Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:26:00 (1578)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði vænst þess að forsetinn mundi svara hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni vegna þess sem hann setti fram hér áðan. Ég tel það mjög miður að forsetinn hefur ekki gert það og hefur kosið að láta ræðu formanns þingflokks Sjálstfl. vera það svar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fékk við sinni ræðu. Það rennir því miður stoðum undir þann möguleika að hér eigi að taka upp þann sið í þingsalnum að þegar einstakir þingmenn beina orðum sínum til forseta um athugasemdir varðandi þingsköp rísi upp formaður þingflokks Sjálfstfl. og ráðist á þingmenn og svari því hvað sé rétt og hvað sé rangt, hvað sé eðlilegt og hvað sé óeðlilegt eins og dómari, það gerði hv. þm. Geir Haarde áðan, og síðan segi forsetinn ekki orð og ljúki umræðunni með þeim hætti að eftir stendur að hv. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl., hefur svarað fyrir forsetaembættið. Þetta er satt að segja óvenjuleg staða, virðulegi forseti. Ég hef kosið að eiga við forsetann mjög góða samvinnu og virði hana mjög og skil satt að segja ekki hvað er að gerast hér í dag, á mjög erfitt með að skilja það, hvort það sé virkilega verið að skapa hér fordæmi eða hvort þetta er klaufaskapur. Og mér væri næst að óska eftir því við virðulegan forseta að gert yrði örstutt hlé svo að við hefðum tækifæri til þess að ræða það utan funda hvað hér er eiginlega á seyði. Er verið vitandi vits að taka upp þessi nýju vinnubrögð að formaður þingflokks Sjálfstfl. sé til svara og felli dóma um það hvað þingmenn megi og megi ekki og forsetaembættið sé búið að draga sig í hlé? Ég vil þess vegna óska eftir því, virðulegi forseti, að forsetinn tjái sig um þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, annaðhvort strax eða þá að gert verði stutt fundarhlé til að forsetinn geti undirbúið svar sitt.