Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 16:03:00 (1499)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ég get eins og flestir ef ekki allir ræðumenn sem hér hafa talað fagnað því að frv. er komið fram sem tekur á þessu efni. En ég hlýt að leyfa mér að segja: þó fyrr hefði verið. Það vekur auðvitað undrun manns, satt best að segja, þegar maður lítur til baka yfir þessa sögu sem er orðin allmargra ára hvers vegna hefur ekki mikið fyrr verið tekið á málunum með hliðstæðum hætti og hér er lagt til og jafnvel þó að fastar hefði verið að orðunum kveðið. Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. sjútvrh., mér leikur forvitni á að vita það af því að ég hef heyrt það sagt og fullyrt reyndar að reglur nánast óbreyttar af þessu tagi hafi legið fyrir, verið til í sjútvrn. um langt árabil. Ég heyrði, ég held að það hafi verið á árinu 1984, af reglugerðardrögum sem hefðu þess vegna getað verið stofn að frv. en var jafnframt sagt að það hefði lent ofan í skúffu í sjútvrn. og verið þar síðan. --- Það er að vísu að því vikið hér í frv. mjög almennum orðum að lengi hafi verið uppi hugmyndir um eitthvað af þessu tagi í sjútvrn. Er hægt að fá það nánar upplýst hversu gamlar þær hugmyndir eru og í hvaða formi þær hafa legið fyrir í sjútvrn., í hve mörg ár og hvers vegna þær hafa ekki verið lagðar hér fram fyrr?
    Ég vil í öðru lagi biðja hæstv. sjútvrh. um fyrirliggjandi upplýsingar um nýsmíðar eða endurbyggingar á skipum og spyrja í hve mörgum tilvikum talið sé að um frystiskip verði að ræða. Það hlýtur auðvitað að hafa nokkur áhrif á skoðun Alþingis og vinnu að þessu máli hvað fyrir liggur af upplýsingum af þessu tagi. Mér er kunnugt um, eins og sjálfsagt fleirum hv. þm., ákveðna smíðasamninga í Noregi á stórum og miklum skipum, frystiskipum, verksmiðjuskipum, sem þar stendur til að fara að byggja upp á 900--1000 millj. hvert skip og jafnvel að þau séu frekar þrjú en tvö. En að skiptir ekki síður máli að afla upplýsinga um það í hve mörgum tilvikum stendur til að breyta skipum sem fyrir eru eða endurbyggja eða endurnýja skip og breyta þeim þar með í frystiskip.
    Það má segja að efni þessa frv. sé tvíþætt. Það taki á tveimur sviðum þessa máls.

Annars vegar er það sem lýtur að nýtingu aflans sem um borð kemur í frystiskipunum, þ.e. að óheimilt verði að fleygja fiski, fiskhlutum eða úrgangi í sjóinn og allt slíkt skuli koma að landi. Ég held að það sé hægt að gera langt mál stutt um þann þátt málsins. Ég trúi ekki öðru en að um það sé í raun og veru alger samstaða að það sé löngu tímabær breyting að leggja kvöð á skip sem vinna aflann um borð á hafi úti að færa öll þessi verðmæti að landi.
    Það er auðvitað spurning hvort ekki getur verið ástæða til að líta aðeins á nýtingu þessara þátta líka í vinnslunni í landi. Það er með mjög mismunandi hætti enn sem komið er, því miður. Það tíðkast enn það ég best veit að stórum hluta af fiskúrgangi sé hent, bókstaflega ekki nýttur. Annars staðar er þetta eftir atvikum að einhverju leyti unnið í mjöl en svo er þetta líka sums staðar í tiltölulega mjög góðu lagi og unnin úr þessu mestu verðmæti sem menn hafa aðstöðu til í dag að gera úr hausum og hryggjum eða öllu sem til fellur. Ég sá í blaði í gær eða í dag að eitt lítið frystihús norður í landi telur sig hafa gert sér 18 millj. kr. framleiðsluverðmæti úr hausunum einum saman með því að þurrka þá og selja.
    Hitt efni frv., og það sem er kannski miklu meiri tvísýna um að hve miklu leyti hefur áhrif, er spurningin um það hvort þessar reglur komi til með að takmarka í einhverjum umtalsverðum mæli fjölgun frystiskipa eða skipa sem vinna aflann á hafi úti. Segja má að það geti fylgt þeim reglum sem þarna eru á dagskrá, a.m.k. dragi úr því að minni skip verði byggð eða þeim breytt í frystiskip til að fullvinna afla um borð. Þó er það allt saman miklu mun óljósara og það er reyndar boðað hér í frv. að það sé alls ekki ætlunin að hafa með beinum hætti áhrif á þessa þróun heldur eingöngu óbeina í gegnum þær reglur sem þarna verði settar og þá þannig að þetta fækki þeim aðilum sem verða í stakk búnir til að uppfylla þær kvaðir sem reglurnar setja á skipin.
    Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa verið fram sett af fleirum en einum ræðumanni að ég er tilbúinn til að skoða það að þarna sé tekið talsvert miklu fastar á hlutunum og það strax. Ljóst er að þessar reglur koma fyrst og fremst til með að hafa áhrif þegar tímar líða varðandi nýsmíði en það er eins og í frv. gefur að líta alls ekki gert ráð fyrir því, samanber ákvæði til bráðabirgða, að þetta hafi áhrif á þau skip sem þegar eru í rekstri fyrr en á síðari hluta árs 1996. Þannig að þess er auðvitað langt að bíða að frv. fari að hafa verkan á þau fjölmörgu skip sem þegar eru í gangi að þessu leyti. Mér finnst vanta inn í umfjöllun um þetta þann möguleika að skip geti fullunnið hluta aflans um borð en landað hluta af honum óunnum til vinnslu. Það er vissulega möguleiki, sem er full ástæða til að skoða, að með einhverjum hætti sé opnað á þann möguleika. Þar getur verið um að ræða mismunandi vinnslustig eftir tegundum. Það getur jafnvel hentað að vinna aflann að einhverju leyti með tilliti til veiðidaga eða úthalds skipanna en taka hluta hans að landi óunninn. Ég tel að það þurfi að huga að því hvort ekki er ástæða til að gera ráð fyrir þeim möguleika í lagasetningu ef út í hana er farið á annað borð um þessi efni.
    Ég tel, ef eitthvað er, þá megi koma afdráttarlausari nýtingarkvöð inn í ákvæði frv. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að réttindi séu í raun og veru lögð í hendur manna með því að þeir fá við núverandi aðstæður að sækja hér sjó og sækja í takmarkaða auðlind að hverri er skammtaður aðgangur og það sé ekkert áhorfsmál að þar með hafi stjórnvöld sterka stöðu til að leggja jafnframt kvaðir á menn af ýmsu tagi varðandi umgengni við og nýtingu á þessum auðlindum. Ein slík kvöð á auðvitað tvímælalaust að vera að gera öll þau verðmæti úr hlutdeild manna í auðlindinni
sem mögulegt er. Það hefur auðvitað verið alveg frá öfugum enda að frystiskipin, sá hluti flotans sem búið hefur við langbesta afkomu undanfarin ár og gerir enn þann dag í dag, skuli ekki að þessu leyti hafa haft einhverjar kvaðir á sér. Ég skil ekki í raun hvað hefur komið mönnum til að vera svona linir af sér gagnvart einmitt þessum hluta flotans, frystiskipunum, sem hafa þó sannarlega haft afkomu til þess á undanförnum árum að leggja í breytingar og gera sig í stakk búna til að nýta öll þessi verðmæti, gera úr þeim verðmæti.
    Til að fyrirbyggja misskilning, tel ég að sjálfsögðu að okkar sjávarútvegur hljóti að þróast og eigi að þróast þannig að fullvinnsla um borð og á hafi úti geti verið eðlilegur hluti af þróun sjávarútvegs inn í framtíðina. En ég tel að sjálfsögðu að þar eigi einungis að vera um hluta að ræða og ég held að það sé stórkostlega hættulegt að láta það þróast óáreitt að þau hlutföll sem verið hafa milli vinnslutegunda og útgerðarhátta hér í landinu raskist mjög stórlega á skömmum tíma án þess að menn skoði það þá mjög vandlega hvað þar er á ferðinni.
    Menn tala mikið um það í dag að það eigi að stefna á frekari fullvinnslu sjávarafla innan lands, stefna eigi á að vinna aflann í neytendapakkningar og meira því um líkt. Enginn vafi er á því að þar í felast miklir möguleikar til að auka enn verðmætasköpunina úr takmörkuðum afla. Það mun ekki gerast með því að færa vinnsluna í enn ríkari mæli út á sjó þar sem lítill mannafli verður fyrst og fremst að afkasta miklu magni í gegnum grófvinnslu á aflanum. Þvert á móti er þar einmitt verið að vinna í grófari og ódýrari pakkningar meira magn með litlum mannafla og ef eitthvað er þá hnígur umræðan í þá átt að hverfa frá því fyrirkomulagi. Ég held þess vegna að menn verði að átta sig á því að þarna er ekki hægt bæði að sleppa og halda og það getur í raun ekki gerst hvort tveggja í senn að aukin fullvinnsla og vinnsla í neytendapakkningar eigi sér stað í landi og hins vegar í sívaxandi mæli að veiðiheimildirnar færist yfir á skip og skipum fjölgi sem eru fyrst og fremst útbúin til að grófvinna aflann um borð á hafi úti. En það er auðvitað það sem sjófrysting er, eins og hún er stunduð í okkar tiltölulega litlu skipum, því hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða verksmiðjuskip þeirrar stærðar sem ýmsar aðrar þjóðir reka upp á mörg þúsund tonn með hundruð manna í áhöfn og geta í sjálfu sér starfað á allt öðrum forsendum, bæði hvað pláss og mannafla snertir.
    Auðvitað vantar svo síðast en ekki síst inn í þetta samhengi þau álitamál sem lúta að atvinnu í landi annars vegar og þjóðhagslega hagkvæmastri ráðstöfun aflans hins vegar.
    Hv. 3. þm. Vesturl. gerði einmitt að umtalsefni þá staðreynd að því miður liggur sáralítið fyrir, hvað hið þjóðhagslega samhengi þessara hluta varðar, hvernig það kemur út í heildina tekið, annars vegar að vinna aflann um borð eins og þarna er og hins vegar að gera það í landi. Ég tala nú ekki um hvaða áhrif það mundi hafa að breyta í stórum stíl þeim hlutföllum sem þarna eru á milli vinnsluaðferða. Þá vakna auðvitað spurningar eins og þær hvort markaður t.d. fyrir sjófrystar afurðir mundi þola verulega aukningu sem sjálfsagt er í farvatninu og verður ekki stöðvuð. Það er lítill vafi á því að þúsundir tonna, ef ekki tugir þúsunda tonna af veiðiheimildum, munu á næstu þremur árum eða svo færast yfir á frystiskip bara vegna þeirra nýsmíða og þeirra áforma sem í gangi eru í fyrirtækjunum og verða tæplega stöðvuð. Það er ljóst að togarar verða úreltir á móti þeim frystiskipum sem væntanleg eru inn í landið á næstu tveimur til þremur árum og þá í flestum tilvikum ísfiskstogarar sem hverfa úr rekstri í staðinn fyrir frystiskipin sem koma inn.
    Allt þetta þyrfti auðvitað að skoða í samhengi út frá þessu tvennu eins og ég segi, atvinnuspursmáli í landi og þjóðhagslega hagkvæmastri ráðstöfun afla.
    Það kemur fram í fylgiskjölum með þessu frv. og einn hv. ræðumanna, sem hér talaði áðan, gerði að umtalsefni mismunandi afkomu annars vegar frystingar eða fiskvinnslu í landi og hins vegar um borð í frystitogurum. Það er auðvitað alveg ljóst að eins og þau hlutföll standa í dag þá er afkoma frystitogaranna miklum mun betri og langbest einstakra

greina sjávarútvegsins eða um 15% hagnaður af tekjum á móti útgerðinni í heild sem er kannski með 7--8% hagnað og fiskvinnslan rekin með umtalsverðu tapi eins og allir þekkja. En spurningin er auðvitað sú líka, þarf þetta endilega að vera svona? Eru þetta skynsamleg hlutföll að svo miklu leyti sem við getum haft á það áhrif og við getum haft á það áhrif. Það er auðvitað engin spurning. Er það t.d. skynsamlegt, þjóðhagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga sem eiga bullandi umframraforku í sínu kerfi að fiskvinnslan og frystingin í landi skuli búa við það dýrt orkuverð að það er ódýrara fyrir fyrirtækin að kaupa núna fokdýrar rafstöðvar til að keyra niður afltoppana sem Landsvirkjun og veiturnar láta þau búa við. Þar með er líka verið að segja að það að keyra ljósavélar skipanna eða rafala skipanna skapar frystiskipunum úti á sjó sjálfsagt jafnódýra ef ekki ódýrari orku heldur en frystingin í landi þarf að borga. Auðvitað er engin glóra í þessu. Auðvitað ættum við að styðja við bakið á innlendu fiskvinnslunni sem notar þar á ofan innlenda orku í staðinn fyrir innflutta með því að bjóða hana á miklu betri kjörum en gert er í dag. Það er enginn vafi á því að nýjustu æfingar þeirra snillinga, sem semja þessar gjaldskrár fyrir raforkufyrirtækin, koma þannig út að nú er tekinn einn afltoppur í staðinn fyrir fjóra sem áður var og vísir menn segja að þýði að fyrirtækin eru unnvörpum að huga að því að koma sér upp varaafli til þess að keyra þessa toppa niður, jafnskynsamlegt og þjóðhagslega hagkvæmt og það nú er.
    Á sama tíma og menn eru vælandi undan erfiðri samkeppnisstöðu við stórkostlega ríkisstyrkta og niðurgreidda fiskvinnslu nágrannalandanna er innlenda fiskvinnslan að tapa hráefni, óunnu út úr landinu, í samkeppni við fiskvinnslu í Þýskalandi og Bretlandi sem býr við 30--40% ríkisstyrki t.d. þegar til nýrra fjárfestinga í atvinnuskapandi fullvinnslu sjávarafurða kemur. Hvers vegna í ósköpunum notum við þá ekki þá möguleika til a.m.k. að hamla þarna eitthvað á móti til stuðnings innlendu fiskvinnslunni með því, eins og ég segi, að láta hana njóta góðs af ódýrri orku sem ætti að vera hægt að bjóða henni? Þetta og margt fleira finnst mér að væri þá ástæða til að ræða ef menn taka til umfjöllunar og athugunar á annað borð samkeppnisstöðu þessara ólíku vinnsluaðferða eða vinnslugreina, annars vegar fullvinnslu og frystingar um borð og hins vegar fiskvinnslunnar í landi og gleyma ekki því umhverfi sem við erum í gagnvart nágrannalöndunum.
    Mér skilst að þeir séu farnir að úthluta karfakvótanum hjá Evrópubandalaginu nú þegar. Þeir láta ekki lengi á sér standa, langhalinn er orðinn að karfa úti í Brussel og þegar farið að úthluta honum til breskra fyrirtækja og merkja inn á í íslensku efnahagslögsöguna hvar þeir eigi að veiða hann. Morgunblaðinu finnst þetta náttúrlega sjálfsagt mál og tittlingaskítur að hafa áhyggjur af því þó að Evrópubandalagið sé farið að úthluta veiðikvóta á Íslandsmiðum. En sjálfum finnst mér það ekki og þeim mun argari verð ég þegar ég hugsa til þess hvílíkir aumingjar við Íslendingar erum, algjörir aumingjar í raun og veru, að búa þannig að okkar innlendu fiskvinnslu, þeirri þó sem mesta atvinnuna skapar og mestu heildarverðmætin fyrir þjóðarbúið, því það gerir fullvinnslan í verðmætustu pakkningarnar í landi óumdeilanlega. Það verða meiri þjóðhagsleg verðmæti til við vinnslu á verðmætustu pakkningunum í landi. Það er vissulega hægt að finna dæmi um tegundir og pakkingar sem sjófrystingin gefur sambærilega eða jafnvel meiri verðmæti miðað við afla en í heildina tekið er þó ekki, held ég, deilt um það að vinnslan í landi skilar þjóðhagslega mestu í t.d. gjaldeyristekjur. Vissulega liggur þá einnig meiri tilkostnaður á bak við en það er jú atvinna hér innan lands að stórum hluta sem kemur okkur til góða.
    Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa fleiri orð um þetta, um þetta mætti ræða fram og til baka og í raun og veru er öll sjávarútvegsstefnan undir þegar rætt er um þessa hluti, það liggur í hlutarins eðli og ekki einu sinni hægt að sleppa fiskveiðistjórnuninni sjálfri þó menn hefðu gjarnan viljað. Það er t.d. alveg ljóst að í gegnum góða afkomu frystitogaranna og uppkaup þeirra á veiðiheimildum undanfarin ár eru að eiga sér stað einhverjar stórkostlegustu breytingar í hlutföllum í útgerð á Íslandi sem orðið hafa hér um mjög langt árabil. Líklega má segja frá því að togaravæðingin hófst og endurnýjun síðutogaranna með skuttogurunum fór fram á sínum tíma. Sem sagt þær að stórkostlega mikið af veiðiheimildum er að færast af smábátum og bátum upp á togarana og þá fyrst og fremst frystitogarana. Stórkostlega miklar veiðiheimildir. Ætli það sé ekki þannig eins og menn þekkja að þær útgerðir sem eru núna að semja um eða í þann veginn að semja um smíði á nýjum stórum frystitogurum --- hvað hafa þær verið að gera á undanförnum mánuðum og undanfarin ár til að undirbúa þessa endurnýjun? Kaupa veiðiheimildir í stórum stíl. Safna þeim saman á þau skip sem þau hafa fyrir og ætla síðan að flytja umtalsvert magn veiðiheimilda yfir á nýju, stóru verksmiðjuskipin enda þarf sitt til að borga niður fjárfestingu upp á 900--1.000 þús. millj. kr. íslenskar eins og mér skilst að nýju stóru frystitogararnir muni kosta sem er núna að hefjast smíði á, t.d. í Noregi, fyrir okkur Íslendinga.
    Ég tek undir það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að sjútvn. fari vandlega ofan í þetta mál og tengi það inn í það samhengi sjávarútvegsmálanna sem nauðsynlegt er. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé ekki stuðningsmaður frv. svo langt sem það nær, það er ég, og ég tel auðvitað brýnt að reynt verði að hraða þeirri vinnu því ef menn ætla sér eitthvað í þessum efnum þá er það víst búið að dragast nógu lengi þó að það vefjist nú ekki fyrir þinginu mánuðum saman að koma málinu í höfn. Ég skal svo sannarlega leggja mitt af mörkum til þess að vinna sjútvn. að þessu geti verið sem allra greiðust. En málið er óneitanlega stórt í því samhengi sem ég held að sé óhjákvæmilegt að skoða það.