Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:09:00 (1454)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Frv. sem hér er flutt er nokkuð í tengslum við það sem hér var til umræðu fyrir helgina um breytingar á lögum um Seðlabankann sem var rætt nokkuð ítarlega. Ég tel því að þetta gefi ekki tilefni til langrar umræðu. Hins vegar tel ég að fyllsta ástæða sé til að við förum varlega. Ég get tekið undir þau ummæli hv. 4. þm. Norðurl. e. áðan að ástæða er til að horfa til þess hvernig til hefur tekist við breytingar á fjármagnsmarkaðnum til að opna hann. Ég tek það skýrt fram að að mínu áliti var það eðlileg þróun að menn fikruðu sig áfram og opnuðu hér fjármagnsmarkaðinn, leituðu eftir grundvelli til að vextir gætu myndast eftir markaðsaðstæðum. Reynslan í því máli kennir okkur hins vegar að þetta var miklu lengri og snúnari leið en menn hugðu. Ég vil í það minnsta ekki ætla mönnum annað en menn hugðu í upphafi og ég tel reyndar að eins sé varðandi þau mál sem hér eru til umræðu.
    Það sem ég sé jákvætt í þeim breytingum sem hér eru boðaðar er að menn geta í rólegheitunum þróað hér gjaldeyrismarkað sem yrði í þá átt að gjaldeyrisskráningin á hverjum tíma tæki mið af framleiðsluatvinnuvegunum, af þörfum útflutningsatvinnuveganna. Því miður sýnist manni þessu vera öfugt farið ef litið er yfir þróun undanfarinna áratuga. Þá hafi sú gengisstefna sem hér hefur verið fylgt oftar en hitt, og á lengri tímum, verið þannig að hún hefur tekið meira mið af neyslunni og innflutningnum heldur en því að færa útflutningnum eðlilegan skerf af verðmætasköpun sinni.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, leggja á það áherslu að hér er um að ræða stórt mál sem ég held að hljóti að gefa tilefni til þess að efh.- og viðskn. leggi verulega vinnu í það að kynna sér bakgrunn málsins, hugmyndir Seðlabanka og viðskrh. um hvernig þeir beiti þeim heimildum sem þarna eru gefnar og að efh.- og viðskn. móti í meðferð málsins nokkuð fastmótaðar línur hvað það snertir. Það fari þannig ekkert á milli mála við lestur þingtíðinda hver hafi verið vilji Alþingis.
    Virðulegi forseti. Ég reyndar gef mér það að hér sé um að ræða mál sem sé þess eðlis að um það eigi að vera hægt að ná nokkuð víðtækri samstöðu á Alþingi ef viðhöfð verða þau vinnubrögð sem ég nefndi.
    Í mínum huga hefur veikasti hlekkurinn í þessum tveim frumvörpum, og það á kannski sérstaklega við í þeim fylgiskjölum sem við höfum fengið og það sem hefur komið fram í ræðum hæstv. viðskrh. bæði innan þings og einkum utan þings, verið þetta daður við tengingu við ECU sem ég hef ekki fengið nein rök fyrir enn þá að sé nauðsynleg, hvað þá til heilla. Utanríkisviðskipti okkar tengjast svo miklu fleiri aðilum en evrópska markaðssvæðinu að ég held að það hljóti að vera verulegar hættur því samfara að fara að setja viðmiðunarkörfuna fasta við Evrópugjaldmiðlana eingöngu. Vel má vera, eins og hér hefur komið fram bæði í þeim gögnum sem dreift hefur verið með frv. og víðar, að þar

sé um að ræða pólitískt spursmál, þar séu menn að fylgja eftir hugsanlegum samningum um Evrópskt efnahagssvæði og þetta sé svona pólitískur punktur yfir það i. Ekki vil ég samt gera því skóna frekar hér. Það væri samt mjög æskilegt ef hæstv. iðnrh. mundi í svarræðu sinni víkja aðeins að því hvað menn eigi við með þeim pólitísku markmiðum sem um er að ræða með tengingunni við ECU.