Starfsmenntun í atvinnulífinu

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:51:00 (1461)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ein af þeim leiðum sem stjórnvöld vinnumarkaðsmála í nálægum löndum hafa lagt mesta áherslu á á undanförnum árum og munu leggja enn meiri áherslu á í framtíðinni eru aðferðir til þess að auka starfsmenntun í atvinnulífinu. Um er að ræða bæði grunnmenntun og menntun þeirra sem þegar eru komnir út á vinnumarkaðinn. Í flestum nálægum löndum bera stjórnvöld menntamála ábyrgð á fyrrnefnda hópnum en stjórnvöld vinnumarkaðsmála á þeim síðari.
    Á fundi vinnumálaráðherra Evrópuríkja sem ég sótti fyrir tveimur árum var megináherslan lögð á starfsmenntun í atvinnulífinu. Mjög mikil áhersla er lögð á starfsmenntun til að leysa vandamál þeirra sem hafa átt við atvinnuleysi að stríða um langt skeið. Hún er talin nauðsynleg með tilliti til grundvallarbreytingar sem er að verða á framleiðslustarfsemi. Starfsmenntun er yfirleitt kostuð bæði af ríkisvaldi og aðilum vinnumarkaðarins. Ljóst

er að starfsmenntun er í boði í öllum löndum Evrópuráðsins og að verulegu fjármagni er ráðstafað í vinnumarkaðsaðgerðir. Aukin starfsmenntun er því víðast hvar forgangsverkefni til þess að draga úr atvinnuleysi. Í þeim löndum er lögð mikil vinna í stefnumótun í vinnumálum þar sem fjallað er um fjölmarga þætti, svo sem starfsemi vinnumiðlunar, atvinnuleysi og atvinnuleysisbætur, þróun atvinnulífsins og mannaflaþörf í einstökum greinum, ný tækni og hæfni fólks á vinnumarkaði.
    Það frv. sem ég mæli hér fyrir er nú flutt í þriðja sinn og það á sér því orðið nokkuð langa sögu á þinginu. En að samningu frv. hafa komið aðilar vinnumarkaðarins. Helstu atriði frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu eru eftirfarandi:
    Í frv. er ítarlega kveðið á um markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu sem er m.a. að stuðla að aukinni framleiðni, greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi, enn fremur að bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum.
    Markmiðum laganna skal m.a. náð með stuðningi við skipulega starfsfræðslu og með frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Kveðið er á um skipan í stjórnkerfinu og lagt til að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félmrn. sem ráðuneyti vinnumála.
    Tillaga er gerð um skipan starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til starfsmenntunar og skuli vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar. Í starfsmenntaráði eiga sæti sjö fulltrúar; þrír fulltrúar samtaka launafólks og þrír fulltrúar samtaka atvinnurekenda. Félmrh. skipi einn fulltrúa án tilnefningar.
    Tillaga er um að félmrn. safni upplýsingum um starfsmenntun og miðli þeim til hlutaðeigandi aðila. Með því verði stuðlað að betri nýtingu þess fjármagns sem nú er varið til starfsmenntunar á vinnumarkaði og komið í veg fyrir tvíverknað.
    Aðilum, sem fá stuðning samkvæmt lögunum, verði skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á.
    Framlög hins opinbera til starfsmenntunar í atvinnulífinu verði ákveðin árlega á fjárlögum samkvæmt tillögum félmrh. og renni í ákveðinn sjóð. Það verður því fjárveitingavaldsins að ákveða framlög hins opinbera til starfsmenntunar.
    Af frv. er ljóst að ekki er stefnt að uppbyggingu sjálfstæðs starfsmenntakerfis að erlendri fyrirmynd. Þvert á móti er stefnt að fyrirkomulagi sem tekur mið af íslenskum aðstæðum. Í þessu felst að ekki er gert ráð fyrir frumkvæði félmrn. að starfsmenntun né framkvæmd af þess hálfu. Fyrst og fremst er um að ræða rammalöggjöf sem undirstrikar skyldu stjórnvalda til að örva starfsmenntun í atvinnulífinu. Hugmyndin er sú að byggt verði sem mest á því frumkvæði sem ýmsir aðilar hafa tekið á þessu sviði á undanförnum árum. Benda má á starfsvörslumenn fiskvinnslunnar og ýmsar aðrar sameiginlegar starfsmenntunarnefndir atvinnurekenda og launafólks. Afskipti ráðuneytisins felst í skipan starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til framangreindra aðila sem verði í raun ábyrgir fyrir framkvæmdinni. Þeir geti valið um það hvort þeir kjósa að standa sjálfir fyrir starfsmenntuninni eða leita til annarra aðila, t.d. skóla eða annarra stofnana sem sérhæfa sig í fræðslustarfsemi.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að starfsmenntaráð verði stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun á þessu sviði. Í því felst að starfsmenntaráð verði að fylgjast náið með þróuninni á vinnumarkaðnum og í atvinnulífinu. Á grundvelli þess sem þar er að gerast gerir starfsmenntaráð tillögur um forgangsverkefni og nauðsynlegt fjármagn til framkvæmda. Það verður síðan á valdi Alþingis að taka afstöðu til fjárveitinga málaflokksins.
    Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að með því fæst yfirlit yfir það sem er að gerast í starfsmenntunarmálum. Eins og áður hefur komið fram eru margir aðilar að fást

við þessa hluti og samstarf og samráð eru í lágmarki. Oft hendir það að fleiri aðilar eru að vinna sama verkið, t.d. að semja sama námsefni með stuðningi opinberra aðila. Með skipun starfsmenntaráðs er stefnt að því að heildaryfirsýn fáist yfir þetta svið þannig að stuðlað sé að betri nýtingu fjármagns.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að hafa um þetta mál fleiri orð, enda hefur þetta áður verið rætt á hv. Alþingi og ég legg til að frv. verði vísað til hv. félmn. að lokinni umræðunni.