Fæðingarorlof

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:44:00 (1592)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Fyrri fsp. hv. þm. hljóðar svo:
    ,,Hvaða afgreiðslu hefur frv. um fæðingarorlof (þskj. 673 á 113. löggjafarþingi) hlotið, en því var vísað til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 1991?``
    Svar við spurningunni er að fæðingarorlofsmálin eru nú til sérstakrar skoðunar í heilbr.- og trmrn., m.a. út frá því sjónarmiði að auka jafnstöðu kvenna í réttindatöku til fæðingarorlofs án tillits til þess hver er atvinnuveitandi þeirra. Um það er því nær fullbúið frv. til í ráðuneytinu og er frá tíð fyrrv. heilbrrh. Þau frumvarpsdrög ásamt frv. því, sem hv. þm. spyr um, eru nú til sérstakrar skoðunar m.a. í tengslum við fjárlagagerðina. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin enn um næstu skref í fæðingarorlofsmálum að öðru leyti en því að ég reikna með að leggja fram nýtt frv. um fæðingarorlof á Alþingi þó ekki sé víst að það frv. komi fram fyrir áramót. Áður en það verður gert þarf m.a. að ræða málið við aðila vinnumarkaðarins o.fl.
    Seinni spurningin er: ,,Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við dómi bæjarþings Reykjavíkur frá 21. des. 1990 í máli er snerist um fæðingarorlofsgreiðslur og Tryggingastofnun ríkisins tapaði?`` Svar mitt er: Tryggingastofnun ríkisins hefur þegar ákveðið að áfrýja umræddum dómi til Hæstaréttar. Við munum að líkindum bíða eftir úrskurði Hæstaréttar. Í framhaldi af þeim úrskurði verða menn að taka niðurstöðuna til skoðunar varðandi þá endurskoðun sem fram þarf að fara á fæðingarorlofsmálunum.