Íslenski menningarfulltrúinn og íslensk menningardagskrá í Lundúnum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:51:00 (1470)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Að vísu þykir mér miður að upplýst er að alls ekkert samráð hafi verið haft eða samvinna verið milli menntmrn. og utanrrn. um þetta mál. Reyndar hvarflaði það að manni þegar maður sá það litla sem hingað hefur borist heim um þessa dagskrá, að menntmrn. hefði ekki lagt þar hönd á plóginn. En það er annar handleggur.
    Ég tel að út af fyrir sig sé það hin mætasta nýbreytni að ráða menningarfulltrúa að erlendum sendiráðum og vil þeirri starfsemi allri vel, en ég óttast að það sé því miður ekki þannig að staðið eins og undirbúið var í tíð fyrri ríkisstjórnar, að það sé ekki síður gert af hálfu menntmrn. en utanrrn. að undirbyggja þá starfsemi. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. hvort von sé á fleiri slíkum ráðningum og framhaldi á þessu starfi í þeim anda sem hin fyrstu spor marka.