Íslenski menningarfulltrúinn og íslensk menningardagskrá í Lundúnum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:52:00 (1471)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Það er ekki von á því að fleiri verði ráðnir til að gegna störfum menningarfulltrúa að svo stöddu eða þar til reynsla er komin á starf þess sem nú gegnir því starfi í London. Þetta er vissulega skylt starfi markaðsfulltrúa sem starfa nú við sendiráð á tveimur stöðum í samráði við útflutningsráð. Munurinn er fyrst og fremst sá að hér er verið að reyna að koma á framfæri og markaðssetja afurðir sem við kennum við menningu og er að miklu leyti framleidd sem niðurgreidd og ríkisstyrkt framleiðsla. Hér á ég við hluti eins og hljómplötuútgáfu, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, fyrir utan að koma á framfæri bókmenntum, listasýningum, þ.e. þeim menningarafurðum sem íslenskir listamenn eru að framleiða en hafa kvartað sáran undan að á það hafi skort að þeir gætu komið þeim á framfæri við stærri markaði.
    Þess má geta að í sumum greinum er um að ræða mikil verðmæti og ef hægt væri að koma þeim í verð, ef hægt væri að koma íslenskum listamönnum á framfæri á stærri markaði, er það ekki bara mikið hagsmunamál þeim sjálfum heldur, út frá þjóðhagslegu sjónarmiði, þjóðinni allri. Það er því ástæða til að gera þessa tilraun og í ljósi hennar að kanna það hvort við gætum ekki gert betur. Þess má geta að flestöll grannlönd okkar leggja sig miklu meira fram um þetta. Þannig hefur t.d. finnska utanríkisráðuneytið sérstaka áætlun í þessu efni. Þýska ríkisstjórnin t.d. og þýska utanríkisráðuneytið sinnir þessum verkefnum af miklum krafti og hin einstöku sambandsfylki innan þýska sambandsríkisins gera það sömuleiðis.
    Það er ástæða til --- ef menn vilja hafa misráðnar fjölmiðlafrásagnir af þessu máli í flimtingum, þá held ég að menn ættu að bíða með fordóma sína þangað til þeir hafa séð þetta. En ég endurtek að menningarhátíðin í London sem slík var afar skemmtileg og

áhugaverð og þess má geta að samkvæmt frásögnum þarlendra manna hefur ekki í annan tíma verið jafnmikið fjölmenni Íslendinga saman komið á slíka hátíð. Þeir munu hafa verið á sjöunda hundrað. ( ÓÞÞ: Er ætlunin að sýna þetta hér á landi líka?) Vafalaust.