Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:59:00 (1621)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Ég heyrði ekki betur en hæstv. iðnrh. héldi því fram að aðalerfiðleikar í íslenskum skipasmíðaiðnaði stöfuðu af því að erfiðleikar væru í íslenskum sjávarútvegi. Ég er ekki sammála þeirri skýringu á málinu heldur hljóti hún miklu frekar að vera sú að þessi verkefni hafa farið meira en góðu hófi gegnir úr landi. Og ef svo er, eins og mér heyrðist á hæstv. ráðherrum, reyndar tveimur hér í morgun, að nú sé verið að grípa til aðgerða til að gera útgerðum erfiðara fyrir hvað það snertir að sækja þessa þjónustu úr landi þá hlýtur það að vera jákvætt.
    Það sem maður óttast í þessu sambandi er að þessi verkþekking glatist. Þó svo fari að samningar um Evrópskt efnahagssvæði, eða GATT-samningar eftir einhver örfá ár, verði til þess að samkeppnisstaða okkar batni verður það hreinlega of seint. Þess vegna hefði maður getað ályktað sem svo að það væri ekki úr vegi að hugsa sér að íslenska ríkið kæmi inn í þessi mál í einhver örfá ár þangað til þau mál verða til lykta leidd.