Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:02:00 (1507)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar umræður um þetta mál og góðan stuðning í meginatriðum við höfuðtilgang þess. Ég ætla í örfáum orðum að víkja að nokkrum þeirra atriða sem hér hafa komið fram í umræðunum.
    Hv. 3. þm. Vesturl. vék réttilega að því í sinni ræðu að mikilvægt væri að þeir sem eru með fjárfestingaráform í þessum efnum dokuðu við vegna þess að verið er að mæla fyrir um breytingar sem hljóta að hafa veruleg áhrif. Ég vil taka mjög undir þessi aðvörunarorð hv. þm. Um leið vek ég athygli á því að mikilvægt er að það fái tiltölulega greiðan gang í gegnum þingið. Ég er ekki að draga úr því að hv. nefnd kanni málið vandlega en hitt má vera að þegar mál af þessu tagi eru á döfinni, sem hefur óhjákvæmileg áhrif á fjárfestingaráform manna þá er óheppilegt að það sé mjög lengi til umfjöllunar því það veldur óvissu og óróa í atvinnugreininni og því fyrr sem menn komast að endanlegri niðurstöðu og skipa málum með ákveðnum hætti þeim mun betra.
    Hv. 3. þm. Vesturl. vék einnig að því ákvæði að heimila núverandi skipum að starfa til ársins 1996. Það er vissulega umhugsunarefni hvort veita eigi svo langan frest sem hér er gert ráð fyrir. Af hálfu ráðuneytisins var það einkum haft í huga í þessu sambandi að ef tímafresturinn yrði of skammur kynni það að leiða til of mikilla fjárfestinga í breytingum á þeim skipum sem fyrir eru á skömmum tíma og af þeim sökum gæti verið hyggilegt að hafa þennan frest lengri. En vissulega er þetta eitt af þeim atriðum sem eru íhugunarefni í þessu sambandi.
    Það hefur komið fram í ræðum nokkurra þingmanna að ef eitthvað er þá væri ástæða til að ganga lengra og hv. 9. þm. Reykn. sagðist ekki vera viss um hvort með þessu frv. væri í raun og veru verið að stemma stigu við fjölgun fullvinnsluskipa. Það er vissulega íhugunarefni hvort ganga eigi lengra. Hitt á ekki að þurfa að vefjast fyrir nokkrum manni að hér er verið að stemma stigu við þeirri óhóflegu fjölgun fullvinnsluskipa sem við blasir.
    Það er hægt að fara ýmsar leiðir í því efni. Það er hægt að banna þessi skip og það er vissulega rétt eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl., að hjá sumum þjóðum er starfræksla skipa af þessu tagi einfaldlega bönnuð vegna þeirrar sérstöðu sem þau hafa við nýtingu auðlindarinnar. Það er einnig hægt að útdeila leyfum með hefðbundnum skömmtunaraðferðum. Hvort tveggja tel ég vera varasamt og ekki víst að við náum tilætluðum árangri með því. Sú leið sem hér er farin felst í því að freista þess að koma á sem sambærilegustum rekstrarskilyrðum að því er varðar gæðakröfur og nýtingarkröfur. Með því móti tel ég alveg öruggt að mjög verulega muni draga úr fjárfestingarskriðu í þessu efni. En það er alveg ljóst að það mundi leiða til mikilla erfiðleika og ég efast um að það væri hægt að sýna fram á þjóðhagslegan ávinning af þeirri þróun ef fiskvinnsla færðist nú í stórum stíl frá fiskvinnslufyrirtækjunum í landi út á sjó.
    Við stefnum mjög markvisst að því að auka hér hagvöxt með meiri fullvinnslu afurða í neytendaafurðir. Í þeim tilgangi að tryggja eðlilega þróun byggðar í landinu verðum við að gæta að okkur í þessu efni og er frv. þáttur og viðleitni í þá veru -- leysir engan veginn allan þann vanda -- en er verulegt skref í því efni. En við það er miðað að ná þessu marki án þess að setja á fót skömmtunarkerfi heldur tryggja með almennum reglum að þessu markmiði verði náð.
    Hv. 2. þm. Vesturl. vék svo að því að þessa samkeppnisstöðu yrði að tryggja með fleiri atriðum en þessum og þá fyrst og fremst því móti að tryggja vinnslunni í landi eðlileg rekstrarskilyrði. Um þetta hygg ég að flestir geti verið sammála. Þjóðin lifir það einfaldlega ekki af ef fiskvinnslan á Íslandi hefur ekki eðlileg rekstrarskilyrði. Það er meira

en svo að við getum sætt okkur við að hún tóri. Fiskvinnslan þarf að búa við þær aðstæður að geta grætt peninga. Við höfum nú nýlega staðið í samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Þeir opna okkur ný sóknarfæri, nýja möguleika til að auka hér fullvinnslu afurða og koma tollfrjálst eða með mjög lágum tollum inn á Evrópumarkað. Þessa möguleika getum við ekki nýtt okkur ef vinnslan í landi, ef sjávarútvegurinn fær ekki búið við þau skilyrði að hann skili verulegum arði. Það er lítil von til þess að sá ávinningur sem við sjáum af þessum samningum verði að veruleika ef fiskvinnslan býr ekki við þau rekstrarskilyrði að geta brotist fram í þessum nýjungum. Það er dýrt að fara út í nýjungar. Það er dýrt að hefja nýja framleiðslu og það er óhemjudýrt að hasla sér völl á erlendum mörkuðum með nýja framleiðslu og styrkja stöðu okkar þar. Af þessum sökum hygg ég að allir geti verið um það sammála að þetta atriði hlýtur að vera einn veigamesti þátturinn í því að jafna þessa aðstöðu sem við erum að tala um.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði hvers vegna þetta hefði ekki verið gert fyrr. Um það hef ég ekki svör. Hann spurði hvort ég hefði gert um það könnun, hvort í ráðuneytinu væru gögn um að reglur af þessu tagi hafi verið tilbúnar áður en ekki verið settar í framkvæmd. Við þessum spurningum hef ég það svar eitt: Ég hef ekki haft til þess tíma að grúska í skjölum forvera míns, ég hef lagt á það megináherslu að koma fram málum, nauðsynlegum málum, sem ég tel að séu brýn og nauðsynlegt sé að festa í lög og hef talið það vera atvinnugreininni og þjóðinni meira virði en að grúska í gömlum skjölum.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék hér að því hvort ekki væri nauðsynlegt að takmarka nýsmíðar og hv. 17. þm. Reykv. gerði að umtalsefni þetta sama atriði og sagði það sína skoðun að nauðsynlegt væri að stöðva fyrirgreiðslu til frystiskipa. Í þessu sambandi vil ég taka fram að sl. miðvikudag átti ég fund með formanni og framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs og lagði þar til að sjóðurinn gerði nú verulegar breytingar á útlánareglum sínum í þá veru að takmarka mjög verulega útlán til nýsmíða erlendis. Í öðru lagi að gera stórauknar kröfur til eiginfjár þeirra sem ætla að ráðast í nýsmíði eða endurnýjun fiskiskipa. Forustumenn sjóðsins tóku þessu vel og ég vænti þess að þeir hafi í dag komið saman til fundar með stjórn Fiskveiðasjóðs til þess að fjalla um þessar óskir af minni hálfu.
    Ég er þeirrar skoðunar að sjóðstjórnin hafi átt að grípa í taumana fyrr og það hafi verið mjög óheppilegt að gefa út lánsloforð til þeirra stóru fullvinnsluskipa sem sjóðstjórnin hefur gert að undanförnu. Því hafi verið óhjákvæmilegt að grípa í taumana í þessu efni. Þessum óskum hef ég þegar komið á framfæri við stjórn sjóðsins og vænti jákvæðra viðbragða af hennar hálfu og tek mjög undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. 17. þm. Reykv.
    Ég vænti þess að þetta frv. stuðli að því að tryggja eðlilegt jafnvægi á milli vinnslu í landi og úti á sjó. Það felur ótvírætt í sér auknar kröfur varðandi gæði og nýtingu og ég tel að það muni alveg ótvírætt hafa áhrif í þá átt að hamla gegn þeirri skriðu, sem ella er yfirvofandi, að fjárfesting flytjist á næstu mánuðum í vinnslu af þessu tagi og flytji fiskvinnslu úr landi og út á sjó.