Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:49:00 (1618)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. iðnrh. er svohljóðandi:
    ,,Hefur iðnrn. á prjónunum einhverjar aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði?``
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur átt við mikla erfiðleika að stríða á síðustu árum. Svo til öll nýsmíði hefur farið fram erlendis og mörg stærri breytinga- og viðgerðaverkefni. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst þær miklu niðurgreiðslur sem stundaðar eru hjá ýmsum samkeppnisþjóðum okkar. Við slíkar niðurgreiðslur ráðum við ekki en það er fleira sem kemur til. T.d. má nefna að það hefur löngum tíðkast að útgerðir fengju nánast sjálfkrafa bankaábyrgðir fyrir viðgerðaverkefni sem unnin eru erlendis en alls ekki ef verkin eru unnin hér heima. Þá hefur Fiskveiðasjóður lánað sama til viðgerða og breytinga á skipum hvort sem verkið er unnið á Íslandi eða erlendis, en lítils háttar munur er á lánshlutfalli til nýsmíða, 65% til innlendrar smíði en 60% til erlendarar. Loks hafa lánastofnanir afnumið þá reglu sem gilti fyrir nokkrum árum að skylt væri að leita tilboða hjá íslenskum skipasmíðastöðvum áður en lánað væri til verkefna erlendis.
    Fyrir 10 árum voru um 1.000 ársverk í íslenskum skipasmíðastöðvum og má segja að þessi iðngrein hafi þá verið rammíslensk stóriðja. Síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina og starfsmönnum fækkað jafnt og þétt. Jafnframt hafa skipasmíðastöðvarnar átt í miklum erfiðleikum og sumar hafa hætt starfsemi, t.d. Stálvík sem var eitt af leiðandi fyrirtækjum í þessari grein. Aðrar hafa átt í miklum erfiðleikum. Það lætur nærri að starfsmönnum hafi fækkað um allt að helming. Mér sýnist augljóst að verði ekki einhver breyting á högum íslenskra skipasmíða á næstunni þá leggist þessi iðngrein af á allra næstu árum. Það teldi ég óbætanlegt tjón fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stærstum hluta á fiskveiðum. Þá mundi glatast sú mikla þekking og reynsla sem Íslendingar hafa aflað sér á þessu sviði á síðustu þremur áratugum. Einnig má minna á að skipasmíðastöðvarnar hafa verið mjög afkastamiklar í iðnmenntun og stór hluti þeirra málmiðnaðarmanna sem lokið hafa sveinsprófi síðasta aldarfjórðunginn hafa verið nemar hjá þessum fyrirtækjum.
    Ég held að það sé óumdeilt að skip sem byggð eru á Íslandi standist fyllilega samkeppni við það besta sem kemur erlendis frá. Íslensk útgerð þarf einnig á viðgerðaþjónustu skipasmíðastöðvanna að halda. Þess vegna er það mikilvægt að þessi iðngrein nái að snúa vörn í sókn. Nú hefur hæstv. sjútvrh. lagt fram hér á Alþingi frv. sem heimilar erlendum skipum hindrunarlausan aðgang að viðgerðum og þjónustu í íslenskum höfnum en það hefur verið baráttumál Landssambands iðnaðarmanna um langt árabil. Sambandið hefur einnig margítrekað ósk sína um að innlend iðnfyrirtæki sitji við sama borð og erlend hvað bankaábyrgðir varðar svo og að lán eða ábyrgðir lánastofnana til kaupa á erlendri vöru eða þjónustu í samkeppni við íslenskan iðnað fáist ekki nema að undangengnu útboði á innlendum markaði.
    Þessum atriðum ætti að vera létt að kippa í liðinn. Það sem ég tel að skipti hvað mestu máli fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað er að aukinn verði sá munur sem er á lánshlutföllum Fiskveiðasjóðs til erlendra og innlendra skipasmíðaverkefna.
    Það kom fram í svari hæstv. sjútvrh. við fsp. minni fyrr á þessum fundi að hann hefur tekið upp viðræður við stjórn Fiskveiðasjóðs þar að lútandi og ber að fagna því.