Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 14:07:00 (1631)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að segja nokkur orð um þetta frv. sem er til umræðu um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er ekki í fyrsta skiptið sem við sjáum það hér og ekki heldur í fyrsta skipti sem ég tek til máls um þetta mál eða svipað mál.
    Ég vil taka undir það sem komið hefur fram að þetta er að mörgu leyti mjög gott mál. Það er mjög mikilvægt að kostur sé á starfsmenntun svo og endurmenntun í þjóðfélaginu en ég hefði fremur kosið að þetta mál hefði verið hluti af stærra máli, þ.e. tekið hefði verið á fullorðinsfræðslunni í heild sem er mjög mikilvægt mál. Langar mig í því sambandi, virðulegur forseti, að minna á að hér hafa verið flutt frumvörp um fullorðinsfræðslu á síðustu þingum en ekki hlotið afgreiðslu frekar en þetta mál sem við hér fjöllum um.
    Nokkur atriði vil ég sérstaklega gera að umtalsefni og þá sérstaklega það að starfsmenntun skuli eiga að heyra undir félmrn. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að félmrn. hafi hönd í bagga með samningu þessa frv. og undirbúning en ég tel með öllu óeðlilegt að gert sé ráð fyrir að menntun í þjóðfélaginu sé ætlað að vera á víð og dreif um allt stjórnkerfið.

    Á 108. löggjöfarþingi var flutt till. til þál. um fullorðinsfræðslulög. Flm. þeirrar till. voru hv. þm. sem þá voru Guðrún J. Halldórsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín Halldórsdóttir. Fskj. við þessa tillögu var frv. til fullorðinsfræðslulaga sem samið var m.a. af Guðrúnu J. Halldórsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Í 2. gr. þessara frumvarpsdraga segir m.a., með leyfi forseta, í b-lið þar sem talað er um í hverju fullorðinsfræðsla eigi að felast eða hvernig hún greinist:
    ,,Starfsnám, viðbótarmenntun og endurmenntun fer fram á vegum heildarsamtaka launþega og/eða atvinnurekenda ellegar ríkis og sveitarfélaga og skulu áðurgreindir aðilar hafa með sér samráð um námið eftir því sem þörf krefur.`` Og í c-lið segir: ,,Félagsleg menntun í tengslum við atvinnulífið fer fram á vegum heildarsamtaka launþega eða í samvinnu milli heildarsamtaka launþega og atvinnurekenda.``
    Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir því að menntmrn. fari með yfirstjórn allrar þeirrar fullorðinsfræðslu sem fellur undir lög þessi þannig að ekki er gert ráð fyrir að starfsmenntunin sé þarna undanskilin. ( Gripið fram í: Hver flytur þetta?) M.a. var þáv. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var ein af þeim sem samdi frv. Ég get endurtekið hverjir það voru, ég taldi þá reyndar ekki upp alla en það voru Haukur Ingibergsson, Einar Ólafsson, Birna Bjarnadóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir. Ég get sagt að ég sé sammála þeim sem sömdu þetta frv. um að starfsnám eigi að falla undir menntmrn. eins og önnur menntun. Ég get ómögulega fallist á það, og get raunar ekki séð nein rök fyrir því, að það eigi að falla undir félmrn. né heldur önnur ráðuneyti. Ég tel heldur ekki eðlilegt að starfsfræðsla í fiskvinnslu skuli heyra undir sjútvrn. Að því leyti til er ég ekki sammála þeim sem talaði á undan mér. Ég tel að öll menntunin eigi að vera í menntmrn. Á sínum tíma þegar hér var til umræðu og samþykkt frv. til laga um Félagsmálaskóla alþýðu flutti ég brtt. við það frv. í þá veru að sá skóli mundi falla undir menntmrn. og færði fyrir því ýmis rök. M.a. hefur komið í ljós að í Danmörku hafa verkalýðsfélög horfið frá þeirri stefnu að starfsmenntun og menntun á þeirra vegum heyri undir félmrn. eða önnur ráðuneyti en ráðuneyti menntamála. Það hefur verið talið mjög óheppilegt, sérstaklega þegar um er að ræða viðurkenningu á námi þeirra sem mennta sig á þann hátt úti í hinu almenna skólakerfi. En það tel ég hins vegar mjög mikilvægt atriði. Ég tel mjög mikilvægt að fólk sem fer í skóla, hvort sem hann heitir Félagsmálaskóli alþýðu, starfsmenntunarskóli eða fullorðinsfræðsla eða hvað sem er, geti fengið viðurkenningu inni í hinu almenna skólakerfi.
    Í 15. gr. frv. er gert ráð fyrir að nám sem er styrkt skv. þessum lögum fáist metið til námseininga skv. reglum sem menntmrn. setur. Þetta er í eina skiptið sem menntmrn. kemur við sögu í þessu frv., og það þykir mér mjög óeðlilegt. Menntmrn. á að setja einhverjar reglur, væntanlega eftir á, þegar í ljós kemur hvernig námið er. Óvissa þeirra sem fara í slíkt nám er mjög mikil um það hvernig námið verður metið eftir að því lýkur. Það getur verið mjög mikilli óvissu háð hvernig það kemur út eftir á.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji eðlilegt að menntun á þessu ákveðna sviði heyri undir félmrn. og einnig vil ég spyrja, og reyndar bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. félmrh., að því hvernig menntun innan Iðnskólans kemur inn í þetta. Skörun hlýtur að vera þarna á milli því það kemur fram í a-lið 3. gr, þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Grundvallarstarfsmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein í framleiðslu og þjónustu.`` Ég hélt að þarna gæti margt sem Iðnskólinn menntar til fallið undir. Þarna getur því orðið ruglingur á milli og ég tel að enn þá mikilvægara sé að samræmi sé á milli og yfirstjórn samræmd. Þess vegna vil ég spyrja hvers vegna þessi leið var valin, að hluti starfsmenntunar falli undir félmrn. en önnur starfsmenntun undir menntmrn. Og einnig langar mig til að spyrja, ég hef ekki heyrt nein sannfærandi

rök um það, af hverju þetta þarf að vera undir félmrn. Ég hef reyndar spurt að því áður og ekki getað fengið viðhlítandi svör. Ég endurtek þá spurningu vegna þess að mér er hulin ráðgáta hvers vegna þessi leið er valin. Og mig langar jafnframt að spyrja hæstv. félmrh. hvað hafi breyst á þessum árum sem breytir skoðun hennar á því að starfsnámið eigi ekki að heyra undir menntmrn., eins og þó virtist vera hennar skoðun árið 1985 er þessi tillaga var lögð fram, á þinginu 1985--1986. Þó að ég telji að það sé mjög margt gott í þessu frv. og ég gæti svo sannarlega tekið undir velflest finnst mér þetta vera það stór galli og geta í raun haft neikvæð áhrif fyrir fólk sem í góðri trú fer að mennta sig undir ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður. Þetta getur orðið mikill hrærigrautur. Ég tel nær að flytja alla fræðsluna yfir til menntmrn. í stað þess að fara þá leið sem hér er valin, þ.e. að flytja þá menntun sem nú þegar er annars staðar eins og t.d. Félagsmálaskóla alþýðu og starfsmenntun í fiskvinnslu og fleira, þannig að hægt sé að hafa samræmingu þarna á milli svo að fólk geti vitað nákvæmlega að hverju það gengur þegar það fer að mennta sig.
    Ég vil svo leyfa mér, virðulegur forseti, að leggja það til að þessu máli verði vísað til menntmn. en ekki félmn. En ef það verður samt sem áður ákveðið að því verði vísað til félmn., þá þykir mér einsýnt að menntmn. muni þurfa að fjalla um þetta mál svo nátengt sem það er öðrum menntamálum. Finnst mér augljóst að til þess að hægt sé að fallast á þetta frv., verði að breyta þessu ákvæði, þ.e. ákvæðinu um það að starfsfræðsla falli undir félmrn.