Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 15:14:00 (1442)

     Árni Johnsen :
     Virðulegi forseti. Í þeim umræðum sem hafa farið fram um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins hefur mörg atriði borið á góma sem snerta hag og heill Íslendinga allra því lífsbjörg landsins er aflinn sem berst að landi. Um er að ræða frv. sem fær vonandi jákvæðan framgang. Þó er ástæða að ræða ýmis atriði tengd þessu frv. á tíma of lítils afla og allt of afkastamikils bátaflota og fjárfestingar almennt í sjávarútvegi miðað við aðstæður líðandi stundar. Þá kreppir skórinn að og margar spurningar vakna um möguleikana sem eru fram undan. Vandamálin sem þarf að bregðast við svo úr rætist.
    Í upphafi máls míns vil ég undirstrika að ég tel að staða fiskvinnslunnar í landinu sé almennt miklu verri --- ég undirstrika, miklu verri --- en menn gera sér grein fyrir og hafa viðurkennt í röðum stjórnmálamanna og embættismanna. Það er í raun svo komið að fjárhagsstaða margra virtustu og öflugustu fiskvinnslufyrirtækja landsins er slík að stjórnendur þeirra eru í raun og veru ekki sjálfráðir gerða sinna vegna feykilegrar skuldsetningar. Að því leyti eru þessi fyrirtæki á sinn hátt þjóðnýtt og það er auðvitað staða sem er hvorki æskileg né boðleg varðandi undirstöðuatvinnuvegi landsmanna og rétt atvinnurekenda og þess fólks sem vinnur í fiskvinnslu um allt land. Áður en ég vík að þeim atriðum sem ég tel sýnt að þurfi að grípa til svo úr rætist vil ég víkja að nokkrum stöðum landsins sem eru í raun og veru sýnishorn af stöðu mála í tugum sjávarplássa landsins.
    Í sjávarplássum á Suðurlandi, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, hafa menn fylgst með því um nokkurt skeið hve miklir erfiðleikar eru þar í rekstri fiskvinnslufyrirtækja og búa þessi fyrirtæki þó í heild við allsæmilegan kvóta. Unnið er að sameiningu fyrirtækja, en skuldsetningin er slík að vart er við nokkuð ráðið án þess að einhverjir hljóti fjárhagslegan skaða af og það á ekki síst við þau fyrirtæki sem þó fengu fjárhagsaðstoð úr sjóðum, fósturbarna Byggðastofnunar, Aflatryggingasjóði og Hlutafjársjóði sem því miður eru verstu dæmi í sögu lýðveldisins um fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna þess fyrst og fremst að um endalausa mismunun var að ræða gagnvart fyrirtækjum vítt og breitt um landið. Þar var í mörgum tilvikum afgreitt með aðferðinni Jón og séra Jón. En um leið og þessi úthlutun átti sér stað varð lánafyrirgreiðslan sem átti að bjarga málum hins vegar að eins konar hengingaról þess reksturs sem lánið þáði vegna þess að ekki var gripið til þeirra ráðstafana sem þurfti almennt í þjóðfélaginu með það fyrir augum að skapa eðlilegan rekstrargrundvöll og aðlaðandi farveg fyrir framþróun í atvinnuuppbyggingu. Atvinnuuppbyggingu sem við verðum þó sífellt að vera vakandi yfir að eigi sér stað, ekki síst í okkar aðalatvinnuvegi, sjávarútvegi.
    Í Vestmannaeyjum hefur verið unnið að undanförnu að könnun á sameiningu á nokkrum stærstu frystihúsum þar og útgerðum þeim tengdum. En jafnvel í stærstu verstöð landsins, þar sem athafnamenn eru löngu kunnir fyrir hagsýni, er skuldsetningin orðin svo mikil, skekkjan í rekstrargrundvelli orðin svo æpandi að miklum erfiðleikum er háð að sameina rótgróin fyrirtæki í fiskvinnslu vegna þess að samlegðaráhrifin af því að sameina fleiri hús gefa ekki nóg af sér til að standa við skuldbindingar. Skuldsetningin er svo mikil að það er stórkostlegt vandamál að skapa rekstrarhæfa einingu með allar skuldirnar á bakinu og staðan er svo alvarleg að aðalbanki eyjanna hefur stöðvað nær algjörlega alla fyrirgreiðslu sem að öllu jöfnu væri eðlileg við heilbrigðar aðstæður. Hins vegar hefur ekki farið hátt um þessar þrengingar vegna þess að Íslandsbanki hefur gripið til aðhaldsaðgerða án þess að fleyta kerlingar á síðum dagblaða eða bylgjum útvarpsstöðva eins og málefni Landsbankans á sömu nótum hafa verið færð inn í fjölmiðlaheiminn af fréttamönnum sem í sívaxandi mæli skrifa nú og klippa fréttir til þess að espa upp, skapa tortryggni og úlfúð en tryggja um leið hlustun í harðri keppni útvarpsstöðvanna um markaðinn.
    Það er eins og menn vilji ekki horfast í augu við staðreyndir og þann uppsafnaða vanda sem m.a. fyrri ríkisstjórn skildi eftir og trúnaðarbrest með geðþóttaákvörðunum sem mismunuðu þegnum landsins. Bjartsýni lengi lifi, en nú er svo komið að horfast verður kalt og rólega í augu við staðreyndir málsins og gera snarlega hispurslausa úttekt á stöðu fiskvinnslunnar í landinu með það fyrir augum að grípa til aðgerða þegar á næstu vikum.
    Það er sagt að útgerð og vinnsla skuldi 90 milljarða kr. og þar af sé innlent lánsfé um 30 milljarðar. Hvert vaxtastig í þeirri pólitík þýðir því um 300 millj. kr. En það eru margar ástæður sem flétta saman þennan vanda sem við er að glíma. Ef það væri aðeins vandi lélegs afla í haust er leið og tafir vegna fimm fárviðra sem gengu yfir væru áhyggjurnar minni, en vandinn er miklu djúpstæðari. Rekstrargrundvöllurinn er rangur, hann er kolvitlaus og það gengur ekki upp eins og staðan er í dag.
    Ég vík orðum að nokkrum stöðum eins og ég gat um í upphafi máls míns. Í Grindavík, til að mynda, er döpur staða í fiskvinnslu. Mikill hluti aflans sem berst á land fer á markaði, fer í burtu frá plássinu og þar er eftirspurnin svo mikil og í raun og veru ótrúlegt hvað menn teygja sig langt og lengi í háu verði vegna þess að í mörgum tilvikum eru menn að tjalda til einnar nætur og greiða verð sem fyrirtæki þeirra standa í raun

og veru ekki undir. Menn neyðast út í þetta háa verð til þess að gera eitthvað, ná einhverri veltu og halda vinnu fyrir fólkið. En því miður leiðir þetta bæði marga í sjálfheldu og fjárhagslegt svelti fyrr en seinna. Fiskvinnslan hefur í dag orðið undir í skiptingu kökunnar. Ekki aðeins vegna þess að vinnumunstrið er stórbreytt á skömmum tíma heldur vegna margra þátta. Höfuðáhyggjuefnið er þó það að aftast á merinni situr verkafólkið í fiskvinnslunni með minnstan afrakstur allra aðila. Þegar athafnamenn í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar eru orðnir mát er eitthvað mikið að og slík staða blasir við ef ekki verður brugðist skjótt við.
    Verkefni núv. ríkisstjórnar hefur verið ærið. Að freista þess að ná tökum á bullandi óráðsíu síðustu ríkisstjórnar undir forsæti framsóknarmanna og fjármálastjórn Alþb. þar sem flest lék lausum hala og ofvöxtur hljóp í yfirbyggingu stjórn- og þjónustukerfis landsins. Það hefur því verið að mörgu að hyggja og þegar unnið er að lausn þeirra vandamála sem eru ógnvekjandi fyrir þjóðfélagið allt, og er það með ólíkindum að stjórnarandstaðan á hinu háa Alþingi, þ.e. Alþb. og Framsfl., því Kvennalistinn hefur ekki tekið þátt í þeim leik, skuli bjóða upp á þau vinnubrögð sem hafa tíðkast lengst af síðan þing hófst 1. okt. sl. Framkomu sem hefur byggst á orðlengingum og því sem má kalla einu orði hégóma. Framkomu sem hefur tafið þingstörf með sífelldum þingskapaumræðum, framkomu sem er ekki sæmandi alþingismönnum sem eru að vinna til árangurs.
    Á Eskifirði er fyrirtæki sem er með þeim rótgrónari í fiskvinnslu og útgerð. Þar er svo komið að ef afli fer ekki að glæðast, ef skuldbreytingar koma ekki til, ef og ef og ef og ef, þá stefnir í lokun og það er styttra í lokun heldur en mörg efin nema gripið sé til markvissra aðgerða til að snúa vörn í sókn. Vandi fiskvinnslufyrirtækjanna sem flest eru að meira eða minni leyti tengd útgerð er auðvitað mismunandi eftir samsetningu, vinnslu afurða og vandinn þar sem loðnan skiptir mestu máli er stærstur. Ef það skylli á með rífandi loðnuafla hjá þessum aðilum getur dæmið verið fljótt að snúast við, en um langan tíma hefur verið að herðast að svo fuglinn í skóginum er í raun og veru lengra og lengra í burtu frá hundum veiðimannsins. Það er ljóst og ekki hægt að loka augunum fyrir því að margir aðilar í fiskvinnslu verða að fá verulega aðstoð og allt útlit er fyrir að það þurfi að koma til erlend lán til langs tíma. Það veltur síðan á því hvað kemur úr hafinu í náinni framtíð hvort auðna ræður för og sumir velta þeim möguleika fyrir sér að betra sé að láta menn gefast upp en að grípa til viðeigandi aðgerða. Málið er þó ekki svo einfalt þótt það sé einföld staðreynd að fiskvinnslan er í dag blóðmjólkuð og hagsmunir þúsunda verkamanna um allt land í húfi, jafnhliða því hve atvinnurekendum í greininni er stillt upp að vegg, nánast eins og hreppsómögum.
    Á Vestfjörðum tala menn tæpitungulaust um vandamálin. Þar sagði einn kunnur athafnamaður við mig fyrir skömmu að reksturinn hjá þeim í fiskvinnslu stefndi beint til andskotans. Slík lýsing hjá forsvarsmanni eins öflugasta fiskvinnslufyrirtækis landsins er ekki björguleg og hlýtur að setja að manni hroll, enda má ljóst vera að fiskvinnslufyrirtæki vítt og breitt um landið stefna á vonarvöl. Slík staða kemur ekki upp á einum degi, einni nóttu. Slík staða kemur upp á mörgum árum og er ekki atriði sem menn ættu að brosa að, síst af öllu menn sem hingað til hafa talið sig vera talsmenn sjávarútvegs í landinu. En það kann að koma við kaunin á einhverjum þegar fjallað er um málin á þennan hátt. Hér er um langtímavanda að ræða sem verður að vinna úr skjótt. Um nokkurt skeið hafa Vestfirðir verið til umfjöllunar á þessum nótum í fjölmiðlum sem eins konar samnefnari fyrir sjávarútveginn í landinu. Það er mitt mat að samnefnarinn sé enn þá verr settur en meðaltal á Vestfjörðum vegna þess að þar hefur borist meiri afli á land en víða annars staðar, þó vissulega sé skortur á afla þar eins og dæmin sanna. En er samt betra en víða annars staðar. Þess vegna er meðaltalsdæmið verra að mínu mati en gert er ráð fyrir þar.

    Inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð hafa verið mörgum þyrnir í augum því svo er kreppt í rekstrinum, menn ætlast til þess að lenging lána Atvinnutryggingarsjóðs gangi fyrir sig því þótt raunhæfast verði að afskrifa þau er það ekki lifandi mögulegt vegna mismununar sem af því leiddi. Nóg var að afskrifa um milljarð í Hlutafjársjóði, gæludýri síðustu ríkisstjórnar, sem var notað eins og klær á almennan rekstur sem naut ekki ávaxtanna af þeirri miðstýringarást dýrkeyptustu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.
    Fjöldi fyrirtækja fékk hvorki fé úr Atvinnutryggingarsjóði né Hlutafjársjóði og hefur búið við okurlán á dráttarvaxtakerfi bankanna. En Fiskveiðasjóður og Byggðasjóður hafa hins vegar tryggt sig að nokkru leyti með því að hirða ákveðna prósentu af allri framleiðslu og haft þannig sitt á þurru. Það er sama hvaðan á málin er litið, það hallar undan fæti og gjaldþrotahrinu verður að koma í veg fyrir og stöðva. Það tala margir fjálglega um að þeir sem ekki hafa staðið sig verði að fara á hausinn og eigi að fara á hausinn. Það er auðvelt að segja það en það er erfitt að færa rök fyrir þeim málflutningi. Ef til að mynda þrjú fiskvinnslufyrirtæki á Vestfjörðum eða tvö fyrirtæki í Vestmannaeyjum færu á hausinn, hvað fara þá mörg þjónustufyrirtæki á hausinn jafnhliða?
    Úti á landsbyggðinni er það svo sem almenn regla að bankarnir leyfa þjónustufyrirtækjum og jafnvel hvetja þau til þess að lána fiskvinnslufyrirtækjum þegar illa árar því keðjuverkunin er sterk. Gjaldþrot fiskvinnslufyrirtækjanna bitnar því hvað harðast á blásaklausu fólki og fyrirtækjum sem hafa verið vel rekin, en hafa tekið áhættu á að lána vinnu og efni í skjóli góðrar eiginfjárstöðu.
    Í lengstu lög vona menn í veiðimannasamfélagi að hlutirnir gangi upp en það kemur alltaf að skuldaskilunum og staðan í mörgum sjávarplássum landsins er hreint ótrúleg. Ótrúleg að því leyti hvað mörg fyrirtæki, fyrirtæki í vélsmíði, rafiðnaði, trésmíði, málarar, ýmsir iðnaðarmenn, hvað þessir aðilar standa veikburða vegna erfiðrar stöðu fiskvinnslunnar og útgerðar sem er að meira og minna leyti samtengd.
    Áhættan í þessum efnum, og það er athygli vert, áhættan í þessum efnum er margfalt meiri úti á landsbyggðinni vegna þess að þar verða menn að lána. Þeir eiga engra annarra kosta völ. 95% af vinnu í sjávarplássum eru tengd sjósókn en á höfuðborgarsvæðinu eru 5% af vinnu tengd sjósókn. Vinnslu- og þjónustufyrirtækin þar fá að öllu jöfnu í mun ríkari mæli greiðslur á eðlilegum tíma og á eðlilegan hátt fyrir slíka þjónustu.
    Það segir sig sjálft að með því að fella í stórum stíl fiskvinnslufyrirtæki í landinu niður, setja þau á hausinn, þá færi á hausinn ótölulegur fjöldi fyrirtækja sem hafa verið vel rekin og hafa staðið við sitt þó svo þau hafi tekið þátt að því leytinu í þeirri áhættu sem fylgdi vinnslunni og þeim rekstri sem hún sinnir og við þær aðstæður sem hún hefur.
    Það sem er til ráða er margþætt. Það eru að mínu mati mistök embættismanna að stöðva ekki inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn. Það hljóta að vera einhvers konar embættismannasjónarmið þeirra sem vilja ekki taka tillit til aflasamdráttarins og þeirra erfiðleika sem fylgja því fyrir fiskvinnslu og útgerð og stjórnmálamenn eiga í þessu efni að höggva á hnútinn og stöðva þegar inngreiðslurnar. Það er fyrsta skref. Jafnframt þarf í kjölfarið að afgreiða lagabreytingu sem þarf á grundvelli aflasamdráttar að samþykkja til þess að útborganir geti hafist úr sjóðnum. Útborgun ætti að hefjast þegar í ársbyrjun 1992, en innstæða Verðjöfnunarsjóðs nálgast nú 3 milljarða kr. Það er mikill peningur í erfiðri stöðu tuga fyrirtækja í landinu þar sem þau eiga bundið fé sem mundi koma þeim verulega að notum við þær aðstæður sem nú ríkja. Þau uppsöfnuðu vandamál sem við blasa og menn verða að horfast í augu við, hvort sem þeim líkar betur eða verr.
    Þá þarf að marka stefnu og framkvæma skuldbreytingar í Atvinnutryggingarsjóði, í bönkum og einnig og ekki síður í Byggðasjóði og Fiskveiðasjóði, minna dugar ekki og aðgerðir verða að vera samræmdar og í takt. Það er gjarnan talað um að skuldbreytingar

þurfi að eiga sér stað í einhverjum af þessum stofnunum og þá sérstaklega Atvinnutryggingarsjóði. Það er ekki nóg, það verður að taka á þessu í heild og menn verða að hugsa til enda við þá afgreiðslu.
    Það þarf jafnframt að taka til endurskoðunar skatta og gjöld sem aðilar í sjávarútvegi greiða því að það er ekki eitt heldur allt sem segja má að hafi þrengt svigrúm fiskvinnslu og útgerðar um nokkurra ára skeið. Hvort sem nefnd eru bryggjugjöld, hafnargjöld, orkugjöld, fasteignagjöld, aðstöðugjöld o.s.frv. Öll þessi dæmi þarf að taka upp og skoða. Á sama tíma er það svo sem ekkert undarlegt að mönnum detti í hug að setja auðlindaskatt á útgerðina en rökin eru einhvers staðar á sveimi úti í óravíddum alheimsins enda gjörsamlega út í hött að ætla sér í stöðu mála að setja aukaskatt á útgerðina, á landsbyggðina, á fólkið sem vinnur við grunnatvinnuveginn við verstu aðstæður allra vinnandi manna í íslensku þjóðfélagi.
    Ef það er eitthvert svigrúm til aukinnar skattheimtu, og það verður vonandi sem fyrst, er það skýlaus krafa að það fjármagn fari til þess að bæta hag fiskvinnslufólksins. Það er þar sem á brennur fyrst og fremst. Hag þeirra sem mest leggja á sig við framleiðslusköpun landsmanna en bera sannarlega minnst úr býtum. Það verður að horfa yfir sviðið allt og taka á málum í réttri röð. Lagfæring á fiskveiðistjórnuninni er verkefni næsta árs og það er mikið verkefni en í dag blasa fyrrgreind verkefni við. Verkefni sem kalla á ákveðnar og djarfar aðgerðir, aðgerðir sem smúla dekkið og skapa nýja möguleika. Byggðastefna liðinna ára brást. Hún er ónýt og það er allt rétt í þeim efnum sem Davíð Oddsson forsrh. hefur sagt í þeim efnum. Byggðastefnan er ónýt. Nátttröllin í íslenskum stjórnmálaheimi verða að víkja um sinn. Við verðum að heimta árangur en ekki staðnað hjólfar. Stóra málið fyrir afkomu fiskvinnslunnar, reksturs í landinu og heimilanna er að það takist með raunhæfum aðgerðum að lækka raunvexti varanlega. Þar mun mestu muna sem ræður giftu og gengi íslensks samfélags á næstunni. Allt annað verður að víkja. Dráttarvaxtafarganið er valdbeiting og fjármagnstilfærsla sem koma verður fyrir kattanef enda þekkist ekki slík okurstarfsemi hjá heiðvirðum bönkum í nálægum löndum sem við viljum miða okkur við. Við eigum að búa hér við svipaðar aðstæður og við viljum hafa og höfum til viðmiðunar gagnvart öðrum löndum sem við miðum okkur æði oft við þannig að ekki á að vera neitt bil þar á milli í vinnubrögðum. Vaxtalækkunin hlýtur hins vegar í þessari stöðu að vera höfuðviðfangsefnið með samræmdum aðgerðum og ef ríkisfjármálin fara út um víðan völl þá er auðvitað hætt við að allar tilraunir til lækkunar vaxta fari út um þúfur. En mergurinn málsins er sá að 20--30 byggðarlög landsins eru í verulegri hættu í dag vegna hrikalegrar stöðu atvinnufyrirtækja. Sumir vilja láta blóð renna og skirrast ekki við að nota stór orð, en markmiðið getur aldrei verið það að koma mönnum á kaldan klaka. Markmiðið hlýtur að vera það að takast á við vandann, smíða nýja möguleika, smíða nýjan grundvöll sem er raunhæfur og leiðir til árangurs. Því að auðvitað hljótum við að vera sammála um það, hv. alþm., að ef við höfum rænu á að stjórna okkur sjálf af skynsemi og á þann hátt að landsmenn sitji við sama borð í öllum grundvallaratriðum eigum við möguleika inn í bjarta framtíð í hverju fótmáli. Þessi atriði sem ég hef hér vikið að koma beint og óbeint við framgang málsins sem hér er til umræðu, Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, og undirstrika aðeins mikilvægi málsins en benda jafnframt á það að að mörgu er að hyggja.