Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:20:00 (1575)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegur forseti. Það er álitamál hvort ég eigi að tala um gæslu þingskapa eða bera af mér sakir vegna orða hv. þingflokksformanns Sjálfstfl. Ég vil geta þess sem honum á að vera fullkunnugt um að þegar hlé var á þingstörfum um nokkurra mínútna skeið fyrr í dag fór ég upp og óskaði svara hjá forseta um framgang frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu. Mér þykir nokkuð hart ef það fær þann dóm hjá þingflokksformanni Sjálfstfl. að vera skrípaleikur að spyrja eftir því. Ástæða væri til þess að þjóðin vissi að það er afstaða þingflokksformanns Sjálfstfl. að það sé skrípaleikur að hafa áhuga á framgangi frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu.
    Ég vil svo líka bæta því við að mér þykir sem ýmsir stjórnarliðar séu nokkuð orðhvatir í sínum ræðum og ég bendi hv. þm. Geir H. Haarde á formann Sjálfstfl. sem kemur varla upp í ræðustól öðruvísi en vera með ávirðingar og ásakanir á hendur formanns Alþb. og jafnvel ráðherra í fyrrv. ríkisstjórn. Ég bendi honum líka á það hvernig þingstörf gengu fyrir sig undir lok þingfundar í gær og hvernig þáv. þingforseti tók á málinu.

Þvílíka fundarstjórn hef ég ekki séð hér fyrr í þingsölum og ég hef í raun ekki séð hana á öðrum vettvangi sem ég hef starfað á í stjórnmálum. Það var fundarstjórn með þvílíkum fádæmum að það var vítavert að mínu mati.