Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 14:40:00 (1634)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Hér hafa orðið allnokkrar umræður um það frv. sem á dagskrá er

um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er vel vegna þess að í mínum huga er hér mjög stórt mál á ferðinni og kannski eitt stærsta vinnumarkaðsmálið og skiptir miklu máli hvernig Alþingi tekur á því, ekki síst fyrir láglaunafólk í landinu og til þess að tryggja betur atvinnuöryggi launafólks.
    Það sem hefur nokkuð verið rætt um er hvar vista ætti slík lög ef þau verða samþykkt og mér sýnist að á því séu nokkuð skiptar skoðanir. Einmitt um þetta atriði hefur mikið verið fjallað í félmrn. en þetta mál hefur verið í undirbúningi þar allar götur frá 1988. Reyndar hefur þetta mál, starfsmenntun í atvinnulífinu, komið nokkuð oft fyrir þingið. Þetta er í þriðja skipti að mig minnir að þetta frv. kemur fyrir þingið, en þar áður, á árunum 1984, 1985 og 1986, flutti ég frumvarp um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Ég læt það koma hér fram vegna orða hv. þm. Kristínar Einarsdóttur en það kom einmitt fram í því frv. að yfirstjórn á endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu ætti að heyra undir félmrn. Það sem hv. þm. vitnaði í var þáltill. þar sem einungis var kveðið á um að fela menntmrh. að semja löggjöf um fullorðinsfræðslu, en ekki fjallað um starfsendurmenntun eða endurmenntun. Að vísu má hugsanlega lesa það út úr því frv. sem hv. þm. vitnaði í og ég átti aðild að 1977, en ég hef kynnt mér þetta mál mjög vel síðan, eins og ég vitnaði til, og hef þrisvar sinnum sem þingmaður flutt þetta frv. og þá var alveg skýlaust tekið á því að yfirstjórn starfsmenntunar ætti að heyra undir félmrn.
    Ég vil vitna til þess að aðilar vinnumarkaðarins komu að því að semja þetta frv. Það var fulltrúi frá Alþýðusambandinu, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Vinnuveitendasambandinu og frá menntmrn. Sérstakur ráðgjafahópur var einnig skipaður í tengslum við samningu þessa frv. og í þeim ráðgjafarhópi áttu sæti fulltrúi tilnefndur af iðnrn., af Sambandi ísl. bankamanna, fulltrúi tilnefndur af starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, af Verkamannasambandi Íslands, frá sjútvrn., Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, frá landbrn. og fulltrúi tilnefndur af Bandalagi háskólamanna og Bandalagi kennarafélaga og eins fulltrúi tilnefndur af fræðslumiðstöð iðnaðarins. Mjög margir aðilar hafa þannig komið að þessu máli og ég veit ekki betur en samstaða hafi orðið um þetta mál í þeim búningi sem það hefur hér verið lagt fram af þeim aðilum sem um það hafa fjallað. Einnig er ljóst að Alþýðusamband Íslands hefur ályktað um þetta mál. Það ályktaði 1988 að sett skyldi rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu og þar kom fram að kveðið yrði á um yfirumsjón félmrn. með starfsmenntun í landinu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur, fræðslustofnanir og ráðuneyti. Þannig er alveg ljóst hver afstaða Alþýðusambandsins er og það eru einmitt félagar í Alþýðusambandi Íslands sem ekki eiga síst að njóta góðs af þessari löggjöf ef hún verður samþykkt hér á þinginu en afstaða Alþýðusambandsins er mjög afdráttarlaus í þessu máli.
    Það er alveg ljóst að um tíma var ágreiningur milli menntmrn. og félmrn. þegar þetta frv. var samið fyrir tveimur eða þremur árum. Þetta varð engu að síður niðurstaðan. Vil ég benda þingmönnum á að í fskj. með þessu frv. kemur niðurstaðan úr viðræðum fulltrúa félmrn. og menntmrn. um þetta mál fram og rökstuðningurinn fyrir því, af því að menn kalla hér eftir rökstuðningi, af hverju starfsmenntunarmálum yrði skipað með þeim hætti sem hér er lagt til þá kemur þar fram, með leyfi forseta:
    ,,Viðræðunefndin hefur fjallað um ,,Ábendingar um efni hugsanlegra fullorðinsfræðslulaga`` og álitsgerð um ,,Starfsmenntun í atvinnulífinu``. Einkum hefur verið rætt um það hvort gerlegt sé að setja eina löggjöf sem taki til allrar fullorðinsfræðslu, þar á meðal talin starfsmenntun í atvinnulífinu eins og hún er skilgreind í álitsgerðum vinnuhóps á vegum félmrn. Eftir ítarlegar umræður er niðurstaðan sú að rétt sé að sett verði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyri til verksviðs félmrn. og önnur um fullorðinsfræðslu er heyrir til verksviðs menntmrn. Meginröksemdin fyrir niðurstöðunni byggir á því að til starfsmenntunar í atvinnulífinu er oft stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldbinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Forsendur slíkra samningsákvæða eru breytingar á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér er því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða þar sem forsenda árangurs eru sem mest áhrif aðila vinnumarkaðarins á alla framkvæmd.`` Þetta er sameiginleg niðurstaða fulltrúa beggja þessara ráðuneyta en þátt í þessum viðræðum tóku Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Gylfi Kristinsson, Helgi Guðmundsson, Karl Kristjánsson, Þráinn Hallgrímsson og Þuríður Magnúsdóttir.
    Ég vil einnig benda á að alls staðar þar sem ég þekki til í nágrannalöndunum þar sem ég hef nokkuð kynnt mér þetta mál er það svo að starfsmenntun í atvinnulífinu heyrir undir vinnumarkaðsráðuneytið og það er ljóst að í löndunum í kringum okkur er alls staðar til löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu. Þar er verulegum fjármunum varið til starfsmenntunar í atvinnulífinu en við verjum ekki nema broti af því sem okkar nágrannaþjóðir verja í þessu skyni. Ég hygg einnig að leitun sé að því landi í nágrenni við okkur sem ekki hefur ákveðna rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Hv. 3. þm. Vestf. fór mjög ítarlega yfir þetta svið og í hans máli kom fram ýmislegt sem ég get tekið undir. Það svarar ýmsu sem hefur komið hér fram, t.d. því, eins og einn hv. þm. nefndi, að hér væri um miðstýringu að ræða og það væri verið að færa frumkvæði í þessu efni inn í félmrn. Ég tel að þetta sé alrangt. Það er ekki stefnt að uppbyggingu sjálfstæðs starfsmenntunarkerfis að erlendri fyrirmynd með þessu frv. Þvert á móti er stefnt að fyrirkomulagi sem tekur mið af íslenskum aðstæðum en í þessu felst að ekki er gert ráð fyrir frumkvæði félmrn. að starfsmenntun né framkvæmd af þess hálfu. Hér er fyrst og fremst um að ræða rammalöggjöf sem undirstrikar skyldu stjórnvalda til að örva starfsmenntun í atvinnulífinu. Og hugmyndin er sú með þessu frv. að byggt verði sem mest á því frumkvæði sem ýmsir aðilar hafa haft á þessu sviði á undanförnum árum.
    Einnig má nefna til viðbótar að það er ekki verið að breyta fyrirkomulagi sem ýmsir aðilar hafa farið eftir með góðum árangri. Það er fyrst og fremst verið að leggja til að almenn rammalöggjöf um þetta efni verði sett. Það er einmitt mjög mikilvægt að til sé heildaryfirsýn yfir alla starfsmenntun í landinu sem verulega hefur skort á. Eitt af hlutverkum starfsmenntaráðs er m.a. að fylgjast náið með þróuninni á vinnumarkaðinum og í atvinnulífinu.
    Ég sé ekki, virðulegi forseti, ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil þó nefna að það sem fram kom í máli hv. 2. þm. Vestf., Ólafs Þ. Þórðarsonar, áðan er vissulega allrar athygli vert og það er auðvitað nauðsynlegt að gera allt sem hægt er til að örva það að launþegar auki sína starfsmenntun og þetta er ein leið til þess sem hér er nefnd hjá hv. þm.
    Ég legg áherslu á að það verði hv. félmn. sem fjalli um þetta mál og því verði vísað til hennar.