Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:24:01 (1562)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :

     Virðulegi forseti. Í framhaldi af kjarasamningum árið 1969 og stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélagnna í ársbyrjun 1970 voru sett lög um eftirlaun til aldraðra félaga í verkalýðsfélögum. Tilgangurinn með þessum lögum var að veita eldri félögum verkalýðsfélaganna réttindi umfram það sem iðgjaldagreiðslutími gat gefið tilefni til þar sem lítið var eftir af starfsævi þeirra eða henni jafnvel lokið. Samkvæmt fyrirheiti ríkisstjórnarinnar við samningana 1969 skyldu útgjöld vegna þessara viðbótarréttinda næstu 15 árin borin af Atvinnuleysistryggingasjóði að 3 / 4 hlutum og ríkissjóði að 1 / 4 hluta en síðan tækju hlutaðeigandi lífeyrissjóðir við enda yrði þá farið að draga verulega úr útgjöldum vegna þessara ráðstafana. Var gert ráð fyrir að lögin féllu úr gildi í árslok 1984. Réttindi samkvæmt lögunum voru takmörkuð við verkalýðsfélög í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
    Í tengslum við gerð kjarasamninga í júní 1977 gaf ríkisstjórnin m.a. fyrirheit um að samtals skyldu tillögur sem tryggðu öllum landsmönnum svipaðan rétt og lögin um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum veittu félagsmönnum þeirra fram til þess að nýskipan lífeyriskerfisins tæki gildi. Á grundvelli þessarar yfirlýsingar var undirbúið frv. til laga um eftirlaun til aldraðra sem síðar varð að lögum nr. 97/1979.
    Við setningu laganna 1979 var gert ráð fyrir að eftirlaunagreiðslur samkvæmt þeim féllu niður í árslok 1984. Þegar þar að kom þótti ekki koma til greina að eftirlaunagreiðslur þessar féllu niður án frekari ráðstafana af hálfu stjórnvalda. Ákvæðin voru því framlengd til 1. jan. 1990. Þegar að því dró var enn hið sama uppi á tengingnum. Í tengslum við lausn kjarasamninga í apríl 1989 gaf ríkisstjórnin því fyrirheit um að lögin um eftirlaun til aldraðra yrðu enn framlengd. Var umsjónarnefnd eftirlauna falið að kanna málið.
    Umsjónarnefndin taldi þrjá kosti koma til greina um framlengingu laganna:
    1. Að framlengja enn um sinn gildandi lög í meginatriðum óbreytt að öðru leyti en því hvað snertir iðgjaldshlutfall lífeyrissjóðanna til þessa lífeyriskerfis.
    2. Að framlengja greiðslur með yfirtöku hins opinbera á þeim.
    3. Að framlengja greiðslur samkvæmt lögunum en breyta kostnaðarskiptingu milli lífeyrissjóða annars vegar og hins opinbera hins vegar.
    Umsjónarnefndin taldi síðasta kostinn álitlegastan. Niðurstaða þáv. ríkisstjórnar var sú að framlengja bæri lögin næstu tvö árin, þ.e. árið 1990 og 1991, með þeim hætti að lögin héldust í meginatriðum óbreytt en iðgjaldshlutfall lífeyrissjóðanna lækkaði. Lagabreyting í þessa veru var samþykkt í árslok 1989.
    Í greinargerð með frv. frá 1989 var því lýst yfir að lögin um eftirlaun til aldraðra yrðu tekin til endurskoðunar í tengslum við heildarendurskoðun málefna lífeyrissjóða og með hliðsjón af fyrrnefndum tillögum umsjónarnefndarinnar. Heilbr.- og trmrn. fól síðan umsjónarnefnd eftirlauna að undirbúa frv. í samræmi við tillögur nefndarinnar frá árinu 1989 og þá stefnu sem mörkuð var í breytingafrv. frá því ári.
    Frv. það sem hér er lagt fram er því samið af umsjónarnefndinni. Með frv fylgir ítarleg greinargerð frá nefndinni um eftirlaunagreislur samkvæmt lögunum um eftirlaun til aldraðra ásamt upplýsingum um kostnað og kostnaðarskiptingu. Ég leyfi mér að vísa til þeirra upplýsinga sem þar koma fram sem eru hinar fróðlegustu.
    Frv. þetta byggist eins og fyrr er sagt á því að greiðslum eftirlauna verði fram haldið með breyttri skipan á kostnaði milli lífeyrissjóðanna og hins opinbera. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember 1989. Í frv. þessu er lagt til að eftirlaunagreiðslum samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra verði áfram haldið með þeim hætti að eftirlaunin verði greidd samkvæmt reglugerðum lífeyrissjóða en hið opinbera greiði það sem vantar á full réttindi samkvæmt gildandi lögum. Nánar tiltekið er hér um það að ræða að samkomulagssjóðirnir greiði eigin sjóðfélögum verðtryggðan lífeyri í samræmi við

iðgjaldsgreiðslutíma hvers sjóðfélaga til viðkomandi sjóðs. Hið opinbera greiði hins vegar þann hluta eftirlaunanna sem tryggja átti eftirlaunaþegum enda þótt þeir hefðu ekki greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs. Í framkvæmd yrði þessu þannig hagað að lífeyrir eftirlaunaþega skv. I. kafla laganna yrði úrskurðaður að nýju frá og með 1. jan. 1990 á grundvelli reglugerðar lífeyrissjóða þeirra. Þessi lífeyrir yrði verðtryggður af lífeyrissjóðunum á grundvelli reglugerða þeirra eða bráðabirgðaákvæða í þeim. Umsjónarnefnd eftirlauna mundi jafnframt úrskurða viðbótarlífeyri til þessa fólks þannig að það bæri hið sama úr býtum og núgildandi lög kveða á um. Þessi viðbótarlífeyrir héldist síðan óbreyttur í hlutfalli við grundvallarlaun.
    Með þessu ynnist ýmislegt. Í fyrsta lagi væri komið á rökréttari kostnaðarskiptingu en nú er þar sem hver sjóður verður ábyrgur fyrir greiðslu eftirlauna sem svarar til iðgjaldsgreiðslna hvers lífeyrisþega til viðkomandi sjóðs. Hið opinbera greiðir hins vegar það sem ætlunin hefur verið að færa þessu fólki af því að það var þegar svo við aldur við stofnun lífeyrissjóðanna að því gafst ekki tækifæri til að ávinna sér umtalsverð réttindi með iðgjaldagreiðslum til sjóðanna.
    Í annan stað fengist með þessu sá ávinningur að lífeyrissjóðir geta gert betur við þessa skjólstæðinga sína en þeir gera nú án þess að greiðslur hins opinbera skerðist. Þessi skerðing hefur sætt gagnrýni af hálfu lífeyrissjóðanna.
    Í þriðja lagi verður þetta kerfi einfaldara í sniðum og rekstri en núverandi tilhögun. Eins og nú er háttað þarf á hverju ári að áætla iðgjaldstekjur lífeyrissjóðanna, framlög þeirra til hins sameiginlega sjóðs og greiðslur til þeirra úr honum. Þessa áætlun þarf svo að endurskoða í ljósi launabreytinga. Þegar ársreikningar lífeyrissjóðanna liggja fyrir þarf loks að innheimta þá og ákvarða endanleg framlög þeirra og greiðslur. Kostnaðarskipting er því ekki ljós fyrr en u.þ.b. hálfu ári eftir lok þess árs sem framlög og greiðslur tóku til. Væri kostnaðarskiptingunni breytt eins og hér er lagt til þá verður sú breyting endanleg. Verkefni umsjónarnefndarinnar yrði þá að úrskurða viðbótarlífeyri að nýju og í eitt skipti fyrir öll í upphafi, úrskurða lífeyri nýrra eftirlaunaþega sem yrðu nær eingöngu makalífeyrisþegar og breyta grundvallarlaunum þeim sem eftirlaunin miðast við. Loks væri með þessum breytingum staðið við það fyrirheit að hætt yrði að krefja lífeyrissjóði um sérstakt framlag til að standa undir eftirlaunum annarra en eigin sjóðsfélaga.
    Verði frv. þetta að lögum er fátt því til fyrirstöðu að eftirlaun samkvæmt þeim verði greidd allt þar til síðasti eftirlaunaþeginn, sem rétt á samkvæmt þeim, er allur. Í stað þess að hafa lögin ótímabundin þykir engu að síður skynsamlegra að þau komi til endurskoðunar að nokkrum árum liðnum, m.a. í ljósi þeirra viðhorfa í lífeyrismálum sem þá munu gilda. Hér er því lagt til að eftirlaunagreiðslur samkvæmt lögunum falli úr gildi eftir fimm ár.
    Kostnaðaráætlunin sem frv. fylgir sýnir að framlög Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs verða nokkuð lægri samkvæmt breyttum reglum. Í heild er gert ráð fyrir að kostnaður af eftirlaunum samkvæmt frv. nemi 738 millj. kr. á ári 1992. Þar af greiði Atvinnuleysistryggingasjóður 355 millj. kr., ríkissjóður 130 millj. kr., Jöfnunarsjóður sveitarfélaga 28 millj. kr. og lífeyrissjóðirnir 225 millj. kr.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og nánari umfjöllunar heilbr.- og trn. og ég á ekki von á öðru en það geti orðið sæmileg samstaða um þetta frv. Mér skilst að það sé almennur stuðningur við það meðal lífeyrissjóða og vænti þess að einnig verði almennur stuðningur við þetta frv. hér á hinu háa Alþingi þannig að unnt sé að halda þannig á málum að frv. geti orðið að lögum með gildistíma frá og með 1. jan. nk.