Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:10:02 (1572)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist eftir það sem gerðist hér á meðan á ræðu hv. 8. þm. Reykn. stóð þar sem við heyrðum það frá hæstv. forseta að hún taldi að ræðumaðurinn væri að fjalla um dagskrármálið á annan hátt heldur en hæstv. forseta var þóknanlegt. Ég hlýt að vekja athygli á því að það sem gerðist við þessa umræðu á meðan á ræðu hv. þm. stóð er fátítt hér í þingsölum ef ekki einsdæmi.
    Ég minnist þess ekki að forseti Alþingis og forsetar deilda þingsins og sameinaðs þings með hinni eldri skipan, hafi blandað sér í ræðu þingmanns sem fengið hefur orðið

með þeim hætti sem hæstv. forseti gerði hér áðan. Ég held að þetta kalli á það að hæstv. forseti geri þingheimi þegar grein fyrir því í krafti hvaða ákvæða þingskapa gripið er inn í umræðu með þessum hætti og við hverju við megum búast hér í þinginu ef hæstv. forseti ætlar að fara að taka efnislega afstöðu til þess sem þingmenn eru að flytja úr ræðustóli í tengslum við dagskrármál.
    Ég heyrði ekki annað en hv. ræðumaður flytti hér mál sitt með þeim hætti að það tengdist því máli sem um var að ræða og það er mjög langt gengið ef forseti þingsins ætlar að fara að hlutast til um það hvernig menn haga máli sínu í einstökum tilvikum. Við þurfum þá greinilega á að halda annarri og skýrari leiðsögn heldur en fram hefur komið til þessa, að ég veit, í sambandi við málafylgju hér í þinginu. Þar við bætist tilefni þess að hv. þm. var að ræða málið við ráðherra sem ber það fram við þingið en hæstv. ráðherra er þá á bak og burt. Það ætla ég ekki að gera frekar að umræðuefni, enda hefur umræðunni verið frestað, en ég gat ekki orða bundist vegna þessarar íhlutunar hæstv. forseta í málflutning ræðumanns vegna þess að það kallar sannarlega á að forsetadæmið taki skýrar til orða heldur en fram hefur komið og menn beri það saman við það sem gerst hefur í þingsögunni fyrr og síðar í sambandi við málflutning hér á hv. Alþingi.