Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:13:00 (1573)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum ummælum hv. síðasta ræðumanns. Ég tel að það hafi verið fullkomlega eðlilegt af forseta að benda hv. ræðumanni Ólafi Ragnari Grímssyni, sem hér var að tala um frv. um eftirlaun til aldraðra, á það hvert dagskrárefnið væri og að eitthvert viðtal í einhverju tímariti úti í bæ við hæstv. utanrrh., sem þar að auki hefur hér fjarvistarleyfi, komi því máli ekkert við. Ég tel að forseti hafi haft fullt leyfi til þess að gera þá ábendingu, fullt leyfi, en hann var auðvitað ekki að taka orðið af ræðumanni, það var fjarri því. Og ég verð að bæta því við, vegna þess að ég sé að hv. formaður Alþb. hefur kvatt sér hljóðs enn á ný um þingsköp, að ég tel að það sé komið nóg af skrípaleiknum hjá honum í dag.
    Hann krefst þess að utanrrh., sem hefur fjarvistarleyfi, verði viðstaddur umræðu um mál sem er ekkert á hans verksviði, mál sem er um það hvað eigi að gera við Framkvæmdasjóð í dag en ekki hvernig Framkvæmdasjóður var fyrir fjórum árum þegar sá ráðherra var fjmrh. Þannig hefur þetta gengið í þessum umræðum í dag og mál er að þessu linni og að skrípaleiknum, sem Alþb. hefur haldið uppi um þingsköp í dag, linni og þingið geti tekið til við sín löggjafarstörf.