Endurvinnsluiðnaður

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:37:00 (1614)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað iðnrn. hafi gert eða áformi að gera til þess að styðja endurvinnsluiðnað. Ég vil í upphafi benda á að þessi starfsemi heyrir ekki síður undir hæstv. umhvrh., m.a. fyrirtækið Endurvinnslan hf. sem á sínum tíma var stofnað að mínu frumkvæði sem iðnrh. Mér er kunnugt um að hæstv. umhvrh. hefur uppi áform um eflingu endurvinnsluiðnaðar, bæði hvað varðar umbúðir og brotamálm.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að endurvinnsluiðnaður er hér enn skammt á veg kominn. Hann nefndi lítið fyrirtæki í Garðabæ, sem framleiðir eggjabakka úr úrgangspappír. Ég vil líka nefna fyrirtæki á Akureyri sem hefur náð góðum árangri við að framleiða ýmsar vörur úr gúmmíúrgangi. Annað fyrirtæki þar í bæ hefur safnað saman ónýtum fiskkerum og kössum til endurvinnslu. Hér í Reykjavík hefur fyrirtæki um alllangt skeið starfað að því að safna saman netaúrgangi til endurvinnslu. Og þá nefni ég loks fyrirtækin Hringrás og Íslenska stálfélagið sem hugsuð eru til þess að sinna endurvinnslu brotamálms. Öll þessi fyrirtæki hafa verið studd af lánasjóðum iðnaðarins. Iðnlánasjóður hefur líka stofnað sérstakan lánaflokk umhverfislána til þess að greiða fyrir því að fyrirtæki leysi umhverfisvanda.
    En vegna þess sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda sérstaklega um fyrirtækið Silfurtún vil ég nefna það að iðnrn. hefur hvatt eggjaframleiðendur til þess nota fremur eggjabakka úr endurunnum pappír en innflutta plastbakka. M.a. fór ég fram á það við landbrh. á árunum 1989 og 1990 að hann beitti sér fyrir þessu með vísun til búvörulaganna, sem ég ætla að hv. fyrirspyrjandi sé mæta vel kunnugur. Í þessu bréfi, sem ég skrifaði reyndar í mars 1989, var hvatt til þess að sett yrði reglugerð á grundvelli búvörulaganna sem skyldaði eggjaframleiðendur til þess að nota undir framleiðslu sína innlenda eggjabakka úr endurunnum pappír vegna þess að í þeim lögum eru ákvæði að þeir sem njóti verndar samkvæmt þeim eigi að láta innlend aðföng ganga fyrir. Landbrn. mun ekki hafa gert þetta. Mér er hins vegar kunnugt um að hæstv. umhvrh. hefur nýlega heimsótt þetta fyrirtæki í Silfurtúni og hefur í hyggju að reyna að veita því frekari stuðning.
    En svo ég víki nú að almennum málefnum endurvinnslu þá var það svo að áður en umhvrn. var sett á fót fór iðnrn. með þennan iðnað eins og annan og hafði þá forgöngu um stofnun Endurvinnslunnar hf. til þess að safna saman og koma til endurvinnslu skilaskyldum drykkjarvöruumbúðum. Þessu fyrirtæki hefur nú vaxið fiskur um hrygg á þeim tveimur árum sem það hefur starfað. Það hefur náð góðum árangri við það að ná skilum á drykkjarvöruumbúðum. Það flytur notaðar umbúðir út, bæði í formi brotamálms og plasts sem síðan fer til endurvinnslu.
    Í nýlegri umsögn til umhvrn. um breytingar á lögum um endurvinnsluna hefur iðnrn. lagt til að starfssvið Endurvinnslunnar og álagning skilagjalds verði víkkuð til þess að ná til fleiri tegunda umbúða, einnig til hjólbarða, flúorpera og uppsafnaðra rafhlaðna, sem eru býsna erfið þraut við að glíma. Ég tel að þetta fyrirtæki hafi sýnt árangur sem beri að

nýta á fleiri sviðum.
    Ég vildi líka taka fram að iðnrn. lét á sínum tíma semja frv. um söfnun brotamálma og skilagjald á ökutæki. Því miður náðist ekki samstaða um málið en það er nú í höndum umhvrn. Margir aðilar hafa unnið hér að söfnun brotamálma á liðnum árum, lengst af Sindri hf. og síðan Hringrás í eigu sömu aðila. Þeir hafa lengi stundað slíkan rekstur. Brotajárnið var lengi flutt út en með verksmiðju Íslenska stálfélagsins við Hafnarfjörð hafa opnast möguleikar til þess að bræða málminn og flytja hann út í hleifum til frekari vinnslu. Fyrirtækið hefur yfir að ráða sérstökum tætara fyrir ónýt ökutæki og auðveldar það alla vinnslu brotamálmsins. Ég tel þess vegna að nú standi nokkuð upp á hið opinbera að koma upp skipulögðu kerfi til söfnunar brotamálms og koma honum til eyðingar.
    Eins og kunnugt er hefur Stálfélagið átt í erfiðleikum. Ég vona að þeir séu tímabundnir og fyrirtækið geti tekið til starfa á nýjan leik eftir að fjárstofn þess hefur gengið í gegnum eldhreinsun gjaldþrots. Ég tek það fram að iðnrn. hefur stofnað til funda með eigendum og stjórnendum þess félags og ýmsum áhugamönnum um framhald rekstrar þess. Gjaldþrot var óumflýjanlegt en ég bind vonir við að það geti komist á fætur aftur.
    Endurvinnsla úrgangsefna er án alls efa mjög vaxandi og mikilvægur þáttur í okkar atvinnulífi og fyrirspurn hv. 2. þm. Suðurl. því þörf. Meginatriðið er að flokka úrganginn og við munum fylgja þessu máli eftir og reyna að stuðla að því að fram vaxi þessi nýi iðnaður eftir því sem það er á verksviði iðnrn.