Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 16:38:00 (1501)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Í frv. er hreyft mjög þörfu máli og það er svo sannarlega framfaraspor. Í því árferði sem nú ríkir í íslenskum sjávarútvegi er alveg ljóst að nauðsynlegt er að nýta sem best allt það sem til fellur og staðreyndin er sú að verið er að fleygja geysilegu magni af fiski, þ.e. bæði undirmálsfiski og, þó ekki síst, hvers kyns úrgangi. Mjög miklu er fleygt. Samkvæmt tölum sem birtar hafa verið af sjútvrn. mun um það bil 45 þús. tonnum af úrgangi, slógi, hausum og innyflum, hafa verið fleygt árlega hjá ísfisktogurunum og um það bil 55 þús. tonnum á ári hverju frá frystitogurunum og það er auðvitað ljóst að við þurfum með einhverjum hætti að reyna að nýta þetta.
    Eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson gat um áðan hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gert margt mjög merkilegt á þeim vettvangi og það er mála sannast hjá honum að nauðsynlegt er að styrkja þá stofnun eftir föngum og skapa henni fjármagn til aukinna rannsókna og tilrauna á sviði vinnslu. Mig langar að geta þess, eins og e.t.v. hefur komið fram áður í þessum umræðum, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur einmitt staðið að geysilega merku tilraunaverkefni sem varðar frystitogarana. Það var sérstakt aflanýtingarátak sem þar var gert árið 1989 með þeim árangri að flakanýting batnaði um 5--10% sem þýðir verðmætaaukningu, miðað við verðlag 1990, upp á 400--800 millj. kr.
    Ég var að tala um úrganginn sem fellur til, 55 þús. tonn hjá frystitogurunum og um það bil 45 þús. tonn hjá ísfisktogurunum. Af þessum 100 þús. tonnum af úrgangi mætti árlega vinna u.þ.b. 35--40 þús. tonn af meltuþykkni. Þessi ágæta vara, meltuþykkni, hefur oft verið til umræðu hjá okkur sem viljum bæta hagræðingu og efla verðmætasköpun í sjávarútvegi. Ýmsir hafa talið mörg tormerki á því að þetta væri kleift. Eigi að síður eru rannsóknamenn sannfærðir um að sá tími komi að þessari meltu verði safnað í tankskip allt í kringum landið og hún flutt á einn stað til frekari vinnslu þar sem er gnægð jarðhita og þetta efni verði síðan unnið í margvíslegar afurðir, t.d. fiskafóður og gæludýrafóður. Þá hafa menn sérstaklega horft til þess ört vaxandi markaðar sem er fyrir slíkar afurðir í fiskeldi í Austurlöndum og er líklegt að þar geti skapast vænlegir markaðir fyrir meltuþykkni og reyndar hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins staðið fyrir tilraunasendingum þangað. Mig minnir að snemma á þessu ári hafi verið send ein 20 tonn einmitt af slíku þykkni. Því er alveg ljóst að hér er merkilegt verk sem þarf að vinna og fyrsta skrefið til þess er vitaskuld það að bæta umhirðu þess fisks, fiskhluta og úrgangs sem hefur til fallið á frystitogurunum og verið að mestu leyti fleygt. Það er mjög vel gert með frv. og því fagna ég auðvitað.

    Staðreyndin er hins vegar sú að menn verða lítillega að sporna við fæti gegn þeirri skriðu frystitogara sem mér finnst vera að fara af stað. Menn verða eilítið að staldra við og hugsa hvort hér sé rétt af stað farið. Áður hefur verið drepið á það í þessari umræðu af hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur og fleirum raunar að hættulegt sé að flytja vinnsluna alla með þessum hætti út á sjó. Staðan er auðvitað slík að nú fæst meira verðmæti úr aflanum sem er unninn úti á sjó. Mér skilst að menn fái fyrir hvert sjófryst kíló af flökum u.þ.b. 330 kr. meðan þeir fá ekki nema 270--280 kr. í landi. Þetta segir auðvitað sína sögu.
    Nú stöndum við e.t.v. á mörkum nýrra tíma. Það kann vel að vera, eins og áður hefur verið rætt í þessum sölum, að sá samningur sem er í bígerð um Evrópskt efnahagssvæði skapi ný sóknarfæri fyrir öðruvísi afurð, þ.e. ferskt hráefni, fersk flök. Þar er um að ræða hráefni sem a.m.k. í dag aflar miklu hærra verðs fyrir hvert kg en bæði landfrystingin og sjófrystingin. Þess vegna verð ég að segja það að þróunin kann að verða sú að innan e.t.v. 10--12 ára muni breyttar markaðsaðstæður dæma frystitogarana úr leik. Þess vegna hljótum við auðvitað að huga að því núna hvort rétt sé að hleypa af stað kaupum á 20--25 nýjum frystiskipum, en mér skilst að fyrir liggi óskir um nýsmíðar eða breytingar á þessum fjölda frystiskipa. Þetta tel ég aldeilis ótækt og ég tel líka að miðað við stöðuna í dag eigi að ganga lengra en talað er um í frv.
    Það er að vísu tekið fram í 1. gr. frv. að með þeim lögum, því væntanlega verður frv. samþykkt, verði sjútvrn. heimilt að veita leyfi til fullvinnslu botnfiskafla. Þar er því komið sérstakt leyfi. Það er hins vegar tekið fram í greinargerðinni að þó að með þessu sé líklegt að hinar auknu kröfur sem frv. felur í sér muni hægja á þeirri þróun að fiskvinnslan flytjast út á sjó, um borð í frystitogarana sé eigi að síður alveg ljóst að öllum sem sækja um þetta fullvinnsluleyfi verði gefið slíkt leyfi. Þess vegna vil ég, og kom eiginlega hér upp fyrst og fremst til þess, taka undir með hv. þm. Gísla Einarssyni sem sagði að með frv. væri ekki gengið nógu langt. Ég lýsi þeirri skoðun að eins og nú er komið í íslenskum sjávarútvegi ætti sjútvrh. og stjórnvöld að hlutast til um það að þegar í stað verði stöðvuð öll fyrirgreiðsla til nýbygginga, kaupa og breytinga á frystiskipum þangað til búið er að meta horfur í sjávarútvegi og meta hvernig þær breyttu markaðsaðstæður sem munu skapast með Evrópska efnahagssvæðinu breyta hagkvæmni þjóðarbúsins af frystitogurunum.