Fæðingarorlof

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:52:00 (1596)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Hæstv. forseti. Hér hefur verið boðað að lagt verði fram á Alþingi frv. til laga um fæðingarorlof og er reyndar rétt að minna á í því sambandi að það er ekki í fyrsta sinn sem slíkar hugleiðingar eru á ferðinni á þessum haustdögum því það var jú boðað í því plaggi, sem ríkisstjórnin lagði fyrir sem samningagrundvöll í samningaviðræðum við opinbera starfsmenn, að þau mál yrðu tekin til endurskoðunar. Þá lýsti ég þeirri skoðun minni að ég vonaði sannarlega að það þýddi ekki að nú ætti að jafna niður á við því mér virðist það vera stefna ríkisstjórnarinnar í flestum málum, þ.e. að jafna niður á við, að skerða þann rétt sem opinberir starfsmenn hafa til fullra launa í fæðingarorlofi og færa hann til samræmis við þær bætur sem Tryggingastofnun greiðir nú í fæðingarorlofi. Mín skoðun er sú að engin kona eigi að missa laun við það að fara í fæðingarorlof ekki frekar en fólk missir laun við það að fara í orlof að sumri til. Ég vona sannarlega að það verði haft að leiðarljósi í þessari frumvarpssmíð.