Eyðnipróf

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:56:00 (1598)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :

     Virðulegi forseti. Fyrsta fsp. hv. þm. hljóðar svo: ,,Hvaða erlendir menn eru eyðniprófaðir við komu til Íslands?``
    Heilbr.- og trmrh. er ekki kunnugt um að erlendir menn séu eyðniprófaðir við komu til Íslands. Í þessu sambandi er vitnað til gildandi laga um varnir gegn kynsjúkdómum, nr. 6/1978, með breytingu nr. 7/1986, til sóttvarnalaga, nr. 34/1954, og til farsóttarlaga, nr. 10/1958. Ráðherra lítur svo á að ekki séu lagaheimildir til að krefjast þess að erlendir menn séu yfirleitt eyðniprófaðir við komu sína til Íslands.
    Spurning tvö: ,,Hver tekur um það ákvörðun?`` Með vísun til þess svars sem ég hef þegar gefið þarfnast þessi spurning ekki svars vegna þess að enginn hefur leyfi til þess að taka um slíkt ákvörðun.
    Spurning þrjú: ,,Er heimilt að eyðniprófa fólk án eigin vitundar þess?``
    Svar mitt er að aðalreglan í sambandi við samskipti heilbrigðisþjónustunnar og einstaklinga er að enginn sé þvingaður til neinna rannsókna. Ráðherra lítur því svo á að ekki sé heimilt að eyðniprófa neinn án hans vitundar. Í lögum um varnir gegn kynsjúkdómum er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að eyðniprófa fólk ef grunur leikur á um að viðkomandi sé smitaður og fer þá eyðniprófið að sjálfsögðu fram með fullri vitund þess sem hlut á að máli og þá og því aðeins þá getur verið hægt að framkvæma prófið án samþykkis hans. Út af því sérstaka tilefni sem hv. þm. minntist á er mér kunnugt um að það munu hafa verið heilsugæslulæknar á Heilsugæslustöð miðbæjar sem hafi sjálfir tekið ákvörðun um að láta þetta próf fara fram. Um leið og málið barst til landlæknis sendi landlæknir heilsugæslulæknum bréf þar sem bent var á nákvæmlega það efni sem hefur verið í mínu svari að óheimilt sé að gera slíkt próf án vitunar og samþykkis þess sem prófaður er. En ég tek aftur fram að það mál, þetta tiltekna mál sem hv. þm. spurði um, hefur hvorki borist formlega né óformlega til heilbrrn.