Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 15:52:00 (1498)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það að flytja þetta mál og ég get lýst því yfir að ég vil skoða það með jákvæðu hugarfari og leggja vinnu í að gera það sem best úr garði. Ég hef haft aðstöðu til þess að fylgjast nokkuð með gangi þessara mála þar sem ég hef átt sæti í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. vék hér að, svokallaðri aflanýtingarnefnd, sem ég tel að hafi unnið hið merkasta starf. Hún er raunar enn að störfum og með ýmis mál sem vissulega væri fróðlegt að fara hér yfir, en ég ætla ekki að gera, og eru mikils virði fyrir greinina í heild sinni. Það er kannski umhugsunarefni í þessari umræðu hversu lítið fjármagn við ætlum til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sem er einnig að vinna að hinum merkilegustu störfum. Ég held að við þyrftum samhliða því að fjalla um þetta frv. að skoða það í nefnd hvort og á hvern hátt við gætum komið auknu fjármagni til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Ég tel eitt af okkar allra brýnustu málum í

dag í sjávarútveginum vera að rannsaka og kryfja til mergjar á hvern hátt við getum fengið sem mest úr þessari afurð sem úr hafinu er dregin.
    Ég er af fleiri ástæðum áhugamaður um þetta mál því að ég hef flutt um þetta þingmál oftar en einu sinni og margrætt þetta hér í þingsölum og oft á tíðum, hefur mér fundist, við lítinn skilning hv. þm. En ég vona svo sannarlega að breyting hafi orðið á og að við höfum hér verulegan ávinning í þessu máli.
    Það kom upp hjá hv. þm. Kvennalistans sem hér talaði um kvótamál --- og það er nú svo að aldrei eru fiskveiðimál rædd hér öðruvísi en kvótamálin komi þar til umræðu og kvótanum er venjulega kennt um allt sem miður hefur farið. Þar er að mínu mati um herfilegan misskilning að ræða því ef grannt er skoðað og hlutlaust held ég að menn hljóti að viðurkenna það að kvótinn hefur leitt af sér mikla hagræðingu og ávinning í sjávarútveginum. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu lítið við megum draga úr hafinu. Og hv. þm. Kvennalistans, sem tala gjarnan um kvótann og kenna honum um, leggja alltaf til á sama tíma að kvótinn sé hafður. Kvótinn á bara að vera hjá einhverjum öðrum en það á að vera kvóti. Hvorki meira né minna en um 80% af fiskiskipaflota landsmanna eru í eigu útgerðarinnar sjálfrar, það er hvorki meira né minna en það. Mér finnst talað af lítilli þekkingu um þessi mál og ég efast um að kvótinn sé betur kominn í höndum borgarfulltrúa hér í Reykjavík eða bæjarfulltrúa hinna ýmsu stjórnmálaflokka úti á landbyggðinni en hjá þeim aðilum sem hafa með þetta að gera í dag.
    Ég ætla ekki að fara að stofna til deilna en ég er sammála því sem hv. 16. þm. Reykv. sagði að togurunum hefði verið fagnað á landsbyggðinni með lúðrablæstri árið 1974 eftir kyrrstöðuskeiðið langa, 12 ára kyrrstöðuskeið í uppbyggingu togaraflotans og hraðfrystiiðnaðarins á Íslandi eftir samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Það var ekki að ástæðulausu að menn fögnuðu þegar togararnir komu til landsins eftir algjört aðgerðarleysi þessara flokka í þeirri ríkisstjórn. Þá var togaraflotinn nánast orðinn að engu og sama var að segja um frystiiðnaðinn.
    Í þessu frv. er lagt til að hirða eigi allt sjávarfang sem inn fyrir borðstokkinn kemur. Ég er þessu sammála en við þurfum að huga vel að því hvernig að þessu verður staðið þannig að hugmyndin virki. Ég sé það fyrir mér strax hvernig við verður brugðist gagnvart þeim skipum sem nú þegar eru í smíðum í erlendum skipasmíðastöðvum því öllum er ljóst að nýjan búnað verður að setja um borð í þessi skip. Mér hafa sagt kunnugir menn sem eiga slík skip í smíðum, að verði frv. eins og við erum hér að fjalla um að lögum, þá þurfi strax að gera það upp við sig að breyta þessum skipum og stækka þau um einhverja metra. Þetta er mál sem við þurfum auðvitað að skoða og ég er ekki í neinum vafa um það að á þessu finnst auðvitað lausn eins og flestum öðrum málum. En ég er sammála því að auka nýtingu aflans og að allt sjávarfang verði hirt. Við þurfum jafnframt því að við setjum okkur það markmið að vinna að því að bæta umhirðu þess sjávarfangs sem fellur til í hinum hefðbundnu ísfisktogurum okkar. Það er sjálfsagt nokkuð meira vandamál og við höfum einnig rætt það mjög ítarlega í aflanýtingarnefnd, sem hér hefur verið vikið að, hvernig að þessu skuli staðið vegna þrengsla um borð og á hvern hátt megi koma þessu fyrir og svo hitt sem líka þarf að skoða á sama tíma, hvernig við ætlum að byggja upp aðstöðuna í landi til þess að taka við þessu sjávarfangi og auka verðmæti þess. Á þetta að vera í hverri verstöð? Á þetta að vera við hverja bryggju eða ætlum við að byggja þetta upp á einhvern annan hátt? Þetta er ekki einfalt mál og það er alveg ljóst að kalla þarf marga til. Ég mun leggja það til að margir verði kallaðir fyrir sjútvn. til þess að okkur gefist tækifæri á því að skoða þetta mál af sem mestri kostgæfni og fræðast af þeim mönnum sem mest hafa á sig lagt til þess að reyna að finna hér hina skynsamlegustu leið.
    Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að hér er um gífurleg verðmæti að ræða

sem fara fyrir borð og það er alveg vonlaus stefna að líða það að svo miklum verðmætum sé á glæ kastað eins og við höfum gert. En það er ekki einfalt mál að setja þetta í löggjöf. Við þurfum að gera mönnum það kleift fjárhagslega að koma þeim búnaði sem kröfur verða gerðar um um borð í skipin og einnig að laga uppbygginguna í landi.
    Ég ætla ekki að tala um það sem hv. 2. þm. Vesturl. vék að, vegna hvers menn sækjast eftir því að byggja og breyta hinum hefðbundnu ísfisktogurum og gera þá að frystitogurum. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði og ég tek undir hvert orð sem þar var sagt, að meginástæðan er auðvitað sú að ekki hefur verið rekstrargrundvöllur í hefðbundinni starfsemi frystingar í landi. Ég hef sagt og skal endurtaka það nú að ég tel að það sé eitt brýnasta málið í sjávarútveginum að ná það miklum hagnaði í greininni að við getum borgað hærri laun til fiskverkafólksins og við getum borgað hærra fiskverð. Ef okkur tekst ekki að koma þessum hagnaði í greinina, þá mun stefna óðfluga að því að í stórauknum mæli muni þessi afli fara óunninn úr landi og verður skammt í það að við munum verða aðeins veiðiþjóð í þessu landi og missa þannig af margfeldisáhrifum vinnslunnar. Þetta er mér áhyggjuefni. Og þetta komum við ekki í veg fyrir nema við aukum verulega hagnaðinn í sjávarútveginum. En ég ætla ekki að fara að ræða það hér sérstaklega. Við erum nýbúnir að því og við eigum örugglega eftir að halda því áfram hér í vetur. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu með því nú.
    Ég vil hins vegar segja að lokum að ég fagna því að þetta frv. er lagt fram og ég mun leggja mig allan fram í sjútvn. til þess að það fái sem besta skoðun í nefnd og vonandi sem farsælasta leið í gegnum þetta þing.