Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:48:00 (1515)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en að gefnu tilefni langar mig að segja hér örfá orð. Það er fyrst og fremst vegna ummæla hv. 17. þm. Reykv., Össurar Skarphéðinssonar, þar sem hann vék að okkur framsóknarmönnum og fann okkur flest til foráttu eins og hann er vanur að gera í sínum ræðum. Það er venjulega uppistaðan í hans ræðum. Það eru illsakir við okkur framsóknarmenn.

    Mig langar aðeins til þess að spyrja hv. 17. þm. Reykv. hvað hann meinti með sínu bjartsýnistali áðan ef þetta frv. næði fram að ganga, sem ég er ekki að tala gegn en að mér skildist að það gæti orðið þröng á þingi við hafnir Íslands, slík yrði aðsóknin í að koma hingað og landa hjá okkur fiski. Ég vona að hann reynist nú sannspár maður þó að mér finnist hann ekki beint spámannlega vaxinn. En ég hef vissa fyrirvara á þessu öllu saman meðan við sjálfir getum ekki borgað hærra verð fyrir okkar fisk, okkar afurðir, og þurfum að sjá eftir þeim í jafnstórum stíl úr landi.     Eins er það með skipasmíðaverkefnin sem mig langaði til þess að spyrja hv. þm. um vegna þess að hér átti líka að verða svo mikið að gera í skipasmíðastöðvunum, sem ég vona vissulega að verði. En af hverju ætli það sé, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að við Íslendingar förum ekki bara með fiskinn okkar úr landi? Við förum líka með skipin úr landi til viðgerða. Er þess að vænta að þessar þjóðir muni vilja skipta við okkur frekar en við sjálf við okkar eigin skipasmíðastöðvar? Ég held nefnilega að við þurfum að taka þar til. Mig langar aðeins til þess að fá skýringar á því hvort þetta hefur kannski verið rætt eitthvað í þingflokki Alþfl. vegna þess að skipaiðnaðurinn heyrir nú undir ráðherra þess flokks, hvort menn séu þar með eitthvað á prjónunum. Svo oft og mörgum sinnum erum við búnir að ræða þann vanda sem að íslenskum skipaiðnaði steðjar, hvort menn séu þá að hugsa um að taka sér tak þannig að íslenskar skipasmíðastöðvar geti orðið bærilega samkeppnisfærar.