Eyðnipróf

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:54:00 (1597)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Í Stúdentafréttum Háskóla Íslands, sem nýlega komu út, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjöldi erlendra stúdenta við Háskólann hefur þurft að gangast undir eyðnipróf til að fá heilbrigðisvottorð. En því þurfa allir útlendingar að framvísa þegar sótt er um dvalarleyfi hér á landi að undanskildum Norðurlandabúum. Þeir stúdentar sem leitað hafa til Heilsugæslustöð[var] miðbæjar hafa nær undantekningalaust þurft að fara í eyðnipróf og í mörgum tilvikum hefur eyðniprófið verið framkvæmt án vitneskju þeirra.`` --- Þá segir enn fremur: ,,Hjá Útlendingaeftirlitinu fengust þær upplýsingar að allir útlendingar sem sækja hér um dvalarleyfi þurfi að fá heilbrigðisvottorð nema fólk frá Norðurlöndunum. Útlendingaeftirlitið geri hins vegar ekki kröfu um hvað fram eigi að koma á vottorðinu, það sé í verkahring landlæknisembættisins.``
    Síðan er viðtal við tvo stúdenta sem uppgötvuðu að þeir höfðu verið eyðniprófaðir án þess að þeir hefðu hugmynd um. Annar þeirra, sem mér sýnist vera Hollendingur enda heitir hann Koes A. De. Beer, segist hafa verið sendur í blóðpróf en ekki gert sér grein fyrir eyðniprófinu fyrr en miði var settur á blóðsýnið sem þýddi að blóðið gæti borið HIV-veiruna. Fyrr hafi hann ekki haft vitneskju um eyðniprófið, merkinguna segist hann hafa þekkt vegna vinnu á spítala í Svíþjóð. Ingrid D. Kuhlman var sagt að fara í eyðnipróf en síðan þegar hún fór í Útlendingaeftirlitið til að fá dvalarleyfi var hún ekki beðin um neitt læknisvottorð eða heilbrigðisvottorð.
    Mér sýnist þessi mál vera æði sérkennileg og hef því lagt fram fsp. á þskj. 169 sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hvaða erlendir menn eru eyðniprófaðir við komu til Íslands?
    2. Hver tekur um það ákvörðun?
    3. Er heimilt að eyðniprófa fólk án eigin vitundar þess?``