Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:54:00 (1571)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa endurskoðað afstöðu sína með drengilegum hætti að fresta ekki umræðunni. Í gær fór hér fram málefnaleg umræða um málefni sjávarútvegs og var þinginu til sóma, skynsamleg og gagnleg. Síðan gerðist það undir lok þeirrar umræðu að fyrst kom formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og síðan hæstv. iðnrh. og jós þannig úr skálum reiði sinnar og fór með svívirðingar í garð einstakra þingmanna að þingið leystist upp og hin góða málefnalega umræða var skemmd af forustu Alþfl. hér síðdegis í gær.
    Það sama gerist aftur í dag. Hv. þm. Svavar Gestsson tekur jákvætt og málefnalega á því stjfrv. sem verið er að mæla fyrir, fer jákvæðum orðum um hæstv. heilbrrh. í þessum efnum og heitir velvilja gagnvart þessu frv. og umræðan er stutt og eins og hæstv. forseti greinilega taldi væri henni senn lokið.
    En hvað gerist þá? Þegar hv. þm. Svavar Gestsson hnýtur eðlilega um setningar í máli hæstv. ráðherra varðandi skerðingu atvinnuleysisbóta svarar hæstv. ráðherra því ekki málefnalega og efnislega heldur kýs að koma upp með ávirðingar, skæting og dónaskap í garð hv. þm. Svavars Gestssonar. Það var ekkert tilefni til þess hjá hæstv. ráðherra Sighvati Björgvinssyni að ausa sér yfir hv. þm. Svavar Gestsson og segja að það væri eðlilegt að hann fylgdist ekki með, læsi ekki fjárlagafrv. og ég veit ekki hvað og hvað, svaraði síðan engu (Gripið fram í.) því sem spurt var um. Ég velti því fyrir mér í gærkvöldi hver væri skýringin á þessari vanstillingu Alþfl. Hver er skýringin á því að alþýðuflokksforustan, formaður þingflokksins og iðnrh., spilla hér málefnalegri umræðu í gær? Og hver er ástæðan fyrir því að hæstv. heilbrrh. getur ekki einu sinni tekið þátt í umræðu þar sem honum er hælt án þess að spilla henni? Jú, skýringin er hér.
    Í dag birtist viðtal við formann Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, undir forsíðuheitinu ,,Ástríður Jóns Baldvins, ólga í Alþýðuflokknum`` og undir aðalheitinu: ,,Ólík andlit Jóns Baldvins.`` ( Forseti: Forseta finnst nú hv. þm. aðeins fara út fyrir ramma þess máls sem er á dagskrá ef hann vildi aðeins halda sig við frv. sem er um eftirlaun til aldraðra.) Já, virðulegi forseti. Það kann nú svo að fara, eftir að fleiri hafa lesið þetta viðtal við formann Alþfl., hafi þeir enn meiri áhuga á eftirlaunum aldraðra. En það er hins vegar misskilningur hjá hæstv. forseta að þetta viðtal eigi ekki erindi í ræðustólinn á Alþingi sem skýringarþáttur á því sem segir á forsíðu: ,,Ólga í Alþýðuflokknum.`` Ég vil bara til fróðleiks lesa hvað hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., segir um hæstv. félmrh., varaformann Alþfl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef Jóhanna væri karlmaður, . . .  , væri búið að reka hana úr flokknum fyrir löngu, a.m.k. úr þingflokknum; fyrir frekju og yfirgang. Fyrir tillitsleysi gagnvart samstarfsaðilum og einsýni. En ef tillaga um slíkt hefði verið borin upp, hefði ég einn manna greitt atkvæði gegn henni.``
    Hæstv. utanrrh. lýsir því sem sagt yfir að hann sé eini maðurinn í þingflokki Alþfl. sem sé tilbúinn að greiða atkvæði með ráðherradómi hæstv. félmrh. Hins vegar segir hæstv. utanrrh. um núv. heilbrrh. að hann sé ( Forseti: Vill ekki hv. þm. halda sig við frv. sem er hér á dagskrá?) --- já, ég er að koma að því, virðulegi forseti, --- að hann sé

skjótur til ákvarðana og geiglaus.
    Það er margt fleira í þessu viðtali. M.a. segir hæstv. utanrrh., virðulegi forseti, með leyfi forseta: ,,Mér hefur alltaf leiðst á þingi`` --- og vildi ég óska eftir að náð sé í hæstv. forsrh. ,,Mér hefur alltaf leiðst á þingi,`` segir hæstv. utanrrh. ,,Ég verð að segja það eins og er . . . `` ( Forseti: Þessi grein í Mannlífi er bara ekki á dagskrá hér, hv. þm. Það er frv. um eftirlaun aldraðra.) Já, ég þakka hæstv. forseta fyrir þá ábendingu. En hæstv. forseti verður bara að þola það að opinber viðtöl við formann Alþfl., hæstv. utanrrh., séu tekin hér á dagskrá. Hæstv. forseti getur ekki bannað þingmönnum málfrelsi til þess að víkja að einstæðum yfirlýsingum hæstv. utanrrh. Og fyrst hæstv. utanrrh. kýs að gera tímaritið Mannlíf að vettvangi afdráttarlausustu yfirlýsinga sem hann hefur sett fram á sl. mánuðum, þá getur hæstv. forseti ekki meinað okkur hinum að vitna í þetta tímarit.
    Sérstaklega vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því hvað hæstv. utanrrh. segir um Alþingi Íslendinga. Hæstv. utanrrh. segir í þessu viðtali um Alþingi Íslendinga: ,,Mér hefur alltaf leiðst á þingi. Ég verð að segja það eins og er, að mér finnst Alþingi Íslendinga gjalda þess hversu illa störf þess eru skipulögð.`` Þetta er nú dómur utanrrh. um forsetadæmið hér á Alþingi. ,,Þingsköp og hefðir á Alþingi eru meira í ætt við málfundaklúbb í gagnfræðaskóla en alvarlega þjóðarsamkundu.`` Er greinilegt að hæstv. forsrh. hefur farið í smiðju hjá hæstv. utanrrh. ( Forseti: Forseti beinir þeim eindregnu óskum til hv. þm. að hann haldi sig við dagskrármálið. Þetta mál er ekki á dagskrá núna. Það er frv. um eftirlaun aldraðra.)
    Já, virðulegi forseti. Ég skal taka tillit til þess að hæstv. forseti hefur greinilega ekki mikinn áhuga á því að ummæli hæstv. utanrrh. séu tekin til meðferðar. Ég vil hins vegar í mjög mikilli vinsemd við forseta vekja athygli á því að það er afar hættuleg braut fyrir forseta að gerast dómari í því hvað hv. þm. mega segja hér í ræðustólnum þegar þeir hafa ekki tekið lengri tíma en ég hef gert hér í umræðum um þetta frv. Ég hef talað í tæpar 10 mínútur, virðulegi forseti, tæpar 10 mínútur. Það getur enginn forseti sest í dómarasæti yfir því hvað sé eðlilegt að þingmenn segi, enginn. Það er sjálfsákvörðunarréttur þingmannsins hvað hann kýs að segja. En ég hef hins vegar ávallt lagt mikið upp úr því að eiga góða samvinnu við hæstv. forseta og fyrst hún telur óeðlilegt að þetta einstæða viðtal við hæstv. utanrrh., formann Alþfl., sé gert að umræðuefni undir dagskrárliðnum Eftirlaun til aldraðra vil ég spyrja virðulegan forseta undir hvaða dagskrárlið væri eðlilegt að fá að tala um viðtalið vegna þess að það er óhjákvæmilegt að við fáum að tala um þær einstæðu yfirlýsingar sem koma fram hjá hæstv. utanrrh. í þessu viðtali. Gæti ég fengið leiðbeiningar frá forsetaembættinu um það undir hvaða dagskrárlið það væri eðlilegt? ( Forseti: Ef hv. þm. er að bíða eftir svari forseta, þá finnst forseta eðlilegt að 8. þm. Reykn. og forseti ræði það mál þegar hann hefur lokið sinni ræðu um frv. um eftirlaun til aldraðra og það sé tekið utan þingfundar vegna þess að þetta mál er ekki á dagskrá á þessum fundi.) Nei, það er alveg rétt hjá virðulegum forseta, það er ekki á dagskrá. Ég var hins vegar að gera tilraun til þess að leita skýringa á því hvernig stæði á því að ráðherrar Alþfl. væru svo vanstilltir, sem raun ber vitni hér í þingsalnum í gær og í dag, að svara málefnalegum athugasemdum og spurningum þingmanna með hreinum skætingi. Og það var einmitt það sem hæstv. heilbrrh. gerði, að ráðast á hv. þm. Svavar Gestsson með dónaskap og skætingi, þegar þingmaðurinn hafði leyft sér að bera fram spurningu. En ég mun taka til velviljaðrar athugunar þá ábendingu hæstv. forseta að þingheimur fái tækifæri til að ræða ýmislegt í þessu einstæða viðtali við hæstv. utanrrh. sem greinilega virðist hafa tamið sér þá siðvenju forsrh. að láta hinar stóru yfirlýsingar falla utan þings.
    En í þeirri umræðu sem hér fór fram, þá vísaði hæstv. heilbrrh. --- er hann í salnum, virðulegi forseti? ( Forseti: Hæstv. heilbrrh. hefur tjáð forseta að beðið sé eftir honum þar sem hann átti að vera byrjaður á fundi með starfsfólki Landakotsspítala og varð því að yfirgefa fundinn núna.)
    Virðulegi forseti. Þrjár mínútur eru síðan forsetinn meinaði mér að leggja út af þeim orðum sem ég ætlaði mér að leggja út af og taldi að ég ætti að tala um það frv. sem væri á dagskrá. En nú segir hæstv. forseti að hún hafi heimilað ráðherranum sem mælti fyrir frv. að yfirgefa þingið. Og svo ætlast forsetinn til þess að ég haldi áfram ræðu minni þegar ráðherrann, sem mælti fyrir frv. fyrir um það bil hálftíma síðan, getur ekki setið hér í þingsalnum í tæpa klukkustund til þess að taka þátt í umræðum um málið. Hvers konar dónaskapur er þetta við þingið? Er það virkilega þannig að það eigi að fara að taka upp þær siðvenjur hér að ráðherrar leyfi sér að mæla fyrir málum og síðan fari þeir þegar umræðan stendur sem hæst og hæstv. forseti segir bara einfaldlega: Ég hef leyft ráðherranum að fara? Enginn þingmaður tekur þátt í umræðu um mál þegar ráðherrar yfirgefa salinn þegar annar þingmaður sem kveður sér hljóðs um málið hefur beðið um orðið. Aðeins einn þingmaður hefur talað í þessari umræðu, virðulegi forseti, fram að mér. Ef ráðherrann getur ekki skipulagt sinn tíma með þeim hætti að vera hér a.m.k. klukkustund til að hlýða á fleiri en einn þingmann er ástæðulaust að við séum að sýna ríkisstjórninni tillitssemi og samstarfsvilja eins og við höfum gert að undanförnu.
    Þetta er þriðja málið í dag sem ekki er hægt að taka til eðlilegrar umfjöllunar vegna þess að ráðherrar eru fjarverandi eða geta ekki verið í þingsalnum. Þingið er búið að vera meira og minna í strandi síðan atkvæðagreiðslu lauk vegna fjarvista ráðherra. Og svo leyfir forsrh. sér utan þings að halda því fram að það sé sök stjórnarandstöðunnar að ekki sé hægt með eðlilegum hætti að starfa hér í þinginu. Það er hvert stjfrv. á fætur öðru sem er strand vegna þess að ráðherrar sinna ekki einföldustu skyldum sínum. Og hæstv. heilbrrh. skipuleggur tíma sinn með þeim hætti að hann ætlar ekki einu sinni heila klukkustund til þess að við getum rætt við hann um þetta frv.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hlé á ræðu minni og vona að forsetinn leyfi mér það fyrst forsetinn hefur leyft heilbrrh., sem mælir fyrir frv., að yfirgefa þingsalinn. Síðan fái ég orðið aftur á nýjan leik til að halda áfram ræðu minni þegar heilbrrh. hefur tíma til þess að vera a.m.k. eina klukkustund í þingsalnum til þess að taka þátt í málefnalegum umræðum við þingmenn um sitt eigið frv. Ég vil þess vegna spyrja virðulegan forseta hvort hún leyfir mér að gera hlé á ræðu minni og fresta þar með umræðunni þangað til hæstv. heilbrrh. er kominn í þingsalnum.