Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 14:16:00 (1448)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Af því að ég tel að þessari umræðu sé nú að ljúka, þá langar mig til að beina spurningu til hæstv. sjútvrh. og biðja hann að útskýra fyrir okkur hér í þinginu hvernig sala þessara veiðiheimilda eigi að fara fram með tilliti til þess að það er gert ráð fyrir því --- er ekki sjútvrh. hér staddur eða . . . ( Forseti: Jú, jú. Hann er í hliðarherbergi.) --- að tekjur af þessari sölu séu yfir 500 millj. kr. en fiskveiðiárið hefst ekki fyrr en 1. sept. Er það virkilega hugmyndin að það eigi að selja þessar veiðiheimildir á einu bretti 1. sept.? Með hvaða hætti á þá að standa að því eða reikna menn kannski með því að setja útgerðarmönnum þann kost einan að kaupa þessar veiðiheimildir strax í upphafi fiskveiðiársins? Með öðrum orðum: Hvernig er hugsað að staðið verði að sölunni á þessum veiðiheimildum með tilliti til þess að gert er ráð fyrir því að allar tekjur komi inn á því fjárhagsári sem menn eru að tala hér um?