Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:53:00 (1517)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Við þingmenn höfum tekið eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir sér víðförult í könnuna sem er þarna í glugganum. Ég vona að honum verði gott af vatninu. En hér er úr nokkrum vanda að ráða hvernig á að taka þær tvær síðustu ræður sem hv. þm. flutti. Ég hafði tilhneigingu til þess að taka þær sem almenna skemmtan og leyfði mér að hlæja góðlátlega í þingsalnum, kannski einum of, en nú heyri ég að hv. þm. vill að þær séu teknar sem alvara og ég ætla að gera það.

    Hv. þm. sagði sem svar við spurningu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að málefni skipasmíðaiðnaðarins hefðu verið rædd á þremur fundum í þingflokki Alþfl. og þingmenn Alþfl. hefðu verið með ýmsar tillögur þar til úrbóta. Ég efa ekki að þetta er rétt. Vandinn í málinu er hins vegar sá að ráðherra Alþfl. hefur greinilega hvorki á síðustu vikum né síðustu rúmum þremur árum viljað hlýða á neina af þessum hugmyndum. Það er auðvitað vandi sem Alþfl. er í í þessu máli, ekki að það fari ekki fram ágætar umræður á þingflokksfundum Alþfl. eða nýliðar í Alþfl. komi ekki með ýmislegt gott sem þeir fengu í farangur sinn úr Alþb. inn í Alþfl. og eru nú að reyna að fá iðnrh. til þess að verða sér samferða í að taka þetta upp úr töskunni frá Alþb. og gera að stefnu Alþfl., heldur hitt að iðnrh. Alþfl. hefur nánast ekkert gert í rúm þrjú ár í málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Það er sjálfsagt nokkuð löng saga og flókin að útskýra hvers vegna svo er, en það er staðreynd máls að á síðustu 3--4 árum, þegar iðnrh. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa stýrt þessum málum, og reyndar á sl. átta árum ef maður tekur iðnaðaráðherratíð Sjálfstfl. alla, hafa þessir tveir núv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., borið ábyrgð á málefnum íslenska skipasmíðaiðnaðarins og það hefur satt að segja verið eitthvert mesta samdráttar- og afturfaratímabil í málefnum íslensks skipasmíðaiðnaðar frá því að hann hófst í landinu. Svo ef það eru einhverjir tveir flokkar sem bera ábyrgð á því hvernig er komið fyrir íslenskum skipasmíðaiðnaði eru það núv. stjórnarflokkar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.
    Ég hef hins vegar tekið eftir því að þingmaðurinn hefur verið að flytja ýmsar tillögur í fjölmiðlum sem eru mjög athyglisverðar. Það er auðvitað dálítið merkilegt að ýmsar af skynsamlegustu tillögunum sem maður heyrir nú úr stjórnarliðinu skuli annars vegar koma frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hins vegar hæstv. núv. sjútvrh. En það er tilefni til umræðu við annað tækifæri. Æskilegt væri að hv. þm. gerði okkur grein fyrir því hverjar þessar tillögur í málefnum íslensks skipasmíðaiðnaðar eru sem ræddar hafa verið á þingflokksfundum Alþfl. --- Hæstv. iðnrh. hefur beðið um orðið og það væri æskilegt líka að fá frá honum eitthvað skýrt og klárt hvað hann hyggst gera í þessum málum.
    Það hefur ærið oft verið rætt um þessi mál. Þegar núv. hæstv. fjmrh. var iðnrh. fékk hann fyrirtæki til þess að gera athugun á málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Því miður kom lítið út úr því. Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru þessi mál rædd hvað eftir annað og staðreyndin er sú að við, þessi mikla fiskveiðiþjóð, stöndum í þeirri erfiðu stöðu að allt bendir til þess að ef ekki verður gripið til sértækra ráðstafana, hæstv. forsrh., muni nánast öll skipasmíðafyrirtæki á Íslandi loka á næsta ári. Það hefur komið fram í fjölmiðlum síðustu daga að það vantar hátt í 200 millj. í nýtt fjármagn inn í Slippstöðina á Akureyri til þess að hún hafi rekstrargrundvöll. Það hefur komið fram að á Ísafirði þarf líka að grípa til sérstakra aðgerða til þess að skipasmíðar og skipaviðgerðir verði áfram stundaðar á Vestfjörðum. Það er kunnugt hvernig komið er fyrir fyrirtæki á Seyðisfirði. Það er líka kunnugt að skipasmíðafyrirtæki í Garðabæ hefur verið lokað og þannig er hægt að lýsa stöðu málsins. Nú er rétt að hæstv. ráðherrar svari því hér: Eru þeir reiðubúnir að grípa til sértækra ráðstafana til þess að bjarga því sem bjargað verður hjá íslenskum skipasmíðaiðnaði eða á að dæma þau fyrirtæki til sömu örlaga og hæstv. forsrh. hefur svo lýst að eingöngu eigi að grípa til almennra aðgerða og síðan verði fyrirtækin sjálf að sjá um sig?
    Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar við, fiskveiðaþjóð sem vill og þarf að afla sér gjaldeyris á samkeppnisgrundvelli, er komin í þá stöðu að helsta stoðgrein sjávarútvegsins, skipasmíðaiðnaðurinn, er að leggjast niður í landinu. Ég vil þess vegna þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að upplýsa það hér að menn hafa þó svo miklar áhyggjur í þingflokki Alþfl. að þeir hafa á þremur fundum rætt þessi mál mjög ítarlega. En við þingsölunum höfum ekki séð neitt ákveðið og afgerandi um aðgerðir til þess að bregðast við þessum vanda. Mér þætti þess vegna vænt um það ef hæstv. iðnrh. vildi lýsa því hér

að gefnu tilefni frá formanni þingflokks hans eigin flokks hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera --- ég legg áherslu á það orð, gera --- á næstu mánuðum til að tryggja að í árslok 1992 verði einhver skipasmíðafyrirtæki starfandi á landinu.
    Ég vil svo að lokum upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það að sá sem manna mest barðist gegn efni þess frv. sem hér er til umræðu á síðasta þingi var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem ekki er í Framsfl. heldur í Sjálfstfl. og hefur af okkur flestum verið kosinn formaður utanrmn. þessa þings. Það er því ósanngjarnt að vera að koma því yfir á Framsfl. ( StG: Hann er kannski á leiðinni inn í Framsfl.) Já, inn í Framsfl. Nei, það er alveg öruggt. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er ekki á leið inn í Framsfl. Þessu vildi ég nú koma á framfæri til hv. þm. og bið hann í anda gamallar vináttu að skoða sagnfræðina aðeins betur áður en hann fer mikinn í ræðustólnum til árása á Framsfl. þó að það standi mér kannski ekki næst að koma með slíkar ábendingar. Hins vegar var aðalerindið upp í ræðustólinn að óska eftir því að fá í greinargóðu máli lýsingar á því hvað menn hyggjast gera innan ríkisstjórnarinnar varðandi málefni skipasmíðaiðnaðarins.