Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:05:00 (1520)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Frv. sem við ræðum felur m.a. í sér heimild fyrir erlend fiskiskip að leita hér hafnar til að fá þjónustu og vistir. Þetta er mjög mikilvægt skref m.a. til að styrkja málm- og skipaiðnaðinn og við þurfum að efla markaðssókn hans í því sambandi. Þetta gefur mér ástæðu til þess að nefna það að því miður, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur mínar, tókst ekki að ná samkomulagi um það að flutt yrði stjfrv. um þetta efni í síðustu ríkisstjórn. Ég ætla ekki að deila neinni skuld í því máli. Það er ekki mín aðferð. Ég nefni það sem einfalt er. Um þetta varð ekki samstaða. Og það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að auðvitað eiga verkin að tala. Þess vegna fagna ég því mjög að þetta frv. skuli nú fram komið.
    Að öðru leyti, vegna þess sem fram kom í máli hans og um hvað hverju væri um að kenna að skipaiðnaður okkar stendur nú höllum fæti, er náttúrlega mjög einfalt að skoða það ef menn vilja. Aflasamdráttur síðustu ára hefur auðvitað ekki aðeins komið niður á sjávarútveginum heldur hefur hann líka valdið samdrætti í stoðgreinum hans, ekki síst í skipaiðnaðinum. Nýsmíðar skipa hafa dregist mjög saman og reyndar beinst fyrst og fremst að frystiskipunum. Stór verkefni við breytingar skipa eru í lágmarki einfaldlega af því að menn ráðast ekki í slíkar framkvæmdir þegar svo illa árar. Fram undan er hins vegar veruleg endurnýjunarþörf.
    Við þessar aðstæður hef ég talið það rétt og hef beitt mér fyrir því á þeim tíma sem ég hef farið með þennan málaflokk að styrkja iðnaðinn til hagræðingarstarfs á eigin vegum, að styrkja hann til markaðsleitar, að veita hönnunarstyrki til nýjunga í skipagerð. Hins vegar játa ég það fúslega að ég hef ekki og mun ekki gera tillögur um niðurgreiðslur til skipaiðnaðarins. Við verðum að búa við þau skilyrði sem umheimurinn færir okkur í þessu efni og keppa þannig þótt okkar keppinautar njóti styrkja úr sínum ríkissjóðum. Við munum einfaldlega fara halloka í samkeppni ríkissjóðanna af því að okkar er smærri en hinna. Þetta eru ekki flókin mál. Hins vegar stendur þetta mál til bóta og von er til þess að niðurgreiðslur til skipaiðnaðarins muni senn niður lagðar í nálægum löndum.
    Ég vildi eingöngu láta þetta koma hér fram, virðulegi forseti, og tek það jafnframt fram að við ræðum nú á vettvangi ríkisstjórnar og í þingflokki Alþfl. leiðir til þess að beita almennu aðgerðum, eins og þeim að draga mjög úr lánshlutfalli til nýsmíða erlendis, til þess að gefa með þeim hætti okkar iðnaði betra tækifæri til þess að ná þeim fáu verkefnum sem um er að keppa. En bætt samkeppnisstaða gerir harla litla stoð þegar verkefnin eru fá og fer fækkandi. Við verðum auðvitað að horfa á hlutina og heiminn eins og hann er og ekki vaða í þeirri villu og þeim svíma að það séu stjórnvöldin sem ráði því hvernig hagur atvinnuveganna er. Það er misskilningur, virðulegi 8. þm. Reykn. Það er lífið sjálft sem hefur fært okkur þessi verkefni og við munum taka á þeim eins og skymsamlegt er. Ég er sannfærður um það að með því samstarfi sem tekist hefur innan þessarar stjórnar og lýsir sér í hennar verkum verði sú stefna mótuð sem farsæl mun reynast. Hér eins og í öðru er best að láta verkin tala.