Þorskeldi

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:48:00 (1460)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og Össuri Skarphéðinssyni fyrir góðar undirtektir við þetta þingmál og ágætar ábendingar. Ég vil vegna orða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fá að leggja áherslu á það að tillagan fjallar ekki um seiðaeldi í stórum stíl heldur um tilraunir í stórum stíl. Þessi orð ,,í stórum stíl`` eru auðvitað fyrst og fremst ábending um að það þurfi að verða meiri kraftur í tilraunastarfseminni en auðvitað mundum við ekki fara að hefja framleiðslu seiða í stórum stíl fyrr en við hefðum náð einhverjum öruggum tökum á framleiðsluaðferðinni.
    Vegna orða hans um það að kannski væri brýnast í þessu máli að safna rannsóknaniðurstöðum frá erlendum vísindamönnum og erlendum háskólum, þá er það vafalaust alveg rétt hjá honum. En þó hygg ég að þeir vísindamenn sem að þessu vinna séu þeirrar skoðunar að íslenskar aðstæður séu sérstaks eðlis og að ekki sé hægt að flytja inn erlendar vísindaniðurstöður ómeltar heldur verði að rannsaka hlutina hér heima. Í nýlegri skýrslu sem Hafrannsóknastofnun hefur gert einmitt um eldi sjávardýra er aðeins vikið að þessu í nokkrum orðum, og ég vil leyfa mér að ljúka umræðunni með því að vitna til þessara orða því að þau segja eiginlega það sem segja þarf um þetta efni. Þar er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Þótt margt megi læra af rannsóknum nágrannalandanna þá verða aðferðir ekki fluttar óbreyttar á milli landa. Hafbeit og eldi á þorski við Ísland verður að byggja á íslenskum rannsóknum og á fiski sem er aðlagaður íslenskum aðstæðum.``