Tillögur um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:56:00 (1473)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það sem fram kom í viðtali við mig í Morgunblaðinu sl. sunnudag var að ég tel að svokallaðar efnahagsaðgerðir eigi að gera þannig að sem mestur árangur verði af þeim, að sem víðtækast samstarf og samráð verði haft um þær og að þær leiði til þess árangurs sem að er stefnt. Til þess að svo geti orðið tel ég afar mikilvægt að aðgerðirnar séu undirbúnar með samræmdum hætti og að frá þeim sé skýrt og að þeim starfað með þeim hætti sem eðlilegt er, að þær komi fram frá ríkisstjórninni í heild, þær séu sundurliðaðar og tímasettar og ljóst frá upphafi að þeim sé ætlað að ná þeim árangri sem er stefnt. Það er það sem kom fram í þessu viðtali og ég held að engum dyljist nauðsyn þess að svona sé að verki staðið.
    Það var spurt um það hvenær tillögurnar yrðu birtar og hvenær þær yrðu tímabærar. Tillögurnar verða birtar þegar þær eru tilbúnar og þá kemur --- ( Gripið fram í: Af hverju verða þær ekki birtar fyrr?) Það er eðlilegt að það sé kallað fram í: Vegna þess að fsp. þingmanns framsóknarmanna gaf tilefni til þessa svars. Auðvitað verða tillögurnar ekki birtar fyrr en þær eru tilbúnar og þær eru ekki tilbúnar. Það er verið að safna saman efnivið í þessar tillögur. Þar á meðal er efniviðurinn sá sem fram hefur komið frá hæstv. sjútvrh. Hópur sérfræðinga hefur starfað að þessum málum og frá tillögunum verður skýrt í fyllingu tímans.