Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:48:00 (1567)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Þetta var nú heldur dapurt. Í fyrsta lagi varðandi fyrra atriðið um reikningsforsendur framlaga í Atvinnuleysistryggingasjóð, þá var það nú einfaldlega það sem ég lagði áherslu á að þær væru bersýnilega mismunandi og menn þyrftu að skoða þær rækilega í nefndinni. Það hleypur á 50 millj. sem í þessu tilviki gæti verið hagstætt fyrir ríkissjóð en gæti líka farið á hinn veginn við nánari skoðun málsins. Það er greinilegt að skoða verður þær forsendur. Hitt er mikið verra að hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti því yfir hér núna að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að skera niður atvinnuleysisbætur ef atvinnuleysi verður meira á næsta ári heldur en horfur eru á þegar fjárlagafrv. er samið. Það er sem sagt verið að lýsa því yfir að það eigi að skera niður atvinnuleysisbætur á næsta ári. Það á að breyta atvinnuleysisbótum á næsta ári og það var hægt að kreista það út úr hæstv. ráðherra í þriðju ræðu sem hann flytur í þessu mikilvæga máli en það er ómögulegt að skilja hann öðruvísi en að það standi til að taka niður atvinnuleysisbætur.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég sé mjög eftir því að ég hélt langa hólræðu um virðulegan ráðherra hér áðan. Greinilegt er að það var ekkert tilefni til hennar vegna þess að ráðherrann ætlar að sjálfsögðu að haga sér í þessum atvinnuleysistryggingamálum eins og hann hefur hagað sér í öðrum réttinda- og tryggingamálum launafólks í seinni tíð. Þetta krefst þess að hér verði fljótlega talsverðar umræður um Atvinnuleysistryggingasjóð og þá undir öðrum formerkjum.