Iðjuþjálfun misþroska barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:47:00 (1466)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Ég þakka stuttaralegt svar ráðherrans. Ég treysti því að það sé rétt að þetta hafi ekki komið til hans skoðunar, en mér er kunnugt um að þetta mál er til skoðunar í Tryggingastofnun ríkisins og eftir því sem ég best veit líka inni í ráðuneytinu. Ég vil biðja hæstv. heilbr.- og trmrh. þess lengstra orða að ganga í þetta mál, skoða það og tryggja að þessi börn njóti þjálfunar. Ég held að foreldrar barnanna megi ekki til þess hugsa ef þjálfunin verður felld niður. Þetta eru börn sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeim ber í skólakerfinu og þó að það vefjist ekki fyrir okkur að hneppa tölum, reima skó, klæða okkur rétt í föt eða snúa við fötum okkar, þá eru þetta allt mál sem vefjast afskaplega mikið fyrir þessum börnum en þau geta þetta allt saman ef þau fá þjálfunina.