Leyfisveitingar til leiguflugs

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:05:00 (1477)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Af einhverjum ástæðum er hv. þm. hræddur um að stór fyrirtæki reyni að hafa áhrif á eðlilega samkeppni með pólitískum þrýstingi en það er nú ekki svo í þessu máli að neinn hafi reynt það. Sannleikurinn er sá að það var nauðsynlegt að taka þær reglur, sem gilda um leiguflug, til endurskoðunar og jafnframt að athuga hvort eðlilegir viðskiptahættir tíðkuðust í sambandi við þau tilboð sem Íslendingum eru gerð, bæði varðandi flug og ýmislegt annað á erlendum vettvangi. Breytingin er einfaldlega sú að ég hef óskað eftir því að fá að fylgjast með nú um hríð hvaða ásókn sé í leiguflug en umsagnaraðili er sá sami og áður.
    Á hinn bóginn hef ég átt fund með flugmálastjóra og verðlagsstjóra þar sem við fórum yfir tillögur um hvernig hægt sé að koma þeim reglum við að þeir, sem auglýsa ferðir til útlanda eða hér innan lands, gefi upp rétt verð um þann kostnað sem þarf að leggja fram til að geta farið í viðkomandi ferð og auðvitað líka að glögglega komi fram upp á hvað er boðið, hvaða þjónusta er innifalin og hvaða þjónusta ekki. Við höfum þar ákveðnar tillögur í huga, bæði flugmálastjóri, verðlagsstjóri og við í ráðuneytinu til athugunar og munum fara betur yfir það mál þannig að um áramót leiki ekki vafi á því hvernig beri að standa að tilboðum í ferðir. Er ég þá ekki einungis að tala um leiguflug heldur auglýsingar ferðaskrifstofa yfir höfuð og þá þjónustu sem þær veita. Ástæðan fyrir þessu er sú að ráðuneytinu hafa borist kvartanir frá fjölmörgum einstaklingum sem hafa sagt sínar farir ekki sléttar, reikningur viðkomandi aðila sem fyrir ferð stóð hafi verið hærri en auglýsingar gáfu til kynna og jafnvel þær upplýsingar sem leitað hafði verið eftir. Ég sé ekki ástæðu til að nefna einstök nöfn í þessu sambandi en ef hv. þm. vilja kynna sér þetta mál nánar hygg ég rétt að þeir snúi sér til verðlagsstjóra.