Viðvera ráðherra og tilhögun þinghalds

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:03:00 (1547)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Þetta ástand sem forseti var að lýsa vakti upp hjá mér spurningu um framgang frumvarpa sem þegar hafa verið lögð fram. Ég minni á það að á mánudaginn í síðustu viku var hér útbýtt þskj. 161, frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu sem átta þingmenn úr öllum flokkum flytja og 1. flm. óskaði sérstaklega eftir því að þetta mál yrði tekið á dagskrá í síðustu viku. Enn fremur kemur fram í grg. með frv. að flm. vonist til þess að Alþingi beri gæfu til að samþykkja þetta frv. fyrir áramót. Nú er síðasta vika liðin og hálf þessi án þess að ég hafi séð að þetta mál hafi komið á dagskrá og ég spyr hæstv. forseta: Hvenær er þess að vænta að það verði tekið inn á dagskrá þingsins? Ég tel að það sé afar brýnt að þetta mál fái góða og skjóta meðferð í þinginu.