Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:48:00 (1488)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegur forseti. Mig langar til að gera stutta athugasemd í tilefni af því athyglisverða frv. sem hér er til umfjöllunar þótt ekki geti það falið í sér neina allsherjarlausn fyrir hagsmuni barna. Ég hef raunar áður tjáð mig um frv. sama efnis sem var flutt á fyrri þingum, eins og hv. 1. flm. gerði grein fyrir í máli sínu áðan. Þar var, að mig minnir, gert ráð fyrir því að umboðsmaður barna yrði hluti af framkvæmdarvaldinu og dómsmrn. og við það gerði ég athugasemd. Nú hefur því verið breytt þannig að umboðsmaður barna starfi sjálfstætt og er það til bóta að mínu mati.
    Ég hef aðeins velt því fyrir mér hvort hætta sé á því að þetta frv. komi eitthvað á skjön við ákvæði laga um vernd barna og ungmenna. Reyndar er tekið fram á bls. 7 í greinargerð með frv. að það frv. til nýrra barnaverndarlaga sem hefur áður legið fyrir hv. Alþingi en ekki var afgreitt taki enn frekar fyrir að verkefni umboðsmanns barna og barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs kynnu að skarast og að það sé vel. Ég varpa þessum athugasemdum fram til flutningsmanna. Enn fremur velti ég því fyrir mér í sambandi við 5. gr. frv. þar sem rætt er um þagnarskyldu. Þar segir m.a. í 2. mgr.:
    ,,Stjórnvöldum og stjórnendum stofnana, sem fara með málefni barna, ber skilyrðislaust að veita umboðsmanni barna upplýsingar um starfsemi sem lýtur að börnum án þess að þagnarskyldu sé krafist svo að hún hindri ekki að umboðsmaður fái sinnt skyldu sinni. Jafnframt ber umboðsmanni að veita upplýsingar um umboðsstarfið án þess að krefjast þagnarskyldu.``
    Vafalaust er þetta mikilvægt ákvæði en það er nú samt svo að í barnaverndarlögum er einmitt krafist þagnarskyldu í þeim málum sem barnaverndarnefndir fjalla um þannig að ég velti fyrir mér hvort þessi mál þurfi e.t.v. að skoða hliðstætt. En eins og hv. þm. er kunnugt um, þá hefur ekki enn komið hér fram nýtt frv. um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna.
    Að öðru leyti tel ég þessa umræðu mjög gagnlega og að sjálfsögðu mun mál þetta verða skoðað vandlega í allshn. þar sem ég á sæti. Ég vil reyndar geta þess, í tilefni af

þeirri umræðu sem fór fram áðan og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir minntist sérstaklega á, að ég er á vissan hátt sammála henni um það að í lögum sé of mikið um nokkurs konar viljayfirlýsingar eða stefnuyfirlýsingar en ákvæði kveði ekki nógu sterkt á um skyldu og rétt og vissulega þurfum við að athuga forgangsröðun mála hér á hinu háa Alþingi, ekki síst þar sem um hagsmuni barna er að ræða.