Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 12:01:00 (1622)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það er sannarlega gott að samviskan hjá hv. stjórnarliðum og þar á meðal hæstv. iðnrh. virðist vera að vakna varðandi stöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar. En það er spurningin hvort það er ekki um seinan. Ályktun Félags dráttarbrauta og skipasmiðja á þessu ári segir að staða íslensks skipasmíðaiðnaðar hafi aldrei verið verri en nú. Þetta segir þar orðrétt. Hæstv. núv. iðnrh. hefur setið í embætti síðan 1988. Hvað hefur hann gert í raun til þess að lyfta stöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar? Það er afskaplega veiklað, svo ekki sé sterkara til orða tekið. Í rauninni eru horfurnar þær að menn standa yfir rústum þessa iðnaðar í landinu sem ætti þó eðli málsins samkvæmt að vera ein öflugasta iðngreinin hér á landi vegna þess heimamarkaðar sem við höfum ef menn hefðu unnið að því að tryggja að iðnaðurinn nyti þess og um eðlilega viðskiptahætti væri að ræða því við höfum allan rétt til að grípa inn í m.a. með jöfnunartollum vegna niðurgreiðslu erlendis.