Verndun Stýrimannaskólans

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:39:00 (1589)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir fsp. vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að vekja athygli á því hvernig komið er fyrir þessari merku byggingu sem er Stýrimannaskólinn við Öldugötu. Varla verður annað sagt en að hann sé nánast að grotna niður þar sem hann stendur nú eftir að hlutverki hans lauk sem skólabyggingu.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því að fyrirspurnin beinist að því hvort húsafriðunarnefnd hafi viðgerð á skólanum á forgangslista við sjóðsúthlutun á næsta ári eða hvort menntmrh. hyggist beita sér fyrir því. Ég get tekið undir þau orð menntmrh. að það sé ekki eðlilegt að ráðuneytið sé að hlutast til um úthlutun úr sjóðnum heldur er þar sjálfstæð sjóðstjórn sem hlýtur að láta þau verkefni hafa forgang sem hún telur brýnust og mikilvægust. Þá vil ég líka benda á að í hinum svokallaða bandormi, sem liggur fyrir þingi, er gert ráð fyrir verulegri skerðingu á framlagi til húsafriðunarsjóðs. Mig minnir að sú skerðing nemi af ríkisins hálfu um 24,5 millj. og að öllum líkindum mun framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða skert jafnmikið.
    Ég tel ekki eðlilegt, svo það komi skýrt fram, að húsafriðunarsjóður sé í sjálfu sér að styrkja byggingar á vegum ríkisins heldur eigi það að koma sem sjálfstæð fjárframlög á fjárlögum hverju sinni. Ég get því tekið undir orð ráðherra að ekki sé eðlilegt að svona verði að málum staðið.