Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 16:54:00 (1504)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Ég vona að við getum átt samleið, hv. 10. þm. Reykv. og ég, í sambandi við breytingar á sveitarstjórnarlögunum. Það sem hv. þm. las upp staðfestir bara það sem ég hef verið að segja. Aflakvótinn er hjá okkur úti á landsbyggðinni, hann er þar og við ráðum yfir honum sem þar erum. Ég treysti útgerðarmönnum og sjómönnum betur til að fara með þennan afla en bæjarfulltrúum eða borgarráðsmönnum. Ég segi það hér og nú og hef alla tíð sagt það. Mér finnst hann betur kominn í höndum þeirra aðila.
    Aðeins vil ég víkja að því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér -- því miður er hann ekki hér í salnum. Hv. þm. sagði að veiðileyfin væru nú að fara í stórum stíl frá smábátum til togaranna. Þetta er það sem við heyrum alla tíð sagt og kvótanum er kennt um þetta. Árið 1984, þegar kvótalögin voru sett, höfðu smábátar, ef ég man rétt, um 8--10 þús. tonn. Í dag er aflaréttur þessara báta um 50 þús. tonn. Hefur aflinn verið að fara frá smábátunum til togaranna? Við verðum að skilja það og átta okkur á því að hagræðing verður að eiga sér stað í sjávarútvegi. Það er óumflýjanlegt að svo verður að vera. Það er kannski þess vegna sem mér gremst þær breytingar sem verið er að gera á Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins vegna þess að mér finnst oft hafa verið þörf en nú er nauðsyn að nýta þann sjóð til að ná fram þeirri hagræðingu sem okkur er lífsnauðsyn að ná fram í sjávarútveginum. Bara aflaskerðingin ein sem nú er um 50 þús. tonn jafngildir meðaltalsvinnslu um átta fullkominna fiskvinnsluhúsa á Íslandi. Höldum við virkilega að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi gerst og krefjumst þess að hafa arðsemi í greininni? Þetta er vita vonlaust. Við verðum að átta okkur á því að við ríkjandi aðstæður verður að eiga sér stað veruleg hagræðing í sjávarútvegi og hún kostar peninga.