Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 12:06:00 (1625)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson ):
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svar við fsp. minni og öðrum þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og lagt þessu máli lið. Hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um hvað gert hefði verið fyrir skipasmíðaiðnaðinn af hálfu hans ráðuneytis á undanförum árum. Það er rétt hjá honum að hann gekkst fyrir því að fá breskt ráðgjafarfyrirtæki til að gera úttekt á stöðu þessa iðnaðar og tillögur um úrbætur sem mættu leiða til framleiðniaukningar. Þetta var mjög þarft og gott verkefni og skilaði fyrirtækið að mínu viti mjög góðri skýrslu og góðum tillögum sem að vísu hafa ekki náð að nýtast mikið vegna þeirrar verkefnaþurrðar sem verið hefur í þessum iðnaði. Framleiðniaukningin hefur að sjálfsögðu ekki skilað sér vegna þess að fyrirtækin hafa ekki haft verkefni. Þó má segja að hún hafi skilað sér varðandi það eina nýsmíðaverkefni sem Slippstöðin á Akureyri fékk á þessum tíma að smíða skipið Þórunni Sveinsdóttur fyrir Vestmannaeyinga. Það var gert með nýjum aðferðum og tókst alveg sérstaklega vel bæði hvað varðaði að skila skipinu á réttum tíma og eins hafa útgerðarmaður og skipstjóri skipsins hælt þessu verki alveg sérstaklega, bæði frágangi og öllum samskiptum við stöðina. Það staðfestir það sem ég sagði áðan að íslensk framleiðsla er í hæsta gæðaflokki.
    Hæstv. ráðherra nefndi það að erfiðleikar sjávarútvegsfyrirtækja ættu kannski stærstan þátt í því hve lítil verkefni væru fyrir íslensku stöðvarnar. Þetta er nú reyndar búið að segja í fimm, sex ár að það hafi verið erfiðleikar í sjávarútvegi og ekki hægt að búast við verkefnum fyrir stöðvarnar á meðan en samt er það nú svo að öll þessi ár hafa verkefnin streymt til útlanda í milljarðavís. Og það er ekkert lát á því. Eins og hér hefur komið fram eru menn nýbúnir að semja um nýsmíðar erlendis fyrir eina fimm milljarða. Hann nefndi það einnig að viðgerðaverkefni hefðu flust inn í landið. Það er rétt og það er vegna þess að innlend tilboð hafa einfaldlega verið samkeppnisfær við erlend.
    Ég vil ítreka það að breyting á útlánareglum Fiskveiðasjóðs í þá veru að auka muninn á lánshlutfalli til innlendra og erlendra verkefna skiptir þessa greina mjög miklu máli og ég veit að hæstv. iðnrh. mun í félagi við hæstv. sjútvrh. fylgja því máli fast eftir. Það hlýtur að vera auðvelt að verða við þessu með bankaábyrgðirnar. Hæstv. ráðherra taldi að það skipti ekki miklu máli vegna þess að Íslendingar þekktu hver annan svo vel. Íslenskar stöðvar þekktu íslenska útgerðarmenn. Það er rétt en reynslan er nú samt sú að menn hafa setið uppi með víxla og verðbréf og alls konar pappíra sem þeir hafa fengið í hausinn og hafa valdið þessum stöðvum ómældum erfiðleikum og oft á tíðum tapi. Ég hef mikla trú á íslenskum skipasmíðaiðnaði og tel að stjórnvöld verði að skapa þær aðstæður að hann komist yfir þá erfiðleika sem hafa verið að lama þessa iðngrein síðustu árin. Það er talið að niðurgreiðslur í samkeppnislöndum okkar muni leggjast af á næstu árum og það má ekki ske að þegar til þess kemur verði íslenskur skipasmíðaiðnaður liðinn undir lok.
    Vegna þeirra orða hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar um að samviska stjórnarliða væri að vakna í þessu máli þá vil ég minna hv. þm. á að sjálfur hefur hann verið stjórnarliði síðustu þrjú árin og það hefur aldrei í sögu skipasmíðaiðnaðarins fjarað eins hratt undan þessari grein eins og á þeim árum.