Endurvinnsluiðnaður

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:34:00 (1613)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
     Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur skilningur á þörfinni fyrir endurvinnslu vaxið ört, bæði til að draga úr sívaxandi sóun mannsins á náttúruauðlindum og einnig gífurlegum vanda og kostnað við að koma úrgangi fyrir á viðunandi hátt.
    Alþingi samþykkti 1989 lög um umhverfismengun af völdum einnota umbúða. Í þeim var fjallað um söfnun og endurvinnslu á innfluttum einnota umbúðum og þeirri starfsemi tryggðar tekjur með lögskipuðu gjaldi. Áður höfðu einstaklingar og fyrirtæki farið af stað á eigin spýtur að byggja upp slíka þjóðþrifastarfsemi með ærnum kostnaði. Eitt þeirra fyrirtækja er Silfurtún hf. í Garðabæ sem hefur á síðustu sex árum komið upp framleiðslu á eggjabökkum úr endurunnum pappír. Þróunarstarf þessa fyrirtækis hefur kostað þrautseigju og a.m.k. 20 millj. kr. útgjöld. Fyrirtækið hefur náð góðum tökum á framleiðslunni og nær 25% af innlenda markaðinum. Viðskiptamenn Silfurtúns eru minni eggjabúin og verðið þar er lægra en á innfluttum eggjabökkum sem hægt er að fá keypta frá innflytjendum. Stærstu búin telja sig hins vegar geta fengið bakkana með beinum innflutningi á heldur lægra verði en Silfurtún treystir sér til að selja á nú vegna hárra vaxta af skuldunum eftir þróunarkostnaðinn.
    Þessi innflutningur mun kosta í dag um 30 millj. kr. en Silfurtún hf. er þegar í stakk búið til að anna þeirri framleiðslu allri. Hvert tonn af notuðum pappír, sem kostar

500 kr. að sækja til verksmiðjunnar, verður að 200 þús. kr. verðmæti frá henni. Kostnaðurinn við framleiðsluna er fyrst og fremst innlend orka og vinnulaun. Það er því augljóst hvernig sem á málið er litið hversu mikill ávinningur það er fyrir alla aðila og þjóðarbúið í heild að Silfurtún hf. geti haldið áfram starfsemi sinni og sparað þennan innflutning. Til þess að tryggja það þarf að gera fyrirtækinu kleift að ná niður þróunarkostnaðinum sem að sjálfsögðu er tímabundinn.
    Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 172 um það hvað iðnrn. hefur gert eða áformar að gera til stuðnings endurvinnsluiðnaði og í þessu tilviki sérstaklega hvað þetta ágæta fyrirtæki getur átt von á til þess að komast yfir þessa tímabundnu erfiðleika.