Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:15:00 (1574)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Forusta Sjálfstfl. ætlar greinilega ekki að gera forseta þingsins, Salome Þorkelsdóttur, starfið auðvelt. Ég sé að hæstv. forsrh. kinkar kolli og hlær. Það er kannski ákveðin merking í þeim höfuðhreyfingum.
    Ég vil segja það við hv. þm. Geir Haarde, formann þingflokks Sjálfstfl., að það er afar ósmekklegt og óskynsamlegt af honum að koma hér upp í þessari umræðu áður en forsetinn hefur tjáð sig um það sem þingmenn hafa sagt og stilla forsetanum þannig upp að annaðhvort verði forsetinn að úrskurða og tala gegn formanni þingflokks Sjálfstfl. eða þá að bregðast skyldum sínum sem forseti með því annaðhvort að tala ekki eða tala með formanni þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Geir Haarde. Þetta er satt að segja afar óskynsamleg afstaða, sérstaklega í ljósi þess sem gerst hefur áður hér á þessu þingi að forusta Sjálfstfl. skuli ávallt kjósa það að koma upp í ræðustólinn og gefa forseta þingsins línuna um það hvað sé rétt og hvað rangt. Ég tel að við höfum sýnt það og sannað, hv. þm. Geir Haarde, að bæði Alþb. og Framsfl. og stjórnarandstaðan í heild sinni er fyllilega reiðubúin til

þess að láta mál ganga hér fram með eðlilegum hætti. En við getum hins vegar ekki orða bundist þegar það kemur í ljós hvað eftir annað hversu erfitt það er --- vegna þess að hæstv. ráðherrar eru fjarverandi. Það er ekkert óeðlilegt við það í ljósi þeirra yfirlýsinga, sem hæstv. forsrh. hefur látið frá sér fara, m.a. í stefnuræðu sinni um málefni Framkvæmdasjóðs á undanförnum árum, að ég óski eftir því að hæstv. utanrrh., sem ásamt mér og þremur öðrum mönnum hefur borið ábyrgð á þessum sjóði á því tímabili sem hæstv. forsrh. er að gagnrýna, verði viðstaddur umræðuna. Það eru mörg fordæmi í þingsögunni fyrir því að ráðherrar sem gegnt hafa embættum séu beðnir um að vera viðstaddir umræðu um mál sem heyra undir þeirra embættistíð. Það er satt að segja furðulegt að þurfa að standa í ræðustólnum margoft í dag til þess að réttlæta svo eðlilega ósk. Það var ekki ætlun mín að tefja fyrir umræðum um þetta frv. en ég hlýt að nota rétt minn til þess að segja um það nokkur orð.
    Sú ræða sem hv. þm. Geir Haarde flutti um það hvað hefði verið eðlilegt og hvað ekki í málflutningi mínum gefur auðvitað tilefni til þess að ég eigi sérstakar viðræður við forseta þingsins um það hvernig þessu verður haldið áfram. Því að málið er auðvitað orðið miklum mun alvarlegra þegar formaður þingflokks Sjálfstfl. kemur hér upp í ræðustól og fer að gefa yfirlýsingar um það hvað forsetinn megi og megi ekki leyfa í málflutningi einstakra þingmanna. Ég eyddi fáeinum mínútum, virðulegi þm., til að reyna að leita skýringa á því hvers vegna ráðherrar Alþfl., hæstv. iðnrh. og hæstv. heilbrrh., hafa verið svo vanstilltir síðasta sólarhring hér í þingsalnum að þeir hafa spillt umræðum hvað eftir annað. Eina skýringin sem ég gat fundið voru þeir dómar formanns Alþfl. um samráðherra sína og flokksmenn sem birtast í þessu viðtali í dag. Það má vel vera að sú skýring sé röng en það var eina skýringin sem ég gat fundið á þessari vanstillingu. En þegar búið er að teygja þá umræðu inn í það að forseti þingsins eigi að hafa heimild til þess að ákveða hvað þingmenn megi segja og megi ekki segja í stuttum ræðum sínum, á fyrstu mínútum sinnar ræðu um mál, er auðvitað verið að skapa fordæmi sem er stórhættulegt.
    Það er alveg greinilegt að forusta þingflokks Sjálfstfl. ætlar með þvingunum að fara að innleiða þá skoðanakúgunarsiði að þeir ráði, hv. þm. Geir Haarde og aðrir í forustu þingflokks Sjálfstfl., hvað má segja og hvað má ekki segja hér í ræðustólnum. Ég vil þess vegna beina því til hv. þm. Geirs Haarde að hann dragi orð sín til baka til þess að það geti greitt hér fyrir framgangi mála í dag, ella getur verið full ástæða til þess að óska eftir hléi á þingfundum svo að við getum rætt þann einstæða yfirgang í forustu Sjálfstfl. sem er í uppsiglingu.