Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 19:07:00 (1532)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að fá að halda umræðunni eitthvað áfram úr því að svona orðaleppar og skætingur kemur hér úr munni hins reigða hæstv. iðnrh., svo að maður noti hans eigin orðbragð og jafnsamanhertur og hann er í tilburðum sínum í ræðustóli óska ég alveg eindregið eftir því að umræðunni ljúki ekki nú. Ég mun eiga kost á því að halda hér aðra ræðu ef ég veit rétt þar sem ég er eingöngu að nýta mér rétt til svara og hafði ekki tekið til máls nema einu sinni áður. Ég hugsa að það hafi það í för með sér að sú ræða gæti tekið af mönnum eitthvað af kvöldmatartímanum ef hún yrði hér flutt. Ég vil, áður en ég legg mig niður við það að svara þessum síðasta skætingi frá hæstv. iðnrh., inna forseta eftir því hvort hann getur ekki fullvissað mig um að þessari umræðu verði nú frestað og henni haldið áfram á næsta reglulegum fundi og þá mun ég biðja um orðið eða gera það hér á eftir og þá mun ég svara hæstv. iðnrh. ( Forseti: Forseti vill upplýsa þingmanninn um það að hann hyggst halda umræðunni áfram til kl. hálfátta þannig að þingmaðurinn getur því svarað iðnrh. og verið á mælendaskrá ef hann kýs svo og svarað ráðherranum. Hann hefur rétt til þess að flytja ræðu eins og hann benti á sjálfur. Hann hefur aðeins talað einu sinni í umræðunni þannig að hann má halda áfram og ég gef honum hér með heimild til þess.) Ég er ekki að nýta málfrelsi mitt í seinna sinn, hæstv. forseti, eins og ég veit að forseta er kunnugt um. Ég er eingöngu að svara andsvarinu. En ég ætla að spyrja hæstv. forseta. Er það rangt sem mér var sagt að það hefði verið rætt um og gengið frá því að fundur stæði hér til kl. 7? Ég hafði gert ráðstafanir til þess að vera mættur annars staðar um hálfáttaleytið af því að mér var sagt af starfsmönnum að fundi mundi ljúka um sjöleytið eða hefur þeirri ákvörðun verið breytt? ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. og aðra þingmenn um það að talað var um að fundinum yrði fram haldið til kl. sjö eða hálfátta og nú þegar umræður hafa dregist eins og menn vita og þær standa yfir hefur forseti ákveðið að halda þeim áfram til kl. hálfátta. Samkomulagið var um það.)
    Ég ætla þá lítillega að svara hæstv. iðnrh. Að sjálfsögðu þarf ég að gera það miklu ítarlegar og betur á eftir eða á næsta fundi því að ég er ekki viss um að mér dugi þær 15--20 mínútur sem eftir verða fram að hálfátta til þess að svara því eins og maklegt væri og algerlega skylt er þegar hæstv. ráðherra kemur í ræðustólinn með málflutning af því tagi sem fluttur var áðan. Er ég þá ekki að víkja að þeim ummælum sem féllu að limaburði eða öðru slíku. Hæstv. ráðherra er frjálst að hafa allar sínar skoðanir á því hverjir séu öðrum mönnum tigulegri í göngulagi eða framkomu í ræðustóli eða öðru slíku. En hæstv. ráðherra fór með slíkar falsanir á því máli sem hann réðst að gagnvart mér, þ.e. nýsmíði á ferju fyrir Vestmanneyinga, að því er óhjákvæmilegt að svara og í allítarlegu máli. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst mjög miður að ekki sé unnt að íhuga ósk mína um að fresta umræðunni og halda henni áfram á öðrum fundi því að ég hefði gjarnan viljað draga að mér nokkur gögn þó ekki væri nema til að verja hendur mínar gagnvart þeim málflutningi sem hæstv. iðnrh. hafði uppi áðan. Reyndar er hans eigin málflutningur svo mótsagnakenndur að hann verður nánast hlægilegur, ég segi ekki auðvirðilegur, en hlægilegur er hann alla vega. Í annarri setningunni skammast hæstv. ráðherra yfir því að ég skyldi ekki láta byggja ferju innan lands sem að hefði þurft að borga um 25% hærra verð fyrir. Í hinu orðinu talar hann um hvílík gæfa það hefði verið að koma vitinu fyrir menn svo að þeir færu ekki að niðurgreiða skip í innlenda aðila. Svona er nú málflutningurinn hjá hæstv. iðnrh. Það er ekki nema von að ástandið í innlendum skipasmíðaiðnaði sé ekki gott í höndunum á þessum manni sem fer marga hringi í kringum sjálfan sig í hverri ræðunni hér á fætur annarri.
    Það liggur alveg fyrir að hæstv. iðnrh. hefur nýtt sér ákveðinn stuðning í röðum forsvarsmanna sjávarútvegsins, sem auðvitað hafa áhuga á því að fá ódýr skip, eins ódýr og þeir geta, til þess að gera ekki neitt í málefnum innlends skipasmíðaiðnaðar í mörg ár. Og það er gott og það er vel að hæstv. iðnrh. býður upp á umræður um þetta og ég held að hæstv. iðnrh. eigi að fá þær og ég skora á hv. þm. að þeir dragi nú hvergi af sér að ræða eins og vert er og skylt er stöðuna í íslenskum skipasmíðaiðnaði og frammistöðu hæstv. iðnrh., álráðherrans, í þeim efnum eins og hún hefur verið undanfarin ár. Kannski kemur hæstv. ráðherra þá og upplýsir okkur um það hvað hann hafi gert. Hvað er það sem hæstv. ráðherra hefur gert? Ég man eftir einu í svipinn og það var það að í samstarfi við samgrn. var skipasmíðastöð austur á landi styrkt til þess að hanna og smíða lóðsbát. Það var hið þarfasta og besta mál. En ég held að það sé langstærsta og mesta afrek iðnrh. á þessu sviði og kannski það eina sem hann hefur gert á þeim tíma sem hann hefur verið iðnrh. En eins og ég segi hefur hann afrekað það að fækka störfum í íslenskum skipsmíðaiðnaði á valdatíð sinni um nokkurn veginn jafnmörg og til stóð að þau yrðu í álverinu.
    Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu sætta mig við og verð að beygja mig undir dóm forseta ef hann er staðráðinn í því að keyra þessa umræðu áfram þrátt fyrir óskir um að henni verði frestað vegna þeirra ummæla sem féllu frá hæstv. iðnrh. og eru að mínu mati með ólíkindum svo maður tali nú ekki um orðbragðið af því að ég hefði gjarnan viljað hafa mér til aðstoðar í seinni ræðu minni ýmis gögn varðandi til að mynda þetta nýsmíðaverkefni á ferju fyrir Vestmannaeyjar sem var dregið inn í umræðuna með mjög smekklegum hætti af hæstv. iðnrh. eða hitt þó heldur.