Fæðingarorlof

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:49:00 (1595)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegur forseti. Það á satt að segja ekki að koma neinum hv. þm. á óvart að talin sé ástæða til þess að endurskoða lögin um fæðingarorlof. Ástæðan er m.a. sú eins og kom fram í máli hv. þm. sem talaði síðast að um talsvert mismunandi réttindi er að ræða eftir því hver er vinnuveitandi viðkomandi konu. Það er að sjálfsögðu rétt að reyna að samræma þau réttindi sem samfélagið býður þegnum sínum þannig að þau séu svipuð í málum sem þessum án tillits til þess hver vinnuveitandinn er.
    Þetta var ástæða fyrir því að fyrrv. ráðherra skipaði nefnd til að endurskoða frv. Sú nefnd skilaði af sér í apríl árið 1990. Þannig kemur mér mjög á óvart að menn skuli ekki hafa vitað af því og þá ekki síst stuðningsmenn fyrrv. ríkisstjórnar að sú endurskoðun var í undirbúningi af hennar hálfu. En það hefur ýmislegt gerst síðan sem gerir það að verkum að það frv. sem skilað var í apríl 1991 á ekki lengur við, m.a. vegna áhrifa af þeim dómi sem bæjarþing Reykjavíkur kvað upp og var minnst á áðan. Þannig þurfa menn að skoða það mál að nýju. Í því sambandi er einnig til skoðunar frv. það sem var á þskj. 673 og var vísað til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 1991.
    Ég viðurkenni það hins vegar að við í heilbrrn. erum í nokkrum vanda vegna þess að það eru kannski ekki bestu starfshættir þegar mál bíður úrskurðar Hæstaréttar að bíða ekki eftir úrskurðinum áður en menn leggja fram frv. til lagabreytinga er varðar það mál sem Hæstiréttur Íslands er með til umfjöllunar og á eftir að fella úrskurð um. Hins vegar er mér líka ljóst að nauðsynlegt er að hraða þessari endurskoðun svo þess vegna gæti vel verið að ég tæki þá afstöðu að bíða ekki eftir úrskurði Hæstaréttar þó að það sé mjög óæskilegt að löggjafinn sé að breyta lögum á sama tíma og æðsta dómsvald í landinu er að undirbúa sig undir að fella úrskurð í því málefni. Ég vil ekkert útiloka að svo verði, en ég við biðja þingmenn að gæta þess að þarna er rétt að menn fari sér hægt og skoði vel sín mál áður en slíkar lagabreytingar yrðu lagðar fyrir Alþingi án þess að Hæstiréttur hafi áður fellt sinn úrskurð. Og einnig ítreka ég að þetta mál þarf að sjálfsögðu að ræðast við aðila vinnumarkaðarins.