Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 14:17:00 (1449)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og skal ekki lengja hana. Hér hefur verið vikið að nokkrum atriðum, m.a. þeirri fjáröflun sem stefnt er að til þess að standa undir kostnaði við verulegan hluta af rekstri Hafrannsóknastofnunar. Menn deila um það hvort hér sé um að ræða skattheimtu eða ekki skattheimtu, auðlindaskatt eða ekki auðlindaskatt, nýja skattheimtu eða ekki nýja skattheimtu. Kjarni þessa máls er hins vegar mjög augljós. Þegar þessi lög voru samþykkt á sínum tíma voru teknar ákvarðanir um að taka þessar aflaheimildir frá sjávarútveginum og selja þær aftur samkvæmt gildandi lagareglum og frá þeim er hvergi vikið í þessu efni. Hér er þess vegna ekki á ferðinni nein ný tilraun til þess að koma á auðlindaskatti eða nýjum skatti. Frá hinu geta menn ekki litið að líta má á þá ákvörðun sem tekin var á sínum tíma sem skatt á sjávarútveginn. En þetta frv. mælir ekki fyrir nýrri skattheimtu í þessu efni heldur annarri ráðstöfun á þeim fjármunum sem þannig falla til. Um þetta þurfa menn vitaskuld ekki að deila og þarf ekki að setja á langar ræður þar um.
    Hér hefur einnig verið vikið að því hlutverki Hagræðingarsjóðs að koma til móts við einstakar byggðir þegar sérstaklega stendur á með því að framselja aflaheimildir til þeirra eða einstakra skipa í viðkomandi byggðarlögum. Ég hef á það bent, og reyndar hefur það komið fram hjá ýmsum öðrum, einkum hagsmunaaðilum þegar þetta frv. var til umræðu á sínum tíma, að ákvæði laganna um þetta efni væru þess eðlis að ekki væri líklegt að í því fælist veruleg aðstoð við byggðirnar. Hér er aðeins um að ræða hluta af þeim aflaheimildum sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar. Gera verður ráð fyrir því sem meginreglu að viðkomandi byggðarlög greiði fullt gangverð fyrir. Aðeins í undantekningartilvikum gæti það komið til álita að veita þessar heimildir endurgjaldslaust. En kjarni málsins er sá að hér er alltaf um tímabundna ráðstöfun að ræða og ég hygg að í ýmsum tilvikum yrði býsna erfitt að taka slíkar heimildir til baka og þá væru stjórnvöld komin í þá aðstöðu að vera sjálf að kippa fótunum undan rekstri í viðkomandi byggðarlögum. Ég hygg að hv. 1. þm. Austurl. hafi einmitt í sinni ræðu bent á að þarna eru erfiðleikar varðandi framkvæmdina.
    Vegna þess sem hér hefur komið fram í þessari umræðu og enn fremur vegna samtala sem ég hef átt við formann hv. sjútvn., hv. 1. þm. Vestf., sem lýst hefur vissum áhyggjum vegna þess að gert er ráð fyrir að þessi atriði falli út, þá vil ég taka það fram að slíkur forkaupsréttur af hálfu byggðarlaga sem þannig er ástatt um gæti frá mínum bæjardyrum séð verið áfram þáttur í þessari löggjöf þrátt fyrir þessar breytingar. Eðli máls samkvæmt, miðað við að hér er ákvörðun um að nýta þessa fjármuni til þess að kosta rekstur Hafrannsóknastofnunar, þá getur ekki verið um það að ræða að veita slíkar heimildir endurgjaldslaust, en það breytir ekki markmiði þessa frv. þó að forkaupsréttur þeirra sveitarfélaga sem þannig kann að vera ástatt um mundi haldast. Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að ég held að hér sé um að ræða afar takmarkaða aðstoð við þessi byggðarlög og það kunni að vera mjög erfitt að aðstoða þau með þessum hætti, ekki síst vegna þess að hér er ekki um neina varanlega lausn að ræða. Í engum tilvikum getur aðstoð í þessu formi falið í sér nokkra varanlega lausn en vel má hugsa sér þegar nefndin tekur þetta mál til umfjöllunar að taka forkaupsrétt slíkra byggðarlaga inn á nýjan leik, hugsanlega á þann veg að fyrir liggi mat Byggðastofnunar hvaða sveitarfélög það gætu verið í hverju tilfelli sem ættu slíkan forkaupsrétt og þá um leið hvaða sveitarfélög yrðu að skila slíkum rétti að nýju eftir því sem kerfið heldur áfram ár eftir ár. Þetta þykir mér ekkert óeðlilegt að nefndin taki til athugunar.
    Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það verði tekið til athugunar í nefndinni að sjóðurinn fái lántökuheimildir eins og hv. 17. þm. Reykv. vék hér að í þeim tilgangi að taka á tímabundnum úreldingarverkefnum ef þau yrðu stærri í sniðum en eigið fé og sérstök tekjuöflun af rúmlestagjaldi gefur svigrúm til á hverjum tíma. Aðalatriðið er það að meginmarkmið frv. nái fram að ganga.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að því hvernig þessu væri háttað hjá öðrum atvinnugreinum. Ef litið er á svið iðnaðar- og orkumála eru þar fyrir hendi rannsóknastofnanir af svipuðu tagi og á sviði sjávarútvegsins. Iðntæknistofnun og Rannsóknatofnun fiskiðnaðarins eru að sumu leyti hliðstæðar stofnanir á þessum tveimur sviðum atvinnulífsins og sértekjur þessara stofnana eru nú með áþekku móti. Ég þori ekki að fullyrða að þær séu nákvæmlega hlutfallslega eins en þær eru uppbyggðar með áþekkum hætti. Orkustofnun er sú stofnun á sviði iðnaðar- og orkumála þar sem verið er að fjalla um grundvallarrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er lúta að viðfangsefnum á því sviði, auðlindanýtingu. Þar er í fjárlögum gert ráð fyrir sértekjum, að vísu ekki að þessu sinni jafnháu hlutfalli og að því er varðar Hafrannsóknastofnun, en ég efast ekki um að hæstv. viðskrh. hefur fullan metnað til þess að tryggja Orkustofnun sértekjur í jafnháu hlutfalli eins og nú er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun fái. Þannig verði hér nokkrun veginn sama skipan að því er varðar tekjuöflun. Hún er það í verulegum atriðum en hér er gert ráð fyrir því að fjáröflun til Hafrannsóknastofnunar, sem að þessu leyti er hliðstæð Orkustofnun á sjávarútvegssviðinu, sé hlutfallslega meiri en til Orkustofnunar. Ég geri ráð fyrir því að á næsta ári verði undirbúið að sértekjur Orkustofnunar verði hlutfallslega meiri en þær eru í dag.
    Það gangverð sem við er miðað við gerð fjárlaganna eru einfaldlega upplýsingar um markaðsverð að undanförnu á tímabundnum aflaheimildum og þess vegna engin ástæða til að ætla, ef það helst í því horfi sem verið hefur, að þessar fjárhagslegu forsendur standist ekki.
    Frú forseti. Ég vil enn á ný ítreka þakklæti mitt til hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og vænti þess að frv. fái vandaða og skjóta meðferð í hv. sjútvn.