tíma því hvað sem um hann má segja ætla ég að láta hann njóta sannmælis, en hann mun í öllu falli hafa sagt að það séu vikur til stefnu. Það eru engar vikur til stefnu.
    Það blasir því miður við að fyrirtækin týna nú tölunni hvert á fætur öðru á næstu vikum og næstu örfáum mánuðum eru fjölmörg fyrirtæki dæmd til að stöðvast og þegar kemur fram á mitt næsta ár verður staðan að mínu mati sú að síðustu fyrirtækin í íslenskum sjávarútvegi fara að sveiflast yfir í neikvæða afkomu. Og þegar þannig er komið að sjálfir risarnir í þessum atvinnurekstri, þeir sem eiga svo til allt sitt veltufé í formi eiginfjár, fara að tapa peningum, þá þarf ekki frekar vitnanna við. Þegar þau örfáu fyrirtæki í landinu, sem t.d. hafa vegna sterkrar eiginfjárstöðu sloppið við að taka afurðalán nema í mjög litlum mæli, fara líka að tapa fé, eins og gerðist á síðari hluta árins 1988 og eins og stefnir í núna, þá geta menn farið nærri um það hvernig hinum gengur. Samkvæmt mati á hlutafé Útgerðarfélags Akureyringa er það að verðmæti upp á 2,4 milljarða kr. og það fyrirtæki er svo sterkt að það hefur getað í verulegum mæli fjármagnað sitt birgðahald af eigin fé. Þetta er auðvitað spurning um það hversu góða ávöxtun það gefur en það er þó væntanlega betri kostur en að taka fokdýr afurðalán og ég held að menn ættu ekki að þurfa frekari vitnanna við þegar fyrirtæki með slíka stöðu, eða þau sem sterkust eru, fara virkilega að finna fyrir hlutunum, eins og nú er því miður óumdeilanlega að gerast, þá er einhvers staðar orðið þröngt fyrir dyrum.
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að draga þessara almennu staðreyndir um stöðu atvinnugreinarinnar inn í umræður um Hagræðingarsjóð sem ég þarf í sjálfu sér ekki að öðru leyti að fjölyrða um eða ræða. Við fulltrúar Alþb. í sjútvn. höfum þegar tekið afstöðu til þeirrar fénýtingar á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sem fjárlagafrv. boðaði og hv. sjútvn. fékk til umsagnar frá fjárln. Þar höfum við með nefndaráliti sem væntanlega er komið til hv. fjárln. lagst eindregið gegn þessari fénýtingu. Við teljum hana í öllu tilliti óskynsamlega og á engan hátt þær forsendur fyrir hendi að réttlætanlegt sé að stíga slíkt skref. Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég trúi því ekki að óreyndu að hv. alþm., hvar í flokki sem þeir standa, sem á annað borð eru eitthvað að hugsa um stöðu sjávarútvegsins og atvinnumála í landinu, láti breytingu upp á rúman hálfan milljarð kr., sem á að taka út úr sjávarútveginum á næsta ári, líða fram hjá sér í þinginu án þess að segja eitt einasta orð. Eru engir hv. þm. stjórnarliðsins hér inni sem sjá ástæðu til að staldra við í þessu máli? Það vill svo merkilega til að fyrir utan þann sem situr í forsetastóli og þá sem eru til hliðar honum eru þrír hv. stjórnarliðar í þingsalnum. Ég þakka nærveru hæstv. forseta og virði hana og met. En mér finnst satt best að segja dauflegt að þingsalurinn fyllist út af uppákomum sem stafa af stráksskap hæstv. forsrh. og menn sitja klukkustundum saman undir slíkum hlutum, en þegar kemur að því að ræða stöðuna í íslenskum sjávarútvegi er hér varla nokkur maður. Þá eru hér fimm þingmenn í salnum. Það er heldur dapurlegt verð ég að segja. Ég að vísu þakka nærveru þeirra sem hér eru og það liggur við að ég telji þá upp, hv. 3. þm. Austurl., 9. þm. Reykv., hv. 4. þm. Reykv., hv. þingflokksformann Alþfl. og hv. 9. þm. Reykn., ræðumann og forseta. ( ÁMM: Telst ég ekki með?) Síðan er í dyrunum einn Reyknesingur sem rétt er þá að nefna, það er 3. þm. Reykn. --- Jú, hér bætist einn við, oft kemur góður þá getið er, hér kemur væntanlega 5. þm. Norðurl. e. og svo situr í hliðarsal ágætur 3. þm. Vesturl. Þá held ég að það sé fulltalið sem hér er. (Gripið fram í.) Nú hef ég bara ekki aðstöðu til þess, virðulegur framíkallandi, að nafngreina áheyrendur en að sjálfsögðu er ég þeim einnig þakklátur fyrir nærveruna.

    En að gamni slepptu, hæstv. forseti, fer ég að ljúka máli mínu enda spurning hvaða gagn maður gerir sjálfum sér og öðrum með því að flytja ræður. Ég er alveg sannfærður um að það verður ekki mikið sagt frá þessari ræðu í fjölmiðlunum. Hæstv. forsrh. mun ekki þakka mér málefnalegar umræður um þessi miklu og afdrifaríku mál, heldur senda mér einhver önnur skeyti. Ég tel mig hafa hvorki orðið sjálfum mér né þinginu til skammar með því að taka upp málefni sjávarútvegsins með þeim hætti sem ég hef gert og skammast mín ekkert fyrir það þó það hafi tekið þrjá stundarfjórðunga.
    Að þessum orðum mæltum, hæstv. forseti, vil ég láta þá ósk í ljósi að við fáum, áður en umræðum lýkur um þetta mál, áður en það fer til hv. sjútvn. sem hlýtur auðvitað að leggja í það verulega vinnu, að taka á málefnum sjávarútvegsins í almennu samhengi í tengslum við þetta. Málið er þess eðlis. Það kemur inn á sjálfan kjarna fiskveiðistefnunnar og það hefur áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Ef umræðan skyldi halda áfram þá gæfist okkur færi á því að eiga t.d. orðastað við þá hæstv. ráðherra sem ættu að sjá sóma sinn í að vera hér með hæstv. sjútvrh. Ég nefni sem dæmi hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. Ætli það geti ekki verið svo að málefni sjávarútvegsins séu dálítið skyld og tengd örlögum hinna smáu sveitarfélaga við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið. Eða hvað var það sem stóð upp úr hjá talsmönnum sveitarfélaganna á fjármálaráðstefnu þeirra á dögunum annað en að byrðarnar af því að standa við bakið á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar væru unnvörpum að sliga sveitarfélögin. Bláfátæk sveitarfélög gangast í stórar ábyrgðir og skuldsetja sig svo tugum og hundruðum milljóna kr. nemur. Til hvers? Til þess eins að hjól undirstöðuatvinnugreina landsmanna haldi áfram að snúast. Bjartari eru horfurnar ekki en svo að sveitarstjórnarmenn við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið sitja við það verkefni að reikna út hvort þeirra litla sveitarfélag þoli meiri skuldir, nokkrar milljónir í viðbót til þess að afstýra því að undirstöðuatvinnufyrirtæki staðarins verði gjaldþrota eða aflaskipið verði selt í burtu með lífsbjörginni.
    Herra forseti. Mér hefði þótt það ánægjulegra ef hér hefðu verið fleiri viðstaddir til að ræða þessa hluti og ég hefði svo sannarlega kosið mér að fá að eiga orðræður um málefni sjávarútvegsins við betri aðstæður fyrir hönd þeirrar greinar en hér eru uppi, en við því verður ekki gert og ég læt þetta nægja að sinni.