Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 15:45:00 (1496)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um fullvinnslu botnfisksafla um borð í veiðiskipum og það er margt í frv. sem ég held að flestir hv. þm. geti tekið undir. Greinilega er verið að draga úr fjölgun frystiskipa og verið er að koma á betri nýtingu afla og betra hráefni. Um það erum við sammála. Og þar með er verið að draga úr fjárfestingu. En spurningin er þessi: Af hverju eru svona margir útgerðaraðilar sem vilja fara út á sjó með vinnsluna?
    Auðvitað er til svar við því og svarið er það að frystingin í landi ber sig ekki. Bæri frystingin í landi sig væri ekki þessi mikla ásókn. Það sem þarf að gerast er að þær efnahagsaðgerðir þurfa að koma til að frystingin í landi fari að bera sig. Það er sorgleg staðreynd að þeir sem eru með mjög vel búin frystihús eru núna að sækjast eftir að fara með frystinguna út á sjó.
    Það kom fram í umræðunum áðan að auðvitað eru frystihúsin ekki rekin á sama hátt og frystitogararnir. Frystihúsin eru ekki rekin eins og verksmiðjur, vélarnar eru kannski nýttar aðeins 40 tíma á viku eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á. En þetta er líka launaspursmál og hingað til hefur ekki verið hægt að semja um það við verkalýðsforustuna að reka frystihúsin eins og verksmiðju. Það er að mörgu að hyggja og ég segi fyrir mig að meðan ekkert ber sig í útgerð nema frystiskip verður eitthvað að koma meira

til en það að draga úr ásókn í nýbreytni sem ber sig.