Þorskeldi

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:24:00 (1457)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 85 flyt ég till. til þál. um þorskeldi. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun að láta hefja tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl til eflingar þorskstofninum við Ísland.``
    Það þarf varla að segja hv. alþm. að þorskurinn er mikilvægasta auðlind Íslendinga, a.m.k. eins og atvinnulífi okkar er háttað í dag. Hlutur þorskafurða er um 35% af heildarútflutningi þjóðarinnar. Vöxtur og viðgangur þorskstofnsins ræður því algerum úrslitum um afkomu þjóðarinnar á komandi árum. Nú er það dapurleg staðreynd að þorskstofninn fer minnkandi. Ég held að þegar þjóðin verður fyrir miklum tekjusamdrætti af völdum minnkandi þorskveiði og horfur eru frekar skuggalegar hvað varðar viðgang þorskstofnsins, þá hljóti það að vera tímabært að verulegu fé sé varið til þess að reyna að

styrkja þorskstofninn við strendur landsins.
    Rétt er að geta þess að þetta mál hefur oft áður komið til tals og fyrir nokkrum árum hugleiddu menn hvort ekki væri tímabært að hefjast handa um þorskeldi hér á landi. Ég minnist þess, og það kom reyndar fram í þskj. um eldi sjávardýra við þáltill. sem ég stóð að fyrir átta árum, að í kjölfar ráðstefnu í Noregi sem þá var haldin um þessi mál var ekki talið tímabært að hefja eldi þorskseiða að svo stöddu einfaldlega vegna þess að tæknin virtist ekki enn vera fengin til að þetta gæti tekist. Það virðist hins vegar ljóst af fréttum sem berast af rannsóknum frá nálægum löndum að núna er fyllilega tímabært að hefja þessar rannsóknir hér á landi og því er þessi tillaga flutt.
    Í Noregi hafa rannsóknir á þorskeldi verið í fullum gangi og það er enginn vafi á því að tækninni og þekkingunni á þessu sviði fleygir mjög ört fram. Vissulega er nokkuð ljóst að býsna mikið þarf til að hægt sé að hjálpa náttúrunni svo um munar við ræktun fiskstofna. Það þarf gífurlegt magn seiða. Reiknað er með að í hverjum þorskárgangi kunni að jafnaði að vera um 200 millj. fiska og þeir vaxa upp af einum milljarði seiða. En til samanburðar er rétt að nefna að hér mun vera sleppt árlega um 10 millj. laxaseiða til hafbeitar. Það er því ljóst að til að ná árangri af seiðaeldi í mjög stórum stíl þarf mikið til. En það gæti margborgað sig ef vel tækist til.
    Það eru ekki aðeins Norðmenn sem hafa sýnt rannsóknum á þorskklaki áhuga. Segja má að á Norðurlöndunum almennt sé mikill áhugi á þessu máli og fram hefur komið í fréttum að í Danmörku hafa samtök útgerðarmanna staðið að framleiðslu á þorskseiðum og áformað að sleppa miklum fjölda seiða við strendur Danmerkur núna á næstu árum. Á vegum Norðurlandaráðs hefur líka verið unnið að sameiginlegum rannsóknaáætlunum sem miða að stórauknum áætlunum á hafbeitarþorski. Eitt stærsta rannsóknarverkefnið verður á Færeyjabankanum en þar hefur þorskstofninn nær horfið og er mikill áhugi fyrir því að hann verði byggður upp einmitt á þann hátt að sleppa seiðum.
    Þekking á hrygningu og klaki þorsks hér við land ásamt öðrum þeim þáttum sem hafa áhrif á afkomu þorsklirfa er vissulega ekki nægilega mikil enn sem komið er. En einmitt þess vegna og í beinu framhaldi af þeim tilraunum sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum á þessu sviði hlýtur að vera tímabært að Íslendingar hefji svipaðar rannsóknir hér á landi af fullum krafti.
    Fyrstu skrefin í þessa átt hafa þegar verið stigin. Í sumar var t.d. hrygningarfiski safnað og honum komið fyrir í tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar og í vetur er fyrirhugað að kreista fiskinn og frjóvga hrognin og gera tilraunir með klak og kviðpokalirfur. Mér skilst að hugmyndin sé sú að það þurfi að leita samhengis milli stærðar hrygna og hrygningartíma annars vegar og stærðar hrogna og lirfa hins vegar og rannsaka hvort lífslíkur lirfa eru að einhverju leyti háðar stærð þeirra.
    Að sjálfsögðu liggur í augum uppi að Hafrannsóknastofnun mun eiga samstarf um þetta rannsóknarverkefni við ýmsa aðila og stofnanir og það er sérstök ástæða til að nefna bæði Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og fyrirtæki eins og Fiskeldi Eyjafjarðar sem hefur fengist mikið við þessi mál allra seinustu árin.
    Auðvitað er það kjarninn í þessari tillögu að Alþingi lýsi vilja sínum til að Hafrannsóknastofnun fái bætta aðstöðu til að koma þessum rannsóknum á þorskeldi í fullan gang sem fyrst. Það er ekki verið að fitja upp á einhverju sem þeim í Hafrannsóknastofnun hefur ekki dottið í hug nú þegar. Að sjálfsögðu eru þeir á vaktinni hvað þetta mál varðar en þá vantar algerlega þá fjármuni sem til þarf til að hrinda þessum rannsóknum á fullan skrið og er kannski rétt að geta þess í þessu samhengi að Hafrannsóknastofnun hefur einmitt farið fram á það við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1992 að stofnunin fái 63 millj. til rannsókna á eldi sjávardýra.

    Ekki er nokkur minnsti vafi á því að fiskeldi fer mjög vaxandi bæði hér á landi og um allan heim. Samkvæmt langtímaspám FAO er talið að innan 30 ára verði eldi vatna- og sjávarfiska helmingur af heildarveiði í heiminum. Neysla sjávarfangs fer mjög ört vaxandi eins og kunnugt er. Neyslan hefur aukist um 2,5% á ári að undanförnu og því er spáð að aukningin muni nema 3% á næstu árum sem þýðir að neyslan tvöfaldast á aðeins 25 árum. Hérna er að sjálfsögðu ekki aðeins um að ræða seiðaeldi, það er ekki síður um að ræða seiðaeldi til þess að aðstoða náttúruna, heldur er líka um að ræða hafbeit og svo hreint matfiskeldi.
    Ég vil líka taka fram að vissulega er fyllsta ástæða til þess að auka mjög rannsóknir á öðrum botnfisktegundum en þorski og þorskur er hér í þessari tillögu eingöngu nefndur vegna þess að hann er langmikilvægasta fisktegund Íslendinga. En að sjálfsögðu eru möguleikarnir fjöldamargir aðrir og er kannski nóg að nefna hér sem dæmi að lúðueldi þykir lofa mjög góðu. Tilraunir hafa verið hjá Fiskeldi Eyjafjarðar undanfarin þrjú ár með lúðueldið. Fyrsta árið munu öll seiðin hafa drepist. Næsta árið lifðu tvö seiði en á þessu ári hafa lifað fimm þúsund seiði. Fimm þúsund seiði hafa lifað af þá erfiðu myndbreytingu sem á sér stað þegar lirfan breytist í seiði. En til samanburðar má geta þess að Norðmenn eru komnir það miklu lengra á veg, t.d. hvað varðar lúðueldi, að þeir munu framleiða um 150 þúsund seiði á þessu ári.
    Ekki þarf að orðlengja um laxeldi og silungseldi svo kunnugt sem það er öllum alþingismönnum en það er rétt að nefna hér að hlýri og steinbítur henta mjög vel til eldis og einnig eru miklir möguleikar á eldi heitsjávartegunda. Þar koma margar tegundir til greina, m.a. vartari og gullbraka. Ég hef séð áætlanir um eldi heitsjávartegunda og verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að þar séu á ferðinni mjög álitleg áform og væri sjálfsagt að ríkisvaldið reyndi að styðja við bakið á þeim mönnum sem eru að reyna að feta fyrstu skrefin á þeirri braut.
    Virðulegi forseti. Tími minn er senn á þrotum. Ég held að ég hafi fært hér nægileg rök fyrir þeirri staðhæfingu minni að brýna nauðsyn ber til þess að veita þeim vísindamönnum stóraukinn stuðning sem eru að reyna að ryðja nýjar brautir á þessu sviði. Við höfum verið allt of sparsöm hvað varðar fjárveitingar í þessu skyni og eins og ég hef þegar sagt er að sjálfsögðu megintilgangur þessarar tillögu að Alþingi lýsi þeim vilja sínum að veitt sé nægilegt fjármagn og komið upp myndarlegri aðstöðu til að koma þessum rannsóknum í fullan gang.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. sjútvn.